Ég er hér enn

Þessi síða hefur verið vanrækt, hrikalega oft hef ég verið byrjaður að skrifa eitthvað hingað inn en gefist upp eða fundist það ekki eiga heima hér inni. Samfélagsmiðla byltingin hefur farið illa með gummijoh.net sem fór í loftið í júní árið 2000.

Facebook, Twitter, Google+ og aðrir samfélagsmiðlar hafa étið allan minn fókus og það er eitthvað sem gerðist bara óvart. En núna er átak, upprisan er hafin og vonandi heldur maður þetta út.

En á meðan ég hnoða í fleiri færslur skulum við hlusta og njóta hljómsveitarinnar 1860. Hún er yndi.

httpv://www.youtube.com/watch?v=TfgmheZ2Hw8

Múgsefjun

Einhver vanmetnasta en jafnframt ein besta hljómsveit landsins um þessar mundir og síðustu ár er hljómsveitin Múgsefjun.

Það að þessi hljómsveit sé ekki sé ekki á vörum flestra landsmanna er hneyksli, það að Kalli Bjarni og Ingó ásamt fleiri Idol krökkum séu þekktari lætur okkur líta illa út sem menningarþjóð og unnendur góðrar tónlistar. Eða kannski segir allt sem segja þarf um hnignum og almenna stöðu okkar, eitthvað sem mér þykir sorglegt.

Fyrsta plata sveitarinnar, Skiptar skoðanir kom út 2008 og nokkur lög þar fengu nokkuð góða spilun á RÁS2, frábæra dóma allsstaðar þar sem íslensk tónlist er tekin fyrir en svo ekki söguna meir.

Núna, fjórum áður síðar er önnur plata sveitarinnar að koma út og ber hún nafn sveitarinnar. Múgsefjun syngur á íslensku og eru textar sveitarinnar skemmtilegir en flóknir og oft tvíræðir. Söngurinn er yndi og útsetningar allar bæði flóknar en í senn svo einfaldar. Spilverk Þjóðanna er sveit sem oft kemur upp í hugann þegar ég hlusta á Múgsefjun.

Það er skylda ykkar að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar. Þessir drengir eiga skilið að finna og skynja að eftir þeim sé tekið. Þeir hafa lagt allt sitt í þetta og núna er komið að okkur.

Það er eitthvað dáið innra með ykkur ef þið fílið ekki þetta.

httpv://www.youtube.com/watch?v=WD87tRLsGjw

 

 

tóndæmi dagsins

Ef það er eitthvað sem að fær mig til að henda öllu frá mér og taka alvarlega og einbeitt til virkrar hlustunar að þá er það sænskt indie popp.

Eins og áður hefur verið ritað um hér á þessari síðu er svo margt annað frábært og gott frá Svíþjóð annað en Ace of Base, Abba og Dr. Alban. Mörg tóndæmin hafa komið fram hér sem öll eiga uppruna sinn frá Svíþjóð, enda eitthað ótrúlegt í loftinu þar sem stemmir svo vel við minn tónlistarsmekk.

Tóndæmi dagsins er eitthvað sem ég hef ekki getað losnað við úr heyrnartólunum síðan í byrjun sumars. Alltaf sama lagið sem endar í eyrunum með Múgsefjunar plötuna og nýjustu SigurRós plötuna einhversstaðar þarna inn á milli.

Kristian Matsson er tóndæmi dagsins. Hann er þó með hið stutta og laggóða listamannsnafn The Tallest Man on Earth. Hann kalla menn hinn sænska Bob Dylan en áhrifin frá meistara Dylan og t.d. Woodie Guthrie eru mikil og áheyranleg. Hann gerir þetta samt vel drengurinn og þriðja plata hans sem nýlega kom út er hreint afbragð. Tóndæmi dagsins er þó það lag sem ber af.

The Tallest Man on Earth – 1904

RetroBot

Það er ekki svo ýkja oft að sigurvegarar Músíktilrauna ná til eyrna minna svona strax eftir að keppni lýkur en það hefur gerst núna. Venjulega bíð ég spakur þangað til að sigursveitin gefur út stóra plötu eða EP plötu svo að ég geti heyrt betur hvað sé um að ræða og hvort að þetta sé eitthvað fyrir minn fágaða tónlistarsmekk.

Sigursveit ársins er RetroBot sem kemur frá Selfossi og er þar með fyrsta sveitin frá Selfossi sem að sigrar í Músiktilraunum. Reyndar segja liðsmenn sveitarinnar að þeir séu ekki frá Selfossi heldur frá bæjum og sveitum þar í kring en þeir eiga það sameiginlegt að stunda nám við Framhaldsskólann á Selfossi og þaðan sé tengingin við bæjarfélagið komin.

Áður en Músíktilraunir byrjuðu var söngvari sveitarinnar búin að fanga athygli mína með því að syngja eitthvað það besta tónlistaratriði sem að ég hef séð í Gettu Betur, í atriði sem reyndar aðrir meðlimir sveitarinnar taka einnig þátt í. Textar RetroBot eru á ensku en það er krafa Ríkissjónvarpsins að sungið sé á okkar ástkæra ylhýra og fluttu þeir því lagið Hitler var grafískur hönnuður úr söngleiknum Legið eftir Hugleik Dagsson og hljómsveitina Flís.

httpv://www.youtube.com/watch?v=BCJo-AXG-JM

Þau lög sem ég hef heyrt með RetroBot eru hvert öðru betra. Sveitin er með góða blöndu af rokki og elektró, eitthvað sem ég get á stundum verið mjög veikur fyrir ef vel er gert.

Lagið Electric Wizard finnst mér t.d. yndi.

httpv://www.youtube.com/watch?v=Q8yk6kuIap4

Það styttist í EP plötu frá sveitinni sem verður gaman að hlusta á. Það er mikið efni í þessum strákum. Hér má svo heyra acoustic útgáfu af laginu Lost sem er líka mjög gott.

2 ára

Fyrir tveimur árum síðan akkúrat í dag fékk ég dóttur mína í hendurnar í fyrsta skipti. Það er hægt að lesa um það í bókum og sjá það mögulega í sjónvarpinu að þetta sé eitthvað magnað og frábært en það er engan veginn hægt að lýsa þeim tilfinningum sem að um mann líða á þeirri stundu sem maður fær að halda á barninu sínu í fyrsta skipti.

Það að finna endalausa og óskilyrðislausa ást á einu augnabliki til annarar manneskju er eitthvað sem ég vona að allir fái að upplifa, það að verða illt í hjartanu af umhyggju og stolti yfir einföldum hlut eins og að hún hafi sett mat á gaffal og stungið upp í sig alveg sjálf og að gráta af gleði yfir brosi er ólýsanlegt. Sterkasta minningin frá fyrstu mánuðum Margrétar Dúnu er samt sú endalausa gleði sem það gaf manni að geta alltaf svæft hana á öxlinni, þar leið henni vel og vildi vera og þar vildi ég hafa hana.

Svefnlausar nætur og minni svefn almennt er staðreynd en það er lítil fórn á meðan maður fær að njóta þeirra forréttinda að fylgjast með barninu sínu þroskast og vaxa, breytast úr ósjálfbjarga hvítvoðungi yfir í 2 ára stelpu sem veit upp á hár hvað hún vill, getur leikið sér að tilfinningum manns til þess eins að fá rúsínupakka eða snuð. Þó að klukkan sé 7:00 á sunnudagsmorgni þýðir lítið að blóta yfir því að dagurinn hjá manni sé byrjaður. Maður fer sjálfkrafa fram úr með bros á vör þegar að maður heyrir kallað „pabbi, pabbi. Búið“ á meðan strokið er nokkuð harkalega í augað á manni.

Þessi tvö ár hafa verið ótrúlega fljót að líða og það sem stendur upp úr og er það allra ómetanlegasta við allann þennan tíma er að hafa getað farið í fjögurra mánaða orlof og eytt þeim tíma alfarið með dóttur sinni. Hluta af tímanum var ég einn með hana á meðan að barnsmóðirin og sambýliskonan var erlendis og sá tími gaf mér sem pabbanum langmest.

Mamman er ósjálfrátt í fyrsta sæti enda hún búin að ferja heila manneskju í maganum á sér og gefur henni brjóst. Þeirri tengingu milli móður og barns getur pabbinn ekki skákað og verður því að sætta sig að vera í öðru sæti eða því sem næst á meðan að nýburinn nærist alfarið með hjálp móður sinnar.

Það að sjá svo alfarið um Margréti Dúnu gerði það að verkum að ég var orðin jafningi mömmunnar ef það er þá hægt sem gerir það að verkjum að hún leitar til jafns til okkar ef eitthvað bjátar á, það er ómetanlegt.

Til hamingju með daginn Margrét Dúna.

tóndæmi dagsins

The Maccabees fá þann fáheyrða heiður að vera tóndæmi dagsins. Ensk sveit frá Brighton en sá bær hefur t.d. gefið okkur sveitinar British Sea Power og The Wedding Presents ásamt Fat Boy Slim.

Þriðja plata sveitarinnar kom út núna í byrjun janúar á þessu ári og platan er yndi. Ekki beint neitt tímamótaverk í stóru samhengi hlutanna en gott breskt indie rokk er alltaf góð og áheyrileg tónlist því er platan góð. Og ekki bara góð heldur stórgóð.

Leyfum tónlistinni að tala sínu máli í stað þess að ég sé að skrifa fátækleg orð á blað að reyna að gera sveitinni einhver skil.

The Maccabees  – Ayla

last.fm

Síðan 7.september það herrans ár 2004 hef ég notað last.fm til að fylgjast með því sem ég hlusta á. Allar tölvur sem ég hef notað síðan þá bæði heima og í vinnu, símar og iPoddar hafa samkeyrt allar upplýsingar um hlustanir þangað inn þannig að allskonar skemmtilegar upplýsingar eru þar til á skrá sem gaman er að skoða.

Bæði er gaman að skoða hlustunarmynstrið á ákveðnum tímapunktum í lífi mínu ásamt því að þetta er gott til að rifja upp lög og hljómsveitir sem ég hafði annars gleymt.

Síðan kerfið byrjaði að vakta hlustanir mínar hefur það skrá hjá sér 88,214 hlustanir.

Belle & Sebastian, mín allra allra uppáhaldssveit trónir í fyrsta sætinu yfir þær hljómsveitir sem ég hef mest hlustað á. Ekkert óvænt þar. Það lag með Belle & Sebastian sem ég hef hlustað á oftast er Wrapped up in books af hinni frábæru plötu Dear Catastrophe Waitress.

httpv://www.youtube.com/watch?v=iBU-MxydbWQ&ob=av3e

Topp 5 listinn yfir þær sveitir sem ég hef mest hlustað á lítur svona út, ef ýtt er á nafn hljómsveitar opnast það lag sem ég hef hlustað á mest með viðkomandi sveit.

1. Belle & Sebastian

2. Sigur Rós

3. Arcade Fire

4. The Magnetic Fields

5. The Polyphonic Spree

Árslistinn 2011

Prikið komið niður og majónesið orðið gult. Það er komið 2012 og því rétt að líta aðeins um öxl og fara yfir tónlistarárið 2011. Geri það með þeim hætti sem ég hef gert síðustu átta ár og því er hent í loftið árslista fyrir árið 2011.

Fyrir grúskara, listamenn og þá sem hafa hreinlega ekkert annað að gera að þá eru fyrri árslistar auðvitað enn aðgengilegir. Internetið gleymir engu.

2004 / 2005 / 2006 / 2007 / 2008 / 2009 / 2010

 

Bestu innlendu plötur ársins 2011.

5. Hljómsveitin ÉG – Ímynd fíflsins

Bakkabróðir minn Róbert Örn Hjálmtýsson á skilið allt það lof sem hann og meðreiðarsveinar hans fá. Allt síðan fyrsta plata hljómsveitarinnar ÉG hef ég verið skotinn í þessu bandi einfaldlega vegna þess að það gengur einhvern veginn allt upp og það er ekkert svona í gangi annarsstaðar. Hljómurinn er hrár og góður og textarnir, sem eru það allra besta við þessa sveit slá einhvern veginn alltaf á rétta strengi. Hljómsveitin ÉG er eitthvað sem allir eiga að athuga, það er bara þannig.

Það er engin tilviljun að platan hefur fengið fullt hús stiga hjá öllum tónlistarpennum þessa lands.

4. FM Belfast – Don´t want to sleep

Ég er ekki mikið fyrir raftónlist, er meira fyrir hið klassíska samspil bassa, trommu og gítars en það er eitthvað við FM Belfast sem ég elska. Það er þessi mikla gleði og stemmning sem að þau gefa frá sér í FM Belfast og þá sérstaklega á sviði sem að ég elska. Þessi plata er aðeins síðri en frumraunin en þau halda sig við formúluna sína og ég þarf ekkert meira.

3. 1860 – Sagan

Man það svo vel þegar ég heyrði Snæfellsnes í útvarpinu fyrst og svo stuttu seinna lagið Orðsending að austan. Ég hafði misst af kynningunni og vissi ekkert hverjir voru að flytja þessi lög en varð alveg afskaplega hrifinn. Mörgum mánuðum seinna í fimmtugs afmæli kom einn meðlimur sveitarinnar og tróð upp og ég greip þetta loksins og keypti plötunna strax daginn eftir. Þetta er frábær plata, sveitin er frábær á sviði og ég hlakka til að meira meira efni með þessari sveit.

2. Mugison – Haglél

Mugison, maður fólksins. Þarf ekkert að eyða orðum í þessa plötu. Hún er falleg, Mugison kann að semja tónlist og hann er bæði tónlistarmaður ársins og markaðsmaður ársins. Alltaf verið hrifinn af Mugison og það er engin breyting þar á.

httpv://www.youtube.com/watch?v=SgIPKcDj4vQ

1. Sóley – We Sink

Sóley á plötu ársins, þvílík plata. Það er allt gott við þessa plötu.

 

Bestu erlendu plöturnar 2010

5.  Noah and the Whale – Last Night on Earth

Bara fyrir það eitt að Tonight´s the kind of night sé á plötunni dugar til að skila sæti á topp fimm listanum. Af öllum lögum sem ég hef í mínum hirslum var þetta lagið sem ég hlustað oftast á á þessu ári. Platan er poppuð út í gegn með hrikalega ávanabindandi viðlögum og töktum sem ég get hummað og trommað í skrifborðið með. Sem er alltaf gott.

4. PJ Harvey – Let England Shake

Plata ársins hjá Uncut, MOJO, Guardian og NME fer í fjórða sætið hérna megin. Hrikalega góð plata en nokkuð þung og þannig gerð að maður þarf að vera í ákveðinni stemmningu til að geta hlustað á hana. Stemmningin og hugarfarið sem að hún þarfnast er af þeim toga að ég er ekki oft þannig stemmdur en þegar ég hef sett hana á í þessum gír hefur það verið yndislegt alveg.

PJ Harvey vann Mercury verðlaunin í ár fyrir þessa plötu og þegar tilkynnt var um sigurvegarann jókst sala plötunnar um 1,190%. sem er rugl.

3. tUnE-yArDs – who kill

Æðisleg plata. Skrýtin, grípandi en umfram allt skemmtileg. Ekki kannski allra en þeir sem ná þessu hreinlega elska þetta.

httpv://www.youtube.com/watch?v=YQ1LI-NTa2s

2. Bon iver

Svipað og með Mugison á innlenda listanum að þá er óþarfi að eyða miklum orðum í Bon Iver. Hann er búin að tröllaríða öllu svipað og Mugison sem toppaði svo allt þegar hann gerði myndband á Íslandi við lagið Holocine. Ótrúlega falleg plata.

httpv://www.youtube.com/watch?v=TWcyIpul8OE

1. Destroyer – Kaputt

Ég elska Dan Bejar en hann er einmitt forsprakki Destroyer. Þessi sveit sem hlýtur fyrsta sætið yfir plötu ársins er svo einnig í annari sveit sem oft hefur komist á árslistann hjá mér og er það hans aðalsveit. Destroyer er meira svona hliðarverkefni, og þvílíka geðveika hliðarverkefnið.

Dan Bejar er líka í New Pornographers, sveitinni sem kölluð er Kanadísk súpergrúbba sem hefur aldrei gert lélega plötu að mínum dómi.  Hann er svo líka í Swan Lake sem margir indie krútt krakkar ættu að kannast við.

Platan Kaputt er yndisleg með öllu, tímalaus snilld. Hún er hljóðblönduð þannig að maður getur illa tímasett tónlistina og rödd Dan Bejars sem er ansi sérstök fær að njóta sín þannig að maður hlustar með sperrt eyrun þegar hann hefur upp raust sína. Hugsa að Leonard Cohen komi fyrst upp í kollinn ef maður ætti að finna annan söngvara með álíka grípandi rödd þó að hún sé allt öðruvísi, bara sama stemmning einhvern veginn.

 

Þegar Guðrún eyðilagði jólin

Ég er búin að byrja á þessari færslu núna nokkrum sinnum. Finnst svo erfitt að skrifa þessi orð, skrifa þessi orð um konuna sem gerði mig að manni og hefur kennt mér svo margt.

En stundum er lífsnauðsynlegt að færa sig aðeins frá miðjunni og horfa á hlutina í samhengi og af fullu og einlægu hlutleysi. Það skiptir engu máli frá hvaða hlið ég horfi á þetta leiðinlega mál, það verður alltaf ljótt og sannleikurinn alltaf sá hinn sami. Og þessi sannleikur þarf að komast fram í dagsljósið enda bitnar þetta á börnum og það viljum við ekki.

Móðir mín, hún Guðrún er búin að eyðileggja jólin.

 

Það var með ekkasogum sem ég þurfti að segja Guffa vini mínum að ekkert yrði ritað um jólakökusmakkið þetta árið.

Móðir mín sem síðustu 35 ár eða svo hefur verið 15 sorta húsmóðir hver jól hefur ákveðið að skera niður. Það að skera niður að einhverju leiti hefði ég getað skilið enda eðlilegt að taka út sortir sem ekki eru að standa sína pligt en þá er lágmark að kynna nýja sort til sögunnar sem kemur inn ein jól til reynslu svona áður en ákveðið er að skera niður endanlega um heila sort.

Fimm sortir eru það þessi jólin, fimm (5) sortir er það sem móðir mín hefur lagt til jólahalds þetta árið. En í raun eru þetta bara þrjár (3) sortir því að móðir mín er að reyna að klóra í bakkann og fegra baksturs bókhaldið og telur því bæði skinkuhorn og brauðbollur upp í sinni talningu yfir heildarfjölda sorta.

Við vitum flest að skinkuhorn eru ekki smákökur heldur falla í flokk með heitum brauðréttum og öðrum brauðmeti. Skinkuhorn eru vissulega ljúfeng en þau eru hvorki smákökur né jólaleg.

Ég hef reynt að tjónka við henni, biðlað til hennar og hreinlega grátið en ekkert hefur fengið hana til þess að bakka. Guðrún, móðir mín ætlar að halda jólin svona. Þetta eru auðvitað engin jól ef að þetta á að vera svona. Þetta er bara eðlilegur heimilisbakstur eins og verið sé að baka fyrir lítið fjölskylduboð án tilefnis.

Það sem særir mig þó hvað mest við þetta allt saman er að skjaldborgin sem að lofað var sést hvergi. Átti ekki að standa vörð um heimilin ? Átti ekki að vernda börnin og fjölskyldurnar ?

Hér stend ég ásamt bræðrum mínum og öldruðum heyrnarskertum föður og berst við almættið móður mína sem öllu hefur stjórnað frá því að við bjuggum öll undir sama þaki og enn reynir hún að stjórna því hvernig við höldum jól. Barnaverndarnefnd segist ekki geta gert neitt þar sem við séum ekki lengur börn. Samt erum við bræður enn börn móður okkar og munum alltaf vera, þannig að sú rök standast ekki.

Lausnin er ekki að ég baki sjálfur eða eitthvað álíka. Öll mannsbörn vita að kökur sem bakaðar eru af móður smakkast betur en aðrar kökur, svona svipað og að keyptar piparkökur eru betri en stolnar piparkökur.

Að skrifa um þetta á netið, bera sig illa og telja illilega brotið á rétti sínum er því eina vitið því það virðist virka mjög vel á Íslandi í dag.

Heimilistækin og hún

Jólin komu snemma í Lindasmáranum þetta árið, að minnsta kosti finnst barnsmóður minni, sambýliskonu og kærustu það.

Nýr ísskápur kom á heimilið í síðustu viku, þýskur gæða ísskápur sem er svo fullkominn að hann sýnir upp á gráðu á framhlið hversu kalt frystihólfið sé og hver raunhiti í ísskápnum sjálfum er.

Hann hreyfir loftið í ísskápnum til að tryggja að kælingin sé jöfn og að sem minnst kalt loft tapist þegar að hurðin er opnuð og allskonar fleiri fína hluti sem að ég kann ekki að nefna.

Persónulega finnst mér þessi viðbót inná heimilið vera ágæt, að minnsta kosti fær bjórinn minn betra pláss og Pepsi Max-ið mitt er aðeins kaldara en verið hefur sem telst líka vera gott.

Kristín, þessi guðlega vera sem ól mér barn og bjargar mannslífum gengur í hringi um þetta stálburstaða ferlíki eins og að um altari sé að ræða. Hún gengur varlega nálægt skápnum, stríkur stálhurðinni létt eins og hún sé í makaleit á sléttum Serengeti.

Hún tilkynnir mér hátt og snjallt, stundum oft á dag að nú séu frystihólfin stödd í -22° sem sé óbreytt frá fyrri mælingu þannig að ég er að upplifa eins og að ég sé með veðurfréttamann í fullri vinnu að lesa af mælum heima hjá mér.

Til að toppa svo allt saman er hún búin að búa til kerfi, kerfi um það hvernig skuli raðað í skápinn og hvernig færa skuli hluti til eftir því hvenær þeir renna út á tíma og hvenær þeir voru settir inn í skápinn.

Þetta er auðvitað ekki hægt.