Fjögur Ká!

Verandi tæknilúðinn sem ég er finnst mér gaman að fikta, lesa mér til og vita hvernig hlutirnir virka og afhverju þeir virka eins og þeir gera. Því fylgir líka ákveðin kostur og galli að maður þarf að kaupa og eiga allskonar dót, svo maður geti raunverulega fiktað og prófað sig áfram.

Markaðsdeildir raftækjaverslana og sjónvarpsverslana eru óðar þessa dagana ásamt framleiðendum leikjatölva að hamra á orðunum 4K og HDR. Eins og það segi venjulegum neytendum eitthvað. En auðvitað því stærra letur og feitletrun, því betra ekki satt?

Kannski ekki alveg!

4K eða UltraHD (UHD) segir til um fjölda pixla sem að sjónvarpið sýnir. Gamla góða túbusjónvarpið okkar tengt með SCART tengi við VHS long-play tækið okkar sýndi okkur myndina í SD (standard definition) sem þýðir pixafjöldi upp á 640 pixla lárétt yfir sjónvarpið og 480 pixla lóðrétt.

Flatskjávæðingin færði okkur svo háskerpuna með 720p og 1080p. Og 720p eru 1280 pixlar lárétt og 720 pixlar lóðrétt en 1080p nær 1920 pixum lárétt og 1080 pixlum lóðrétt.

1080p (1920×1080) var af markaðsdeildum kallað FullHD til einföldunar.

4K/UHD er 3840 pixlar lárétt og 2160 pixlar lóðrétt og ætti því að kallast 2160p en markaðslega er það kallað 4K/UHD til einföldunar og til að það hljómi betur.

4K/UHD þýðir því bara á mannamáli að það eru miklu fleiri pixlar en í 1080p/FullHD og því miklu meiri gæði. En til að maður geti notið þessara gæða þarf að eiga sjónvarp sem styður þessa upplausn því annars getur hún ekki sýnt hana. Að sama skapi þarf efnið sem maður spilar á sjónvarpinu að vera í 4K upplausn. Mörg tæki uppskala efnið upp í 4K en það er ekki það sama enda verður efni sem er tekið upp í FullHD ekki alvöru 4K efni þrátt fyrir einhverja galdra sjónvarpsins.

Að efni sé í 4K þýðir svo líka að efnið er meira um sig, það tekur meira pláss. Það þýðir að maður þarf stærri tengingu, efni streymt yfir netið í 4K er oftast þjappað mjög mikið niður og þar tapast niður gæði þó að kóðarar sem þjappa efnið eru alltaf að verða betri og betri. BluRay diskar eru kannski ein besta leiðin til að horfa á 4K efni sem minnst þjappað en það þýðir líka að maður þarf að kaupa stakar myndir og fara að safna myndum eins og með vinyl, VHS spólur, geisladiska og DVD diska. Því nennir engin árið 2018.

Það væri svo hægt að niðurhala 4K efni af netinu en þá þarf diskapláss, tæki sem styður að spila 4K myndefni og net innanhúss og dót sem ræður við alla þessa bandvíddarþörf. Sem er svosem ekkert mál, en eiginlega ekki þess virði.

Stóri fíllinn í herberginu.

Stóra vandamálið við 4K er ekki að maður verði að eiga 4K sjónvarp eða að maður þurfi að finna 4K efni. Stóra vandamálið er mannslíkaminn.

Til að augun okkar sjái muninn á 4K og FullHD þarf maður annað hvort að vera næstum ofan í sjónvarpinu eða með því stærra sjónvarp. Og þá erum við að tala um mjög stórt sjónvarp. Vísindin segja okkur að ef við sitjum 1,5 metra frá sjónvarpinu þarf 84¨sjónvarp eða stærra. Ef þú ert með 55¨ sjónvarp þarftu að sitja 91 cm frá sjónvarpinu eða styttra, sem er auðvitað galið og ekki í takti við raunverulegar aðstæður fólks þegar að kemur á áhorfi á sjónvarp.

Fyrir tölvuleiki er 4K mikið stökk enda verða gæðin á grafík leikjanna talsvert meiri en áður. Það gildir samt það sama, stærð leikjanna verður miklu meiri sem þýðir að harðir diskar verða fyrr fullir. Kosturinn er þó að tölvuleikjaspilarar sitja oftast ofan í tölvuskjánum og augun þeirra sjá því muninn. Á leikjatölvunum er það svo þannig að aðeins PS4 Pro og Xbox One X geta náð 4K upplausn en því fylgja gallar sem ég ætla ekki í hér enda rammar á sekúndu og „checkerboard rendering“ ekki hlutir sem ég ætla að æra ykkur með.

HDR

Svo er það hitt tískuorðið, HDR sem er miklu meiri bylting en 4K að mínu viti enda sést stökkið sem þessi tækniþróun færir okkur strax óháð því hversu langt frá sjónvarpinu þú situr.

HDR (High Dynamic Range) er staðall sem segir okkur að sé sjónvarpið HDR samhæft að það ráði við enn meiri skerpu og geti sýnt enn meiri litagleði. Það getur sýnt enn fleiri skala af svörtum og hvítum og með aukinni skerpu getur það ýkt og deyft liti að vild sé búið að vinna myndefnið fyrir HDR.

Til að flækja þetta aðeins eru tveir staðlar í heimi HDR að berjast um markaðshlutdeild. HDR 10 og Dolby Vision, það eru þó til fleiri staðlar sem berjast með eða hafa sín sértæku hlutverk eins og HDR 10+, HLG, PQ og SL-HDR1 en fyrir massann þarna úti eru það HDR 10 og Dolby Vision sem skipta máli.

HDR 10 er algengastur og hefur vinninginn þegar kemur að tækjum og myndefni sem hann styður. Það hjálpar að AppleTV, Playstation og Xbox styðja hann enda er ókeypis að nota hann.

Dolby Vision frá Dolby eins og nafnið gefur til kynna er aðeins betri en HDR 10 en hann styður 12 bita litadýpt og inniheldur lýsigögn (metadata) sem hjálpar við stýringu á birtustigi og skerpu ramma fyrir ramma. En að nota Dolby Vision og styðja það kostar framleiðendur tækjanna peninga því Dolby tekur gjald fyrir notkun þess, það mögulega er stærsta ástæðan fyrir því að ekki öll tæki styðja HDR 10 sem er ókeypis og Dolby Vision.

En fyrir venjulegt fólk skiptir þetta engu máli, efni í HDR og sýnt á HDR tæki er ótrúlega fallegt. Maður tekur virkilega eftir muninum og það er fullt af HDR efni í boði bæði á YouTube og Netflix og tölvuleikir eru meira og meira farnir að nýta sér tæknina til að gera leikina enn fallegri.

Og hvað Guðmundur?

Ekki borga fúlgur fjár fyrir 4K tæki sem þú ætlar að sitja langt frá, reyndu frekar að velja tæki sem styður líka HDR og er í eðlilegri stærð. Þú munt alltaf kunna að meta myndefni í mestu mögulegu myndgæðum þó að augað á þér sjái það ekki og HDR lætur myndefnið líta enn betur út. 4K og HDR er framtíðin og nútíðin að einhverjum leiti en látum sölumenn ekki plata okkur í að kaupa eitthvað sem að við þurfum ekki.

 

 

Færðu inn athugasemd