Listi – Tækjalisti #2

Tvö blogg á tveimur dögum! Hvað er eiginlega í vatninu á Kársnesinu?

Það eru mörg tæki auglýst um heim allan sem það besta síðan skorið brauð en það er ekki alltaf svo að tæknin sé eins frábær og sagt er í glanstímaritum.

Snjallúr
Snjallúr er eitt af þeim tækjum sem að ég hef ekki enn náð fullri sátt við þrátt fyrir að vera svokallaður nörd og hafa prófað flest snjallúr sem til eru og haft snjallúr á úlnliðnum á hverjum degi í mörg ár.

Þessi úr eða litlu tölvurnar sem þessi úr vissulega eru eiga að auðga líf okkar, veita okkur innsýn um okkur sjálf sem að við höfum ekki aðgang að öllu jafnan og einfalda lífið svo um munar.

Það er kannski ekki alveg þannig. Það fyrsta sem ég tel upp er eiginlega banabiti snjallúranna eins og staðan er í dag. Það þarf að hlaða þau nær daglega, það síðasta sem að ég geri áður en ég fer að sofa er að skella úrinu mínu í hleðslu. Ef að ég gleymi því get ég bara gleymt því að vera með úrið daginn eftir eða þá þarf að hlaða það í vinnunni. (Hægt ef maður hefur splæst í annað hleðslutæki eða ef úrið styður þráðlausa hleðslu og maður lumar á hleðslumottu í vinnunni)

Það gerist líka stundum að ég hef sett úrið í hleðslu samviskusamlega kvöldið áður en gleymi því svo í hleðsludokkunni og fer með allsberann úlnliðinn út í daginn. Pebble er eina snjallúrið sem ég hef átt þar sem hlaða þarf aðeins einu sinni í viku en Pebble er samt ekki eins fullkomið og Apple Watch eða snjallúr sem keyra Android Wear.

Snjallúrin skella svo tilkynningum úr símanum á úlnliðinn sem er oft mjög þægilegt en getur líka bara verið bévítans truflun. Það endaði með því að ég hef stillt úrið til að sýna aðeins tilkynningar frá ákveðnum öppum sem að ég vil fá, annað fer bara í símann. Þægilegt þá já, en ekkert allir notendur og þá ekki þeir sem kallast venjulegir notendur sem nenna að standa í því eða hreinlega hafa kunnáttu til þess.

Það frábæra við snjallúr og það sem ég elska hvað mest við þau er að ég get stýrt öppum í gegnum úrið. Mér finnst það frábært til að stýra Spotify, ég get stýrt sjónvarpinu mínu þegar að stelpurnar vilja horfa á annan þátt af einhverjum uppeldisþættinum sem að mun gera þær að heilsteyptari manneskjum og haldið áfram að saxa blaðlauk og hræra í sósunni og þannig sloppið við ferð inn í stofuna. Þetta eru samt lúxusvandamál, réttlæta ekki verðmiðann á þessum úrum.

Annað sem er frábært við snjallúr, eitthvað sem reyndar er hægt að gera með símanum líka en er einfaldlega þægilegra með úrinu er að gúggla, biðja það að taka tímann og setja niður áminnningar byggðar á staðsetningu. Þannig get ég auðveldlega sett tímann af stað þegar eitthvað fer inn í ofn, auðveldlega breytt úr fahrenheit yfir í celsíus, breytt únsum í grömm, spurt um veðrið í Boston afþví að Kristín er að fara þangað, spurt hvernig litla systir er sagt á japönsku bara afþví að Margrét Dúna vill vita það og beðið úrið/símann að minna mig á að taka kassann úr skottinu þegar ég er næst hjá mömmu og pabba.

En að tala í úrið í símtali mun enginn sjá mig gera, það er bæði mega hallærislegt og ekki töff. Dick Tracy og Captain Kirk voru ekki töff að tala í úlnliðinn á sér.

Púls og skrefamælar ásamt því að skynja hversu fljótur ég er að sofna og meta hversu vel ég sef framkvæma sum úrin svo. Púls og skrefamælingar eru allt í lagi, ég tek samt úrið af mér ef ég er að hreyfa mig af einhverju ráði. Og ég hef ekkert við svefnmælingar að gera, þá er úrið í hleðslu. Hlaupafólk ætti að kaupa fitness mæla eins og Fitbit, Garmin og allt það dót sem getur svo líka mælt svefninn og þarf ekki hleðslu nær daglega.

smart-watches

Þetta varð óvart mjög langt, geymi því fleiri tæki í þessa upptalningu þangað til næst. Hvenær sem það verður.

 

 

4 athugasemdir á “Listi – Tækjalisti #2

  1. @finnur
    Gleymdi þeim punkti sem var reyndarí hausnum á mér, að raddstýringin öll sem er stór hluti í Apple Watch og Android Wear er svo asnaleg fyrir okkur Íslendinga. Ég svara ekki skilaboðum og tölvupóstum á ensku. Ég get þó talað á íslensku við símann minn og hann skilur mig, ég gef Android það en úrið getur það ekki enn.

    Þú getur kannski púllað þetta í þínu alþjóðlega Meniga-íska umhverfi en ég yrði bara álitin skrýtinn að svara á ensku alltaf 🙂

  2. Call my wife, Set a reminder, countdown, play some black keys og farenheit to celcius eru algengustu skipanirnar. Er minna í að svara skilaboðum eins og Dick Tracy

  3. Þetta eru reyndar skipanir sem að ég sjálfur nota, sérstaklega reminder, countdown og umbreytingar úr F í C í eldhúsinu. Já og að spyrja um veðrið.

    Núna þarf ég að uppfæra færsluna, damn it!

Færðu inn athugasemd