Alveg síðan í júní 2000 þegar ég byrjaði að skrifa hingað inn hefur mikið og margt verið skrifað. Oftast um mig sjálfan (frábær.net kallast síðan í lokuðum hópum), tónlist eða tækjadót.
Þetta er eitt af þessum tækjabloggum. Þau eru mörg raftækin og hlutirnir sem ég tók úr plasti og ýti á On takkann eða hlutir þarna á netinu í þessu svokallaða skýi sem að ég byrjaði að nota á því herrans ári 2015. En hvað stendur upp úr?
Kindle lesbrettið (e-reader) frá Amazon er eflaust það tæki sem hefur gefið mér mest. Ég hef oft tekið rispur og lesið mikið en svo koma tímar þar sem ég les lítið sem ekki neitt. Eftir að Kindle mætti í fíngerðar en þó karlmannlegar hendur mínar hef ég lesið ógrynni af bókum. Ef ég ætti að nefna einhverjar bækur sem standa upp úr og þú lesandi góður hefur kannski engan áhuga mætti til dæmis nefna :
- The Book of Basketball
Frábær bók um NBA körfuboltann, leikmenn og lið. Ekki bara fáránlega fróðleg heldur ógeðslega fyndin. Skrifuð af Bill Simmons, mæli með podcastinu hans. -
In the All-Night Café: A Memoir of Belle and Sebastian’s Formative Year
Endurminningae Stuart David, eins stofnanda Belle & Sebastian um fyrsta ár sveitarinnar. Skemmtilega skrifuð en umfram allt fróðleg fyrir áhangendur sveitarinnar. (Hey það er ég)
-
Creativity, Inc.: Overcoming the Unseen Forces That Stand in the Way of True Inspiration
Bók eftir Ed Catmull, einn stofnanda Pixar. Fjallar um stjórnun og sköpun og þá sérstaklega stjórnun í skapandi umhverfi og Ed notar fjölmörg dæmi úr sögu Pixar um hvernig þeir fóru af leið en komust aftur á sigurbraut, að hans sögn.
Fjarstýring er kannski ekki tæki sem ætti heima í svona upptalningu en mig varðar ekkert um það. Á venjulegum heimilum í dag eru fjölmargar fjarstýringar fyrir hin og þessi tæki sem öll tengjast í sjónvarpið. Til að spara pláss á stofuborðinu og einfalda málin (fyrir flesta, nefni engin nöfn (Kristín!)) er hér ein fjarstýring sem gerir allt og Margrét Dúna 5 og hálfs skilur hana meira að segja. Logitech Harmony er frábær all-in-one græja. Beisík!
Allar þessar ljósmyndir og myndbönd. Bæði gamlar partýmyndir, endalausar myndir af Margréti Dúnu og Guðrúnu Evu og svo allar myndirnar sem teknar eru á símann. Endalaust magn og endalausar minningar. Það er rugl og þvæla árið 2016 að geyma ljósmyndir á hörðum diskum, þetta á og skal vera í skýinu svo að ekki ein mynd glatist. Harðir diskar eiga það til að bila og það getur verið erfitt og virkilega dýrt að bjarga gögnum af þeim. Það eru til margar þjónustur sem leysa þetta vandamál en sú sem ég er ánægðastur með og elska bara virkilega mjög mikið eins furðulega og það hljómar er Google Photos.
Þangað hendast sjálfkrafa inn allar myndir og video sem ég tek á snjallsímann og ég skellti öllum myndum sem að ég átti í fórum mínum þangað inn líka. Þannig eru myndirnar öruggar fyrir gagnatapi ef harðir diskar bila en snilldin er auðvitað þegar að Google láta algrími sín og gagnaver skoða myndirnar mínar. Þannig búa þeir til hreyfimyndir úr myndunum mínum, setja myndir úr ferðalögum sjálfkrafa saman, lærir að þekkja fólkið á myndunum og hluti og þannig get ég auðveldlega leitað af myndum ekki bara eftir dagsetningu heldur hverjir og hvað er á myndunum.
Þannig getur leit eins og „Kristín with beer in Brussels“ skellt upp öllum myndum teknar í Brussel og þar sem Kristín ástkær eiginkonan mín kemur fyrir með bjór í hendi komið á skjáinn á einu augabragði.