Hið snjalla Kársnes

Síðustu fimm ár eða svo hefur IoT, Internet of Things, Internet hlutanna, Internet allra hluta eða bara snjallvæðing verið aðal tískuorðið á öllum ráðstefnum sem að ég heimsótt. Bakvið öll svona tískuorð eru alltaf stór og mikil loforð, sem flest eru byggð á sandi eða uppbygging á miklum skýjaborgum. Svona eins og sagt er að Svíþjóð sé hið útópíska velferðarríki sem það er ekki.

Snjallvæðing á Kársnesinu á þeim stað sem ég kalla griðarstað og heimili er langt komin. Svo langt komin að ég get stýrt öllum fjandanum miðlægt hvar sem er í heiminum eða bara með minni ómfögru röddu sem hefur troðið upp í Laugardagshöll, Hörpunni, Nasa, verið notuð í Coca Cola auglýsingu og so videre eins og Danir myndu segja, það er nefnilega töff að sletta á dönsku.

Ég er kannski ekki að leysa öll heimsins stærstu vandamál með þessari snjallvæðingu en fjandinn hafi það hvað mér finnst þetta samt skemmtilegt, og auðvitað töff.

Og hvað geturðu gert Guðmundur? hugsið þið þá eflaust. Sem er eðlilegt.

Ég get stýrt ljósum, hitastigi á ofnunum, stýrt sjónvarpinu og öllum tækjum sem tengjast því. Ég get læst útidyrahurðinni og opnað hana ásamt því að láta hana opnast sjálfkrafa ef ég stæði nú fyrir utan með fullar hendur af pinklum og pokum. Ég get sagt hin og þessi orð og þá gerast bara hlutirnir fyrir kraftaverk. Þar sem íslenskan okkar ástkæra er örmál í stóru samhengi hlutanna verð ég þó að segja allt á ensku sem er alltaf pínu spes og asnalegt.

Þegar ég segi „Let´s watch a movie“ fer sjónvarpið í gang, það kviknar á HTPC vélinni, sjónvarpið fer á rétt HDMI tengi, lampinn hliðina á sjónvarpinu slekkur á sér og ég er tilbúinn í einhverja veislu eða sorglega drama mynd ef vera skyldi að ástkær eiginkona mín og barnsmóðir fái að velja mynd, sem gerist allt of oft og ég verð því að vera viðbúinn því að gráta í boga.

Með hinum þessum orðum get ég þannig stýrt nokkrum heimilistækjum, tengt þau saman þannig að tæki A geri eitthvað og líka tæki B og C og D líka. Ef að tæki A skynjar X framkvæmir tæki B eitthvað sem er skilgreint sem Y.

Dæturnar tvær, heimasæturnar á Kársnesi eru svo með takka inni hjá sér sem kveikir eða slekkur á öllum lömpum inni hjá þeim svo þær séu nú ekki alltaf að kveikja bara eitt ljós í loftinu því þær nenna ekki að kveikja á hverjum lampa fyrir sig og eru þannig að leika og læra með kjörlýsingu og öll lumens og Kelvin gráður eru á kórréttum stað skv. geðþótta innanhússhönnuðarins sem móðir þeirra er í hjarta sínu.

Rakaskynjarar við þvottavél og uppþvottavél fylgjast með og myndu láta mig vita strax ef eitthvað myndi fara að leka. Reykskynjarinn er snjall og mælir líka raka og hitastig og talar þannig við ofnana líka. Þannig veit ég líka alltaf hvenær ég ætti að lofta út og allskonar.

Sé fjölskyldan á ferðalagi er auðvelt að fylgjast með hvort allt sé í lagi, fylgjast með pallinum, hvort að hurðir og gluggar séu ekki læstir og lokaðir og hægt að fikta í ljósum og breyta þeim til, slökkva og kveikja á sjónvarpi þannig að það líti út fyrir að einhver sé heima þó að ég sé bara tvö þúsund kílómetra í burtu. Hreyfiskynjarar setja svo myndavélina af stað og ég get fylgst með hvað sé í gangi.

Það eru tvær hliðar í þessar snjallvæðingu, að gera heimilið snjallt eða að setja upp einhversskonar snjallt eftirlitskerfi. Ég er hrifnari af snjallvæðingu heimilins, eftirlitshlutinn er of einfaldur og eiginlega leiðinlegur.

En allt er þetta skemmtilegt og gaman frekar en að þetta sé að leysa öll mín vandamál eða að bæta lífsgæði mín á á einhvern hátt. Þetta er nördaskapur, sem er gaman.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s