Laugardagskvöldið 17.ágúst sofnaði amma Dúna mín svefninum langa, orðin 92 ára gömul. Það er ljúfsárt, gott að hún fékk að fara en ég sakna ömmu minnar engu að síður heil mikið. Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið fyrir okkur bræður og ég læt hana fylgja hér með. Blessuð sé minning ömmu Dúnu.
Í okkar vinahópum þekkja flestir ömmu okkar, hana ömmu Dúnu. Bæði af því að við tölum oft um hana en þó helst vegna þess að við höfum oft mætt seint á vinafundi því að fjölskyldan hefur verið að hittast. Svo lengi sem við munum hefur ekki mátt vera frídagur án þess að fjölskyldan þurfi að hittast í kaffi, mat eða helst hvorutveggja. Engin var mætingarskyldan en alltaf mættu og mæta allir.
Það er leitun að samrýndari fjölskyldu. Systur mömmu eru okkur sem mæður og börn þeirra okkur sem systkini. Öll erum við ein órjúfanleg heild, við erum fólkið hennar ömmu Dúnu. Við erum ríkir að eiga slíkt bakland og er það ömmu Dúnu að þakka.
Amma Dúna var fyrir margt löngu tilbúin að kveðja, enda sátt og södd lífdaga. Alltaf var þó eitthvað í gangi sem hún vildi bíða eftir. Fyrst vildi hún sjá öll barnabörnin sín fermast og seinna hitta öll langömmu-börnin.
Hvort sem við vorum í heimsókn eða næturpössun hjá ömmu var alltaf tekið í spil. Amma kenndi okkur að spila og þannig eyddum við ófáum stundum saman. „Tígulkóngurinn kæri, kominn vildi ég að væri“ og „Spaði, spaði. Sprengdur úti á hlaði“ var þá eitthvað sem maður heyrði hana oft segja og við segjum í dag.
Það var alltaf fyrsti valkostur að gista hjá ömmu Dúnu og oft kepptumst við bræður um að fá að gista í Grjótaselinu, jafnvel þó að mamma og pabbi þyrftu ekki næturpössun. Þá fengum við frjálsar hendur og matseðill kvöldsins og sjónvarpsdagskrá voru hönnuð af okkur.
Hjá ömmu fengu börnin alltaf að ráða án þess þó að það færi út í öfgar. Fyrir henni voru allir jafnir og börn voru með sama atkvæðisrétt og aðrir, jafnvel meiri. Amma virtist líka vera með samning við jólasveinana því ef næturpössun var á sama tíma og þeir voru að gefa í skóinn var gjafmildi þeirra slík að góssið hefði fyllt öll okkar skópör og meira til. Amma var líka eflaust ein stöðugasta tekjulind myndbandaleiga og kvikmyndahúsa án þess þó að hafa stigið fæti þangað inn.
Amma Dúna mátti aldrei neitt aumt sjá, öll dýrin í skóginum áttu að vera vinir. Hún grét alltaf yfir Nonna og Manna því Magnús var svo vondur við þá bræður og hún var óhuggandi yfir myndinni um munaðarleysingjann Annie. Hún grét yfir þessu og öðru óréttlæti gagnvart börnum þó að hún vissi vel að þetta myndi enda vel.
Okkur leiddist aldrei að fá símtal frá ömmu þegar hún hringdi til að segja okkur að koma og sækja kleinupoka en þá hafði hún ásamt Þóru, mömmu og Ernu verið að baka. Kleinurnar hennar ömmu eru betri en allar aðrar kleinur og það sama má segja um rabarbaragrautinn, hakkabuffið, pönnukökurnar og eiginlega allt úr klassísku íslensku eldhúsi. Þetta segjum við ekki vegna tilfinningatengsla heldur sem staðreynd.
Ef við náum að kenna stelpunum okkar helminginn af þeirri gæsku, umhyggjusemi og kærleika sem amma hafði, höfum við staðið okkur vel í uppeldinu. Við gleðjumst yfir allri samverunni og yfir því að stelpurnar okkar hafi fengið að kynnast langömmu sinni. Okkur þykir óendanlega vænt um ömmu Dúnu og munum halda minningu hennar á lofti.
Kristinn, Ólafur og Guðmundur