Hið snjalla Kársnes

Síðustu fimm ár eða svo hefur IoT, Internet of Things, Internet hlutanna, Internet allra hluta eða bara snjallvæðing verið aðal tískuorðið á öllum ráðstefnum sem að ég heimsótt. Bakvið öll svona tískuorð eru alltaf stór og mikil loforð, sem flest eru byggð á sandi eða uppbygging á miklum skýjaborgum. Svona eins og sagt er að Svíþjóð sé hið útópíska velferðarríki sem það er ekki.

Snjallvæðing á Kársnesinu á þeim stað sem ég kalla griðarstað og heimili er langt komin. Svo langt komin að ég get stýrt öllum fjandanum miðlægt hvar sem er í heiminum eða bara með minni ómfögru röddu sem hefur troðið upp í Laugardagshöll, Hörpunni, Nasa, verið notuð í Coca Cola auglýsingu og so videre eins og Danir myndu segja, það er nefnilega töff að sletta á dönsku.

Ég er kannski ekki að leysa öll heimsins stærstu vandamál með þessari snjallvæðingu en fjandinn hafi það hvað mér finnst þetta samt skemmtilegt, og auðvitað töff.

Og hvað geturðu gert Guðmundur? hugsið þið þá eflaust. Sem er eðlilegt.

Ég get stýrt ljósum, hitastigi á ofnunum, stýrt sjónvarpinu og öllum tækjum sem tengjast því. Ég get læst útidyrahurðinni og opnað hana ásamt því að láta hana opnast sjálfkrafa ef ég stæði nú fyrir utan með fullar hendur af pinklum og pokum. Ég get sagt hin og þessi orð og þá gerast bara hlutirnir fyrir kraftaverk. Þar sem íslenskan okkar ástkæra er örmál í stóru samhengi hlutanna verð ég þó að segja allt á ensku sem er alltaf pínu spes og asnalegt.

Þegar ég segi „Let´s watch a movie“ fer sjónvarpið í gang, það kviknar á HTPC vélinni, sjónvarpið fer á rétt HDMI tengi, lampinn hliðina á sjónvarpinu slekkur á sér og ég er tilbúinn í einhverja veislu eða sorglega drama mynd ef vera skyldi að ástkær eiginkona mín og barnsmóðir fái að velja mynd, sem gerist allt of oft og ég verð því að vera viðbúinn því að gráta í boga.

Með hinum þessum orðum get ég þannig stýrt nokkrum heimilistækjum, tengt þau saman þannig að tæki A geri eitthvað og líka tæki B og C og D líka. Ef að tæki A skynjar X framkvæmir tæki B eitthvað sem er skilgreint sem Y.

Dæturnar tvær, heimasæturnar á Kársnesi eru svo með takka inni hjá sér sem kveikir eða slekkur á öllum lömpum inni hjá þeim svo þær séu nú ekki alltaf að kveikja bara eitt ljós í loftinu því þær nenna ekki að kveikja á hverjum lampa fyrir sig og eru þannig að leika og læra með kjörlýsingu og öll lumens og Kelvin gráður eru á kórréttum stað skv. geðþótta innanhússhönnuðarins sem móðir þeirra er í hjarta sínu.

Rakaskynjarar við þvottavél og uppþvottavél fylgjast með og myndu láta mig vita strax ef eitthvað myndi fara að leka. Reykskynjarinn er snjall og mælir líka raka og hitastig og talar þannig við ofnana líka. Þannig veit ég líka alltaf hvenær ég ætti að lofta út og allskonar.

Sé fjölskyldan á ferðalagi er auðvelt að fylgjast með hvort allt sé í lagi, fylgjast með pallinum, hvort að hurðir og gluggar séu ekki læstir og lokaðir og hægt að fikta í ljósum og breyta þeim til, slökkva og kveikja á sjónvarpi þannig að það líti út fyrir að einhver sé heima þó að ég sé bara tvö þúsund kílómetra í burtu. Hreyfiskynjarar setja svo myndavélina af stað og ég get fylgst með hvað sé í gangi.

Það eru tvær hliðar í þessar snjallvæðingu, að gera heimilið snjallt eða að setja upp einhversskonar snjallt eftirlitskerfi. Ég er hrifnari af snjallvæðingu heimilins, eftirlitshlutinn er of einfaldur og eiginlega leiðinlegur.

En allt er þetta skemmtilegt og gaman frekar en að þetta sé að leysa öll mín vandamál eða að bæta lífsgæði mín á á einhvern hátt. Þetta er nördaskapur, sem er gaman.

Hér er hlaðvarp, um hlaðvarp.

Ég elska að hlusta á podcöst. Einu sinni hlustaði ég endalaust á hljóðbækur (halló Audible.com) en eftir að ég eignaðist Kindle um árið hætti ég því bara, það var of næs og þægilegt að lesa bækur á litla lesbrettinu.

Alltaf þegar ég er einn að bauka eitthvað eins og að keyra, þrífa heimilið, ganga frá þvotti eða að strauja eða rölta eitthvað er fátt betra en að skella heyrnartólunum í gang og hlusta.

Ég nota PocketCasts sem mitt Podcast app, get ekki mælt nógu mikið með því. Það er með frábært Android app, iOS app, vefspilara og nú bara nýlega Sonos stuðning. Allt syncar þetta fallega saman og ef ég hlusta í einu tæki veit annað tæki hvar ég er staddur og hvar ég hætti. Sem er yndi.

En hvað ertu að hlusta á Gummi? Já ég skal segja þér það. Slakið þið bara aðeins á!

Í ljósi sögunnar.

Það ætti að vera hluti af skólaskyldunni að hlusta á þessa þætti Veru Illugadóttur þar sem hún gerir hinum og þessum hlutum úr mannskynssögunni góð skil. Einhver versti óleikur Morgunútvarpsins á Rás2 þar sem ég er reglulegur gestur að tala um tækni og stafræna heima er að hafa sett mig beint á eftir Veru, það er eins og fyrir Kaleo að koma á eftir Arcade Fire.

iljosisogunnar

Recode Decode

Kara Swisher þekkt blaðakona í Bandaríkjunum talar hreint út og er lítið fyrir PR froðu og þvælu. Verandi þetta þekkt er auðvelt fyrir hana að fá forstjóra tæknifyrirtækja, pólitíkusa og fjölmiðlamenn í þáttinn sinn þar sem hún tekur fyrir flest þau mál sem brenna á fólki í Kísildalnum. Hún hefur síðkastið verið að taka Uber og þeirra vandamál fyrir ásamt kvenfyrirlitningu í tækniheiminum sem eru bæði flókin og mjög áhugaverð mál.

c105265d445b085fedf86e1d7b6370c001f086565ba2b317940fc5194d9668ec15a9a677ae4c38f4ad35bfadcb702941eccb07ca4654ac63eb2a6f4a9caa84da

Laugardagskvöld með Matta

Eina ástæðan fyrir brölti mínu í útvarpi og sjónvarpi að tala um tækni og dót er að komast í þennan þátt. Það er lokaleikurinn og þá get ég hætt að segja já við öllum beiðnum um að koma fram. Ég er tilbúinn með lagalistann minn og allt.

Matti fær gesti í heimsókn sem velja lög frá hinum og þessum tímabilum í lífi sínu. Ég kann að meta þessa þætti. Aðallega útaf því að ég er hrifinn af lagalistum.

Untitled

Dan Carlin´s Hardcore History

Ég elska mannkynssögu, hefði óskað að sá áhugi hefði kviknað fyrr.

Dan Carlin, sagnfræðingur og fyrrum útvarpsþáttastjórnandi brýtur hér niður hin og þessi mál. Hann gefur enga afslætti og þættirnir eru því langir, mjög langir, bara virkilega langir.

Serían hans um fyrri heimstyrjöldin er þrekvirki, þrekvirki segi ég. Hún er skylduhlustun þrátt fyrir að vera mjög löng.

HH-current-239x239

Fílalag

Bergur Ebbi og Snorri Helgason, Sprengjuhallarbræður og valinkunnir andans menn fíla eitt lag. Hver þáttur snýst um eitt lag, þeir brjóta niður lagið og listamanninn og ekkert endilega ef þekkingu, oftast bara alls ekki en þetta er alveg hræðilega skemmtilegt. Það er fyrir öllu.

5aa9-fa3e-4cf1-8aab-0f8b48e04441

 

Svo er ég að hlusta á fullt fullt annað. Bill Simmons hlaðvarpið um NBA, The NBA podcast hjá The Ringer, Retronauts, Polygon Quality Control, Stuff You Missed in History Class, Stuff You Should Know, Ear Hustle, Vox Worldly og fleira og fleira.

 

 

 

Discover Weekly

Eitt sinn var sá háttur hafður á að maður tók öryggisafrit af öllum plötum sem manni hugnaðist að hlusta á eftir að hafa legið yfir mp3bloggum og Hype Machine að finna nýtt efni til að hlusta á, efni sem hreinlega beið uppgötvunar. Ef efnið var manni að skapi og maður fann eitthvað sem maður fílaði alveg sérstaklega mikið var veskið tekið upp og platan keypt í næstu búð eða á netinu. Helst beint frá býli ef það var þá hægt eins og oft var og er hægt að gera með minni listamenn sem ekki hafa brotist alla leið í gegn í þessum sturlaða bransa.

Eftir að Spotify og aðrar streymisveitur mættu á svæðið hefur hegðunarmynstrið breyst og maður er alveg hættur að lesa öll þessi mp3blogg. Spotify sem er mín streymiþjónusta hefur einhvern veginn alveg tekið við og hlustarmynstrið breyst eftir því.

Sá fídus sem ég elska hvað mest af öllu við Spotify kom í fyrra og kallast Discover Weekly.

Þessi yndislegi fídus sem ég elska mikið virkar þannig að hvern mánudag uppfærist playlisti í þínu Spotify sem heitir einfaldlega Discover Weekly. Hann uppfærist eftir því hvað maður hefur verið að hlusta á og Spotify nýtir öll sín gögn og kerfi til að finna út hvað maður ætti að fíla út frá þeirri hlustun og hvað aðrir sem hlusta á svipaða og sömu tónlist og maður sjálfur eru að hlusta á sem maður hefur ekki rennt í gegnum spilarann.

Þannig hef ég fundið falda mola sem hreinlega hafa gleymst og maður mundi hreinlega ekki eftir að væru til ásamt því að kynnast nýjum tónlistarmönnum sem og gömlum sem aldrei hafa fengið athygli hjá manni.

Þannig byrjaði einhver skrýtin ást mín á Norður-Írsku sveitinni Devine Comedy sem ég hef hundrað sinnum heyrt um en aldrei hlustað á. Hef verið með lagið Tonight We Fly á non-stop repeat síðan það datt inn á Discover Weekly listann minn.

 

Svo hafa Sænskir gullmolar dottið inn en ég hef alltaf verið veikur fyrir indie poppi og rokki frá Svíþjóð. Joel Alme sem ég veit í raun engin deili á hefur þar staðið uppi sem snillingur.

Ef þetta þá

Á netinu (Alnetinu svo að lesendur Morgunblaðsins fylgi mér) er óendanlegt magn af þjónustum og kerfum sem gera eitt og annað missniðugt. Sum kerfi eru betri en önnur og allt það og sum þeirra hef ég vanið mig á að að nota mikið og ég gæti bara ekki án þeirra verið.

Tvær þjónustur eru í uppáhaldi hjá mér og skora ansi hátt í ánægjuvog Kársnessins.

IFTTT.com

IFTTT stendur fyrir If this, then that. Þannig get ég búið til óendanlegt magn af reglum um hina og þessa hluti sem spara mér sporin og sjálfvirknivæða hluti sem annars gætu verið flóknir.

Reglur sem ég elska meira en allt eru til dæmis að Discover Weekly listinn á Spotify sem kemur á hverjum mánudegi og endurnýjast sjálfkrafa vikulega er vistaður sem nýr lagalisti á Spotify og þannig hverfur Discover Weekly listinn minn aldrei eða hverfur í eitthvað svarthol.

Ég skipti líka nokkuð oft um síma og þannig tapast bæði símtala og SMS sagan mín en hún vistast þökk sé IFTTT.com í Google Drive og þannig alltaf aðgengileg og til taks þurfi ég á henni að halda. Sem hefur reyndar aldrei gerst, en áfram held ég að vista þessi gögn þangað.

Ef að Arsenal skorar mark á fótboltaleik, sem gerist nokkuð oft en mætti gerast miklu oftar blikkar ein Philips Hue ljósapera heima hjá mér tvisvar með rauðu ljósi, það er nauðsynlegur fídus á hvert nútímaheimili þar sem ekki alltaf er tími til að horfa á fótbolta.

Ég skora á ykkur að kíkja á IFTTT, það er endalaust af uppskriftum þar inni og margar hverjar eru æðislegar. Það er bara þannig.

2000px-IFTTT_Logo.svg_

Inbox by Gmail

Tölvupóstur er eins og hann er. Oft tímaeyðsla, oft fullur af tölvupóstum sem maður hefur engan áhuga á og inn á milli koma póstar sem raunverulega skipta máli og maður annað hvort þarf að gefa gaum eða eru skemmtilegir. Hérna er ég að tala um minn einkapóst, í vinnunni nota ég Outlook og er reyndar mjög glaður með það.

Inbox frá Google tekur tölvupóst á uppá hærra plan, gerir hann jafnvel skemmtilegann ef það er þá hægt. En hvernig gerir Google það? Jú með því að vita hvað hver póstur raunverulega þýðir og inniheldur. Þannig týnist póstur frá vin eða ættingja ekki undir fréttabréfum frá Dominos eða hinum og þessum fyrirtækjum sem ég hef einhvern tímann átt viðskipti við. Heldur fær póstur frá einstaklingi meira vægi í algrími Google og flýtur þannig upp á topp. Að sama skapi get ég snoozað tölvupósta sem ég ætla að tækla síðar og þá flýtur hann upp þegar að því kemur og því ætti hann ekkert að fara framhjá mér.

Síminn minn er ekki að gefa frá sér hljóð þegar að Amazon sendir mér fréttabréf, heldur bara ef Amazon er að segja mér að pakkinn sé lagður af stað. Síminn minn er heldur ekki að gefa frá sér hljóð þegar að Twitter sendir mér tölvupóst en gerir það þegar að bróðir minn sendir mér tölvupóst því Inbox veit að sá póstur skiptir meira máli.

Inbox flokkar líka allan póst eftir tegund og innihaldi og þannig parast líkir póstar saman og flækjast því ekkert fyrir ásamt því að Google notar hæfileika sína í að greina póstana þannig að ef tölvupóstur inniheldur til dæmis tracking upplýsingar fyrir pakka að þá get ég með einum smelli séð hvar pakkinn og er síminn minn fær að vita af því líka og hann segir mér hvar pakkinn er. Gáfur Google eru miklar og mér gæti ekki verið meira saman hvort að þeir viti hvað ég var að kaupa, því þeir auðvelda mér svo ótrúlega mikið að fylgjast með öllu og viðhalda inbox zero.

Inbox er æði, bæði í tölvu, síma og spaldtölvu.

 

Listi – Tækjalisti #2

Tvö blogg á tveimur dögum! Hvað er eiginlega í vatninu á Kársnesinu?

Það eru mörg tæki auglýst um heim allan sem það besta síðan skorið brauð en það er ekki alltaf svo að tæknin sé eins frábær og sagt er í glanstímaritum.

Snjallúr
Snjallúr er eitt af þeim tækjum sem að ég hef ekki enn náð fullri sátt við þrátt fyrir að vera svokallaður nörd og hafa prófað flest snjallúr sem til eru og haft snjallúr á úlnliðnum á hverjum degi í mörg ár.

Þessi úr eða litlu tölvurnar sem þessi úr vissulega eru eiga að auðga líf okkar, veita okkur innsýn um okkur sjálf sem að við höfum ekki aðgang að öllu jafnan og einfalda lífið svo um munar.

Það er kannski ekki alveg þannig. Það fyrsta sem ég tel upp er eiginlega banabiti snjallúranna eins og staðan er í dag. Það þarf að hlaða þau nær daglega, það síðasta sem að ég geri áður en ég fer að sofa er að skella úrinu mínu í hleðslu. Ef að ég gleymi því get ég bara gleymt því að vera með úrið daginn eftir eða þá þarf að hlaða það í vinnunni. (Hægt ef maður hefur splæst í annað hleðslutæki eða ef úrið styður þráðlausa hleðslu og maður lumar á hleðslumottu í vinnunni)

Það gerist líka stundum að ég hef sett úrið í hleðslu samviskusamlega kvöldið áður en gleymi því svo í hleðsludokkunni og fer með allsberann úlnliðinn út í daginn. Pebble er eina snjallúrið sem ég hef átt þar sem hlaða þarf aðeins einu sinni í viku en Pebble er samt ekki eins fullkomið og Apple Watch eða snjallúr sem keyra Android Wear.

Snjallúrin skella svo tilkynningum úr símanum á úlnliðinn sem er oft mjög þægilegt en getur líka bara verið bévítans truflun. Það endaði með því að ég hef stillt úrið til að sýna aðeins tilkynningar frá ákveðnum öppum sem að ég vil fá, annað fer bara í símann. Þægilegt þá já, en ekkert allir notendur og þá ekki þeir sem kallast venjulegir notendur sem nenna að standa í því eða hreinlega hafa kunnáttu til þess.

Það frábæra við snjallúr og það sem ég elska hvað mest við þau er að ég get stýrt öppum í gegnum úrið. Mér finnst það frábært til að stýra Spotify, ég get stýrt sjónvarpinu mínu þegar að stelpurnar vilja horfa á annan þátt af einhverjum uppeldisþættinum sem að mun gera þær að heilsteyptari manneskjum og haldið áfram að saxa blaðlauk og hræra í sósunni og þannig sloppið við ferð inn í stofuna. Þetta eru samt lúxusvandamál, réttlæta ekki verðmiðann á þessum úrum.

Annað sem er frábært við snjallúr, eitthvað sem reyndar er hægt að gera með símanum líka en er einfaldlega þægilegra með úrinu er að gúggla, biðja það að taka tímann og setja niður áminnningar byggðar á staðsetningu. Þannig get ég auðveldlega sett tímann af stað þegar eitthvað fer inn í ofn, auðveldlega breytt úr fahrenheit yfir í celsíus, breytt únsum í grömm, spurt um veðrið í Boston afþví að Kristín er að fara þangað, spurt hvernig litla systir er sagt á japönsku bara afþví að Margrét Dúna vill vita það og beðið úrið/símann að minna mig á að taka kassann úr skottinu þegar ég er næst hjá mömmu og pabba.

En að tala í úrið í símtali mun enginn sjá mig gera, það er bæði mega hallærislegt og ekki töff. Dick Tracy og Captain Kirk voru ekki töff að tala í úlnliðinn á sér.

Púls og skrefamælar ásamt því að skynja hversu fljótur ég er að sofna og meta hversu vel ég sef framkvæma sum úrin svo. Púls og skrefamælingar eru allt í lagi, ég tek samt úrið af mér ef ég er að hreyfa mig af einhverju ráði. Og ég hef ekkert við svefnmælingar að gera, þá er úrið í hleðslu. Hlaupafólk ætti að kaupa fitness mæla eins og Fitbit, Garmin og allt það dót sem getur svo líka mælt svefninn og þarf ekki hleðslu nær daglega.

smart-watches

Þetta varð óvart mjög langt, geymi því fleiri tæki í þessa upptalningu þangað til næst. Hvenær sem það verður.

 

 

Listi – Tækjalisti

Alveg síðan í júní 2000 þegar ég byrjaði að skrifa hingað inn hefur mikið og margt verið skrifað. Oftast um mig sjálfan (frábær.net kallast síðan í lokuðum hópum), tónlist eða tækjadót.

Þetta er eitt af þessum tækjabloggum. Þau eru mörg raftækin og hlutirnir sem ég tók úr plasti og ýti á On takkann eða hlutir þarna á netinu í þessu svokallaða skýi sem að ég byrjaði að nota á því herrans ári 2015. En hvað stendur upp úr?

Kindle lesbrettið (e-reader) frá Amazon er eflaust það tæki sem hefur gefið mér mest. Ég hef oft tekið rispur og lesið mikið en svo koma tímar þar sem ég les lítið sem ekki neitt. Eftir að Kindle mætti í fíngerðar en þó karlmannlegar hendur mínar hef ég lesið ógrynni af bókum. Ef ég ætti að nefna einhverjar bækur sem standa upp úr og þú lesandi góður hefur kannski engan áhuga mætti til dæmis nefna :

paperwhite

 

Fjarstýring er kannski ekki tæki sem ætti heima í svona upptalningu en mig varðar ekkert um það. Á venjulegum heimilum í dag eru fjölmargar fjarstýringar fyrir hin og þessi tæki sem öll tengjast í sjónvarpið. Til að spara pláss á stofuborðinu og einfalda málin (fyrir flesta, nefni engin nöfn (Kristín!)) er hér ein fjarstýring sem gerir allt og Margrét Dúna 5 og hálfs skilur hana meira að segja. Logitech Harmony er frábær all-in-one græja. Beisík!

harmony-elite-gallery1

 

Allar þessar ljósmyndir og myndbönd. Bæði gamlar partýmyndir, endalausar myndir af Margréti Dúnu og Guðrúnu Evu og svo allar myndirnar sem teknar eru á símann. Endalaust magn og endalausar minningar. Það er rugl og þvæla árið 2016 að geyma ljósmyndir á hörðum diskum, þetta á og skal vera í skýinu svo að ekki ein mynd glatist. Harðir diskar eiga það til að bila og það getur verið erfitt og virkilega dýrt að bjarga gögnum af þeim. Það eru til margar þjónustur sem leysa þetta vandamál en sú sem ég er ánægðastur með og elska bara virkilega mjög mikið eins furðulega og það hljómar er Google Photos.

Þangað hendast sjálfkrafa inn allar myndir og video sem ég tek á snjallsímann og ég skellti öllum myndum sem að ég átti í fórum mínum þangað inn líka. Þannig eru myndirnar öruggar fyrir gagnatapi ef harðir diskar bila en snilldin er auðvitað þegar að Google láta algrími sín og gagnaver skoða myndirnar mínar. Þannig búa þeir til hreyfimyndir úr myndunum mínum, setja myndir úr ferðalögum sjálfkrafa saman, lærir að þekkja fólkið á myndunum og hluti og þannig get ég auðveldlega leitað af myndum ekki bara eftir dagsetningu heldur hverjir og hvað er á myndunum.

Þannig getur leit eins og „Kristín with beer in Brussels“ skellt upp öllum myndum teknar í Brussel og þar sem Kristín ástkær eiginkonan mín kemur fyrir með bjór í hendi komið á skjáinn á einu augabragði.

 

Tónlistarleg uppeldi Rúnars Skúla

Ef þið ættuð að elta einn lagalista á Spotify að þá mæli ég sérstaklega með Tónlistarlegu uppeldi Rúnars Skúla.

Drengurinn sá vissi ekki hver Bruce Springsteen eða Valgeir Guðjónsson væru þegar við áttum tal saman við kaffivél eina á sameiginlegum vinnustað okkar og því varð að gera eitthvað í málunum. Smám saman er ég að týna gullmola inn í þennan lagalista frá hinum og þessum tímabilum.

Það vantar ýmislegt þarna inn, en það er í vinnslu. Eftir sem áður er þetta undraverður lagalisti svona þó að ég segi sjálfur frá.

Frjóvgunarafmæli

Dagatalið lýgur ekki, það er fasti. Dagatalið segir mér í dag að stutt sé til jóla og að jólasveinarnir komi fljótlega til byggða. Dagatalið segir mér að nú sé stutt í að nýtt ár gangi í garð með sínum áskorunum og tækifærum ásamt því að bæta enn einu aldursárinu við okkur öll.

Á næsta ári verð ég 35 ára, það er fínt. En nú um stundir á ég 35 ára afmæli. Þó ekki fæðingarafmæli heldur frjóvgunarafmæli. Við Jesú eigum því sameiginlegt að eiga afmæli í desember.

Um þetta leiti í eflaust miklum snjóþunga tók einn sundmaður föður míns sig til og vann vinninginn stóra. Níu mánuðum síðar eða þann 16.september það herrans ár 1980 mætti ég sjálfur í heiminn eftir að móðir mín hafði druslað okkur með tíu í útvíkkun frá Mývatnssveit til Húsavíkur og þaðan í sjúkraflugi til Reykjavíkur. Í höfuðstaðnum kom ég í heiminn og þar hef ég nær alltaf alið manninn.

Foreldrar mínir, það sómafólk bjó við Múlaveg í Mývatnssveit í húsi sem ég skil ekki að nokkur maður hafi getað búið í. Þetta er svokallað greni. Við sjáum mynd

10696442_10152505191038429_6944635532797101641_n

 

Sem betur fer fluttu foreldrar mínir í reisulegra hús rétt fyrir komu mína. Ótrúlegt hvað ræst hefur úr bræðrum mínum þrátt fyrir að hafa alist upp við vosbúð.

Afmælisbarnið ég ætlar bara að hafa það náðugt. Einhverra hluta vegna hefur það ekki komist í tísku að halda upp á frjóvgunarafmæli en mögulega verður það dottið inn og ekki litið hornauga þegar 40 ára frjóvgunarafmælið rennur í hlað.

Svartholið

Um páskana flutti ég búferlum. Ekki bara ég heldur fjölskyldan öll. Ég, barnsmóðirin og sambýliskonan sem eru samt sama konan bara svo að það komi fram, börnin tvö og skutbíllinn. Ásamt auðvitað öllu okkar hafurtaski.

Ég hélt að sú stund að vera búinn að fara síðustu ferðina úr L37 ætlaði aldrei að koma, þetta var endalaust af dóti en þetta hafðist fyrir rest.

Að flytja í nýtt hús á nýjum stað þar sem allt er nýtt nema hverfið sem við búum í er yndislegt. Yndislegt að hafa meira pláss, yndislegt að geta haft mikið um það að segja hvernig hlutirnir eigi að vera og yndislegt umfram allt að hafa smáspennutöflu þar sem ethernet kaplarnir flæða í öll rými eins og engin sé morgundagurinn og bitar og bæti streyma um alla íbúð á ógnarhraða.

Fyrstu dagarnir á nýjum stað voru á rauðum almanaksdögum og því var engin net eða sjónvarpstengingin. Ég taldi það létt mál enda myndi snjallsíminn og spjaldtölvan bara brúa það bil með sínum öflugu nútíma þægindum sem að 4G og 3G kerfi fjarskiptafyrirtækjanna eru. Það reyndust vera mistök þar sem að ég virðist búa í einhverju svartholi þar sem að merki farsímasendanna virðast koma til að deyja.

Ef heppnin var með mér datt ég í gott Edge samband en gat líka dottið niður í þrusufínt GPRS samband. Árið 2003 sagði allt í einu halló, halló gamli vin á meðan að innréttingarnar og húsið nýja sagði mér að kreppan væri búin og bauð upp á freiðandi kampavín í háu glasi.

Fyrir utan að vera staðsettur í svartholinu sem að ekkert gott merki virðist finna lífsvilja í, óháð fjarskiptafyrirtæki hafa öll tæki heimilisins haldið mig vera staddann erlendis. Það er eitthvað sem ég næ ekki að skilja og ég er alveg ágætlega tölvuklár.

Hvort sem ég set inn myndir á netið, spjalla við félaga eða skoða eitthvað á netinu vill internetið allt halda að ég sé staddur í Riga eða í Grikklandi. Bæði Lettland og Grikkland eru eflaust fínustu lönd en þar bý ég ekki. Ég bý í 200 Kópavogi með útsýni og alla þjónustu í göngufæri.

Screenshot_2014-05-15-22-42-33

Skiptir engu hvort að ég noti farsímsamband eða hraðvirkt nútíma netsamband skal ég alltaf vera staddur á öðrum hvorum staðnum.

Hin og þessi öpp senda mér tilkynningar um hvað sé sniðugt að sjá í nágrenninu og hvar sé gott að borða. En allt þetta er erlendis, ekkert af þessum góðum ábendingum finn ég í Hamraborg eða í vesturbæ Kópavogs.

Screenshot_2014-04-29-20-22-37

Ég bý í einhverju Twilight Zone. Erindi mitt liggur enn á bæjarskrifstofu Kópavogs og því er enn ósvarað. Ef ykkur vantar ábendingar um hvað sé gaman að gera í Riga eða á Grikklandi er ég rétti maðurinn til að veita ykkur góð ráð.

Tveggja barna faðir

Þetta blogg hefur verið vanrækt mjög lengi. Það er miður þegar maður horfir til þess að bloggið hefur verið starfandi í einhverri mynd síðan í júní það herrans ár 2000 þegar að internetbólan var í hámarki. Síðan þá hafa mörg netfyrirtækin farið yfir móðuna miklu með bullandi rauð excel skjöl og yfirdráttinn í botni. Bloggsíðan gummijoh.net hefur alltaf verið í góðum rekstri og öll opinber gjöld greidd samviskusamlega.

Síðan síðast hefur margt gerst. Ber þó helst að nefna að Hertoginn, það þýska stál var seldur á einum degi og uppfært í skutbíl. Enda þarf meira pláss þegar að nýr einstaklingur bætist við í fjölskylduna. Þá er ég ekki að tala um hamstur eða páfagauk heldur nýjan einstakling, með skoðanir, kennitölu og tilfinningar.

Guðrún Eva Guðmundsdóttir fæddist 25.nóvember 2013. Þetta gekk hratt fyrir sig og barnið kom rétt áður en ég náði að smella mynd af slímtappanum þegar hann skaust út úr barnsmóður minni á mettíma. Stuttu seinna var komið barn og ég grátandi í boga yfir þessu öllu saman.

Guðrún Eva

Eins fullkomin og Margrét Dúna sem fer að detta í fjögurra ára aldurinn er og var á sínum hvítvoðungs tíma mætti segja að Guðrún Eva sé eins og BabyBorn dúkka. Hún brosir, hjalar, drekkur og sefur í engri sérstakri röð. Það er aldrei neitt vesen með svefn, aldrei neitt vesen með skapið og því mætti segja að hún hafi erft skapið mitt. Margrét Dúna er meira með skap barnsmóður minnar. Þar eru áveðnar skoðanr á öllum hlutum og ekkert verið að sætta sig við málamyndanir. Þegar Margrét Dúna og barnsmóðirin deila er það bara stál í stál og ég er þá í hlutverki sáttasemjara. Eitthvað sem segir mér að þetta verði ekki raunin með Guðrúnu Evu, en ég hræðist hvernig þetta verður þegar hún verður unglingur, þá kannski blómstar út eitthvað skap sem ég á ekki roð í. Vonum samt að hún verði bara eins og ég sem unglingur, ekkert nema ljós.

Núna í apríl dettur svo barnsmóðirin í vinnu og barnið ekki orðið fimm mánaða. Það verður því mikið álag á tveggja barna föðurnum sem smellur í feðraorlof þá og þarf að gefa pela lon og don eins og að hann laktósi sjálfur. Fyrir mann sem þolir illa að missa svefn verður það því mikil þolraun að þurfa að vakna um miðjar nætur til að hita pela og standa í þessu brasi.

Að eiga tvö börn er áskorun. Það tekur allt lengri tíma og því algjörlega ný rútína sem þarf að venja sig á, það getur tekið á þegar maður býr með manneskju með sterku þýsku geni sem skipuleggur tíma sinn í fimmtán mínutna lotum og það þarf að ná þessari rúmlega fjögurra ára í föt, greiða hár og svo koma nýjasta eintakinu í föt líka. Þegar allir eru svo tilbúnir og ekkert eftir nema að skella útidyra hurðinni í lás heyrist hljóð. Hljóð sem maður veit að rústar öllum áætlunum og hafa þarf hröð handtök. Það er þetta hljóð sem að foreldrar einir þekkja, hljóð sem segir manni að nú sé kúkur kominn upp á bak og í gegnum öll lögin af fötum.

Feðraorlofið verður áskorun. Tryggja þarf heimilisfrið, tryggja þarf áhyggjulaust og fumlaust uppeldi dætranna og tryggja þarf að nóg sé af „me-time“ svo að nýrri uppskerfu af gráum hárum sé haldið í skefjum.

MD og GE