Ef þetta þá

Á netinu (Alnetinu svo að lesendur Morgunblaðsins fylgi mér) er óendanlegt magn af þjónustum og kerfum sem gera eitt og annað missniðugt. Sum kerfi eru betri en önnur og allt það og sum þeirra hef ég vanið mig á að að nota mikið og ég gæti bara ekki án þeirra verið.

Tvær þjónustur eru í uppáhaldi hjá mér og skora ansi hátt í ánægjuvog Kársnessins.

IFTTT.com

IFTTT stendur fyrir If this, then that. Þannig get ég búið til óendanlegt magn af reglum um hina og þessa hluti sem spara mér sporin og sjálfvirknivæða hluti sem annars gætu verið flóknir.

Reglur sem ég elska meira en allt eru til dæmis að Discover Weekly listinn á Spotify sem kemur á hverjum mánudegi og endurnýjast sjálfkrafa vikulega er vistaður sem nýr lagalisti á Spotify og þannig hverfur Discover Weekly listinn minn aldrei eða hverfur í eitthvað svarthol.

Ég skipti líka nokkuð oft um síma og þannig tapast bæði símtala og SMS sagan mín en hún vistast þökk sé IFTTT.com í Google Drive og þannig alltaf aðgengileg og til taks þurfi ég á henni að halda. Sem hefur reyndar aldrei gerst, en áfram held ég að vista þessi gögn þangað.

Ef að Arsenal skorar mark á fótboltaleik, sem gerist nokkuð oft en mætti gerast miklu oftar blikkar ein Philips Hue ljósapera heima hjá mér tvisvar með rauðu ljósi, það er nauðsynlegur fídus á hvert nútímaheimili þar sem ekki alltaf er tími til að horfa á fótbolta.

Ég skora á ykkur að kíkja á IFTTT, það er endalaust af uppskriftum þar inni og margar hverjar eru æðislegar. Það er bara þannig.

2000px-IFTTT_Logo.svg_

Inbox by Gmail

Tölvupóstur er eins og hann er. Oft tímaeyðsla, oft fullur af tölvupóstum sem maður hefur engan áhuga á og inn á milli koma póstar sem raunverulega skipta máli og maður annað hvort þarf að gefa gaum eða eru skemmtilegir. Hérna er ég að tala um minn einkapóst, í vinnunni nota ég Outlook og er reyndar mjög glaður með það.

Inbox frá Google tekur tölvupóst á uppá hærra plan, gerir hann jafnvel skemmtilegann ef það er þá hægt. En hvernig gerir Google það? Jú með því að vita hvað hver póstur raunverulega þýðir og inniheldur. Þannig týnist póstur frá vin eða ættingja ekki undir fréttabréfum frá Dominos eða hinum og þessum fyrirtækjum sem ég hef einhvern tímann átt viðskipti við. Heldur fær póstur frá einstaklingi meira vægi í algrími Google og flýtur þannig upp á topp. Að sama skapi get ég snoozað tölvupósta sem ég ætla að tækla síðar og þá flýtur hann upp þegar að því kemur og því ætti hann ekkert að fara framhjá mér.

Síminn minn er ekki að gefa frá sér hljóð þegar að Amazon sendir mér fréttabréf, heldur bara ef Amazon er að segja mér að pakkinn sé lagður af stað. Síminn minn er heldur ekki að gefa frá sér hljóð þegar að Twitter sendir mér tölvupóst en gerir það þegar að bróðir minn sendir mér tölvupóst því Inbox veit að sá póstur skiptir meira máli.

Inbox flokkar líka allan póst eftir tegund og innihaldi og þannig parast líkir póstar saman og flækjast því ekkert fyrir ásamt því að Google notar hæfileika sína í að greina póstana þannig að ef tölvupóstur inniheldur til dæmis tracking upplýsingar fyrir pakka að þá get ég með einum smelli séð hvar pakkinn og er síminn minn fær að vita af því líka og hann segir mér hvar pakkinn er. Gáfur Google eru miklar og mér gæti ekki verið meira saman hvort að þeir viti hvað ég var að kaupa, því þeir auðvelda mér svo ótrúlega mikið að fylgjast með öllu og viðhalda inbox zero.

Inbox er æði, bæði í tölvu, síma og spaldtölvu.

 

Listi – Tækjalisti #2

Tvö blogg á tveimur dögum! Hvað er eiginlega í vatninu á Kársnesinu?

Það eru mörg tæki auglýst um heim allan sem það besta síðan skorið brauð en það er ekki alltaf svo að tæknin sé eins frábær og sagt er í glanstímaritum.

Snjallúr
Snjallúr er eitt af þeim tækjum sem að ég hef ekki enn náð fullri sátt við þrátt fyrir að vera svokallaður nörd og hafa prófað flest snjallúr sem til eru og haft snjallúr á úlnliðnum á hverjum degi í mörg ár.

Þessi úr eða litlu tölvurnar sem þessi úr vissulega eru eiga að auðga líf okkar, veita okkur innsýn um okkur sjálf sem að við höfum ekki aðgang að öllu jafnan og einfalda lífið svo um munar.

Það er kannski ekki alveg þannig. Það fyrsta sem ég tel upp er eiginlega banabiti snjallúranna eins og staðan er í dag. Það þarf að hlaða þau nær daglega, það síðasta sem að ég geri áður en ég fer að sofa er að skella úrinu mínu í hleðslu. Ef að ég gleymi því get ég bara gleymt því að vera með úrið daginn eftir eða þá þarf að hlaða það í vinnunni. (Hægt ef maður hefur splæst í annað hleðslutæki eða ef úrið styður þráðlausa hleðslu og maður lumar á hleðslumottu í vinnunni)

Það gerist líka stundum að ég hef sett úrið í hleðslu samviskusamlega kvöldið áður en gleymi því svo í hleðsludokkunni og fer með allsberann úlnliðinn út í daginn. Pebble er eina snjallúrið sem ég hef átt þar sem hlaða þarf aðeins einu sinni í viku en Pebble er samt ekki eins fullkomið og Apple Watch eða snjallúr sem keyra Android Wear.

Snjallúrin skella svo tilkynningum úr símanum á úlnliðinn sem er oft mjög þægilegt en getur líka bara verið bévítans truflun. Það endaði með því að ég hef stillt úrið til að sýna aðeins tilkynningar frá ákveðnum öppum sem að ég vil fá, annað fer bara í símann. Þægilegt þá já, en ekkert allir notendur og þá ekki þeir sem kallast venjulegir notendur sem nenna að standa í því eða hreinlega hafa kunnáttu til þess.

Það frábæra við snjallúr og það sem ég elska hvað mest við þau er að ég get stýrt öppum í gegnum úrið. Mér finnst það frábært til að stýra Spotify, ég get stýrt sjónvarpinu mínu þegar að stelpurnar vilja horfa á annan þátt af einhverjum uppeldisþættinum sem að mun gera þær að heilsteyptari manneskjum og haldið áfram að saxa blaðlauk og hræra í sósunni og þannig sloppið við ferð inn í stofuna. Þetta eru samt lúxusvandamál, réttlæta ekki verðmiðann á þessum úrum.

Annað sem er frábært við snjallúr, eitthvað sem reyndar er hægt að gera með símanum líka en er einfaldlega þægilegra með úrinu er að gúggla, biðja það að taka tímann og setja niður áminnningar byggðar á staðsetningu. Þannig get ég auðveldlega sett tímann af stað þegar eitthvað fer inn í ofn, auðveldlega breytt úr fahrenheit yfir í celsíus, breytt únsum í grömm, spurt um veðrið í Boston afþví að Kristín er að fara þangað, spurt hvernig litla systir er sagt á japönsku bara afþví að Margrét Dúna vill vita það og beðið úrið/símann að minna mig á að taka kassann úr skottinu þegar ég er næst hjá mömmu og pabba.

En að tala í úrið í símtali mun enginn sjá mig gera, það er bæði mega hallærislegt og ekki töff. Dick Tracy og Captain Kirk voru ekki töff að tala í úlnliðinn á sér.

Púls og skrefamælar ásamt því að skynja hversu fljótur ég er að sofna og meta hversu vel ég sef framkvæma sum úrin svo. Púls og skrefamælingar eru allt í lagi, ég tek samt úrið af mér ef ég er að hreyfa mig af einhverju ráði. Og ég hef ekkert við svefnmælingar að gera, þá er úrið í hleðslu. Hlaupafólk ætti að kaupa fitness mæla eins og Fitbit, Garmin og allt það dót sem getur svo líka mælt svefninn og þarf ekki hleðslu nær daglega.

smart-watches

Þetta varð óvart mjög langt, geymi því fleiri tæki í þessa upptalningu þangað til næst. Hvenær sem það verður.

 

 

Google Music

Ég elska tónlist og tónlist elskar mig.

Í vor setti Google þjónustuna Google Music í loftið, þó í Beta útgáfu og einungis í boði fyrir Bandaríkjamarkað. Hægt er að komast framhjá þessari kvöð um að vera staddur í landi hinna frjálsu með VPN/Proxy rétt á meðan að maður skráir sig inn í fyrsta skipti og eftir það hættir Google að athuga hvar þú sért staddur í heiminum þannig að ég skellti mér í það að skrá mig.

Eftir að hafa notað þjónustuna núna í nokkrar vikur verð ég að segja að þetta er mikil bylting. Google Music þjónustan sjálf er kannski ekki svo mikil bylting út af fyrir sig en að hafa tónlistina í skýinu er bylting klárlega. Ég hef ekki opnað iTunes síðan ég byrjaði að nota þetta enda þörfin engin sem er stór plús þar sem að iTunes í Windows umhverfi er eflaust eitt það versta forrit sem til er.

Öll tónlistin er þannig aðgengileg í vafra sem og í símanum mínum sem er óneitanlega hrikalega þægilegt. Þegar ég kaupi plötu á netinu eða rippa geisladisk fattar Google fyrir einhvern kraftaverkamátt að ný tónlist sé komin og byrjar að senda það í skýið og þannig er Google Music alltaf með réttustu stöðuna af tónlistarsafninu mínu.

Svo ef að harði diskurinn minn skyldi hrynja að þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því hvenær ég tók afrit síðast eða neitt slíkt. Allt er þetta til hjá Google og ég þarf engar áhyggjur að hafa.

Skýið er framtíðin, ekki bara fyrir tónlist heldur fyrir allt. Myndir, skjöl og stillingar fyrir forrit og annað á allt að fara í skýið og verða þannig aðgengilegt fyrir notandann, óháð stýrikerfi og staðsetningu.

Held að mín besta upplifun af skýinu hingað til er þegar ég skipti út Galaxy S fyrir Galaxy S II og Google setti allar stillingar, sms og forrit sem ég hafði á gamla símanum yfir á þann nýja og ferlið tók aðeins nokkrar mínutur og fór fram hljóðlega bakvið tjöldin án þess að ég notandinn þurfti að gera nokkuð.

httpv://www.youtube.com/watch?v=ZrNhKcxBbZo

 

icecaching

GPS lúðar Íslands sameinist.

Addi og Levy, sem ég báðir eru félagar mínir bara úr sitthvorri áttinni eru í gangi með alveg fáránlega sniðugann leik en hann er þó bara fyrir þá sem eiga eða hafa aðgang að GPS tæki.

Sjá meira hér.

Með mikilli einföldun mætti kalla þetta GPS ratleik með smá twist og súru bragði.

Fyrir þá sem eiga ekki GPS tæki má þó skoða videoin á síðunni þeirra, þau eru skemmtileg.

síðan mín

Það er í raun búið að bora í flækjurnar á þessari síðu og skella intercooler í hana því að núna er allt miklu hraðara.

Egill tölvusnillingur og heiðursmaður var að fikta hitt og þetta bakvið húddið og núna er allt dynamic á síðunni og gerist nokkurn veginn í rauntíma. Tekur bara einn tveir og þrír að rebuilda allt dótið, komið í grunn og cacheað bara eins og vindurinn. Komment hafa breyst en eftir dynamic breytinga virka nýjustu komment ekki sem stendur, okkur sýnist það vera böggur í MovableType.

Gaman að þessu, svo er bara að rendera kótjékkið og allir sáttir?

firefox/rss/naggurinn

Eins og mér finnst nýji naggurinn frábær og það allt að þá er þetta mikkivefur dót bara andskoti hægt finnst mér.

Langir loading tímar, eitthvað sem molarnir hans Bjarna höfðu ekki. En þó voru þeir vissulega illa uppfærðir en mikk dótið er það. Plúsar og mínusar í þessu öllu.

Ég reyndar nota Live Bookmarks fídusinn í Firefox þannig að hann segir mér hvenær hvaða blogg var uppfært, sem er auðvitað bara tær snilld.

ég hata tölvur!

Síðustu dagar hafa valdið miklum tilfinningasveiflum hjá mér. Harði diskurinn þar sem allt mp3 safnið mitt er ákvað að deyja drottni sínum og ég þar með tónlistarlaus. Eina lagið sem ég átti allt í einu var Hagavagninn sem ég downloadaði af síðunni hans Guffa fyrir einhverju síðan og skellti á desktoppið.

Þrátt fyrir allt er diskurinn blessaður bara dáinn. Biosinn finnur hann ekki einu sinni. Búin að prufa að henda honum yfir á annan controller ásamt þúsund öðrum trixum og lausnum sem að allskonar nördar hafa bent manni á.

Sem betur fer á maður backup í Bogahlíðinni eða ca 90% af efninu og svo mun Itunes einfaldlega segja mér hvað vantar uppá þannig að þetta er ekki endaloks alheimsins en Guð blessi Ipodinn minn þar sem hann hefur bjargað nætursvefninum í staðinn fyrir Itunes.

Ég óska þess að þetta hendi ekki nokkurn mann, að tapa svona yndinu sínu sem tónlistin er.

Itrip

Eftir að ég fékk Ipoddinn minn að þá hefur Itrip apparatið alveg gert Ipod að betra tæki.

Itrip er lítill FM sendir sem settur tengdur er við Ipod og svo vel ég bara lausa FM tíðni og Ipod spilast á þeirri tíðni í næsta útvarpi. Þetta hentar sérstaklega vel í bílnum þar ég er ekki með geislaspilara í Lafðinni. Núna get ég tekið rúnt á Selfoss uppá gamanið vitandi það að ég get hlustað á heilu diskana og bara verið minn eigin plötusnúður á einfaldan hátt.

Þær tíðnir sem mér hefur þótt best að nota eru 88,0 og 91,2. Hallast að 91,2 frekar þar sem hún virðist ekki vera eins næm fyrir truflunum. Best væri auðvitað að finna tíðni í 100 skalanum sem hægt væri að nota því þar myndu bestu gæðin vera en ég hef hreinlega ekki nennt því.

Eina sem ég hef fundð að Itrip er að þetta étur rafhlöðuna töluvert en bílahleðslutæki ætti að tækla það og svo er Bústaðavegur bann svæði en ég fæ truflanir í hvert skipti sem ég keyri þar í gegn sem er bara ansi oft eða næstum á hverjum degi.

En samt er þetta ómissandi tæki finnst mér sem gerir Ipod að enn betra tæki. Myndin sýndir eldri týpuna, munurinn útlitslega séð er samt vart sjáanlegur.