Melódíur minninganna

Sigur Hildar Guðnadóttur á Golden Globes og síðar tilnefning til Óskarsverðlaunanna er mikið afrek, í raun ótrúlegt afrek.

En þessi mikla umfjöllun um hana og hennar núverandi minnti mig á talsvert mikilvægari hluti. Eldri verk Hildar.

Hildur var nefnilega einn af forsprökkunum í miklu krútti, virkilega miklu krútti sem er stórsveitin Rúnk. Plata Rúnksins Gengi Dahls er klassík, klassík sem ég var hreinlega búinn að gleyma að væri til. Plata sem ég hlustaði á til öreinda árið 2002 og inn í 2003 en fennti svo algjörlega yfir. Enda bara nokkrir mánuðir síðan að platan varð aðgengileg á Spotify, eitthvað sem að hefði átt að vera fyrsta frétt í helstu miðlum.

Fyrir þá sem ekki eru innvígðir í þennan anga tónlistar er Rúnk ekkert annað en stórmerkileg hljómsveit, það má gúggla tilurð sveitarinnar sem er skemmtileg saga út af fyrir sig en sveita skipar hálfgert indie landslið.

Rúnk skipuðu ekki bara Hildur Guðnadóttir tónskáld og sellóleikari heldur einnig Svavar Pétur aka Prins Póló, Benni Hemm Hemm, Bjössi Borko og Óli Óbó (Yukatan, Unun og fullt.

Atlavík ´84 er auðvitað sturlað lag, mæli með hlustun á Fílalags podcastið þar sem það var tekið fyrir, Yamaha algleymi er geggjað, Men and motors og Friends forever eru æði og svo mætti lengi telja, geggjuð plata bara sem eldist vel. Jóla EP plata Rúnksins er svo yndishlustun sömuleiðis og þar má finna Jólin eru að koma sem Prins Póló gaf út aftur á jólaplötunni sinni sem kom út núna fyrir jólin og má mæla mjög mjög mikið með.

Hildur var einnig söngkona Woofer, hljómsveit úr Hafnarfirði sem Benni Hemm Hemm reyndar spilaði í undir lokin. Woofer gaf út eina plötu, sem einnig bar nafnið Woofer og þar mátti finna lagið Græna tréð sem náði ágætis vinsældum en ég fann hvergi á opnu interneti. Því setti ég það inn á YouTube.

Discover Weekly

Eitt sinn var sá háttur hafður á að maður tók öryggisafrit af öllum plötum sem manni hugnaðist að hlusta á eftir að hafa legið yfir mp3bloggum og Hype Machine að finna nýtt efni til að hlusta á, efni sem hreinlega beið uppgötvunar. Ef efnið var manni að skapi og maður fann eitthvað sem maður fílaði alveg sérstaklega mikið var veskið tekið upp og platan keypt í næstu búð eða á netinu. Helst beint frá býli ef það var þá hægt eins og oft var og er hægt að gera með minni listamenn sem ekki hafa brotist alla leið í gegn í þessum sturlaða bransa.

Eftir að Spotify og aðrar streymisveitur mættu á svæðið hefur hegðunarmynstrið breyst og maður er alveg hættur að lesa öll þessi mp3blogg. Spotify sem er mín streymiþjónusta hefur einhvern veginn alveg tekið við og hlustarmynstrið breyst eftir því.

Sá fídus sem ég elska hvað mest af öllu við Spotify kom í fyrra og kallast Discover Weekly.

Þessi yndislegi fídus sem ég elska mikið virkar þannig að hvern mánudag uppfærist playlisti í þínu Spotify sem heitir einfaldlega Discover Weekly. Hann uppfærist eftir því hvað maður hefur verið að hlusta á og Spotify nýtir öll sín gögn og kerfi til að finna út hvað maður ætti að fíla út frá þeirri hlustun og hvað aðrir sem hlusta á svipaða og sömu tónlist og maður sjálfur eru að hlusta á sem maður hefur ekki rennt í gegnum spilarann.

Þannig hef ég fundið falda mola sem hreinlega hafa gleymst og maður mundi hreinlega ekki eftir að væru til ásamt því að kynnast nýjum tónlistarmönnum sem og gömlum sem aldrei hafa fengið athygli hjá manni.

Þannig byrjaði einhver skrýtin ást mín á Norður-Írsku sveitinni Devine Comedy sem ég hef hundrað sinnum heyrt um en aldrei hlustað á. Hef verið með lagið Tonight We Fly á non-stop repeat síðan það datt inn á Discover Weekly listann minn.

 

Svo hafa Sænskir gullmolar dottið inn en ég hef alltaf verið veikur fyrir indie poppi og rokki frá Svíþjóð. Joel Alme sem ég veit í raun engin deili á hefur þar staðið uppi sem snillingur.

Britpop – 20 árum síðar

Fyrir nærri tuttugu árum var Britpopið búið að ná hátindi þegar að Blur og Oasis gáfu bæði út smáskífu á einum og sama deginum. Allir fjölmiðlar gerðu mikið úr þessu stríði og gerðu þetta að keppni milli hljómsveitanna sem voru stærstar í þessum geira tónlistar. Stríðið snérist ekki bara um tónlistt heldur tengdist það beint í mænukylfu Breta þar sem stéttarskipting er mikil og miklu skiptir úr hvaða hreppi menn voru. Blur, með milli og hástéttar peyjum innanborðs sem fóru í listaskóla voru fulltrúar Lundúna og nærliggjandi bæja á meðan að Oasis voru lágstéttar drengir frá Manchester sem slógust, drukku og viðtöl sem tekin voru við þá voru gullmola verksmiðja enda var þvælan slík.

Frægt er t.d. þegar að Noel Gallagher sagði í viðtali að hann vonaði að Damon Albarn og Alex James bassaleikari Blur myndu fá eyðni og deyja. Falleg orð það.

Þó að Blur hafi unnið stríðið um Bretland náði Oasis því að slá í gegn í Bandaríkjunum, eitthvað sem mörg bönd frá Bretlandi höfðu reynt en ekkert náð í gegn enda var tónlistarhneigð Bandaríkjamanna um það sem var inni eða úti langt frá því að vera stillt á sömu bylgjulengd og Bretar eða restin af Evrópu á þessum tíma.

Núna þegar maður lítur aðeins um öxl liggja eftir margar plötur og annað gúmmelaði sem þessar sveitir og aðrar frá britpop tímanum skyldu eftir sig. Sumar eldast afskaplega vel, aðrar ekki. Margar sveitir frá þessum tíma eru með öllu gleymdar nema hjá einstaka fólki sem horfir enn til baka til þessa tíma með glampa í augunum. Það eru ekki margir að hringja í Popplandið á Rás 2 þessa dagana og biðja um lög með Powder, Shed Seven, Cast eða These Animal Men.

En það sem er kannski merkilegt er að það er engin sveit frá þessum tíma enn starfandi að gera vart við sig á topplistum eða að leggja frekari drög að heimsyfirráðum. Fáir forsprakkar sveita frá þessum tíma eru enn að gera góða tónlist og slá í gegnum hjá nýjum hópi hlustenda sem var ekki fæddur eða ekki komin til vits og ára fyrir 20 árum síðan.

Nema Damon Albarn.

Damon Albarn er eini maðurinn sem kemur upp í huga mér sem tók þátt í þessum brit pop dansi sem enn stígur dansinn, þróast og vex og heldur áfram að gera nokkuð góða tónlist. Allir hinir eru bara að gera eitthvað annað eða að lifa á stefgjöldum og forni frægð.

Mumford og synir

Ég tek tekið Babel, nýjustu afurð drengjanna í Mumford & Sons í sátt. Það tók smá tíma en fyrst fannst mér platan hreinlega ekkert spes. Eins og oft er með góðar plötur þarf nokkrar endurteknar hlustanir til að snilldin nái í gegn og það gerðist núna loksins.

Platan er yndi, það er bara þannig. Rödd Marcusar Mumford er yndisleg, það hefur mér alltaf fundist en lagasmíðarnar á þessari nýju plötu voru ekki alveg að renna nógu vel í mig. Ég tek það þó til baka og hrósa plötunni í hástert.

Það er alltaf erfitt fyrir listamenn að fylgja eftir fyrstu plötu sem selst í bílförmum og kemur sveitinni á kortið. Mumford & Sons hafa spilað endalaust og einu sinni eftir að fyrsta platan þeirra kom út, þeir hafa spilað á öllum stóru tónlistarhátíðunum og komið fram í öllum sjónvarpsþáttum vestanhafs sem að skipta máli og þeir bara búnir að slá í gegn. Pressan að gera góða plötu númer tvö er því mikil og mjög oft sem að tónlistarmenn klikka í annað skiptið sem lagt er af stað í plötu.

En þetta gengur allt saman upp, sem er vel.

Svo er ég alveg hrikalegur sökker fyrir banjói.

httpv://www.youtube.com/watch?v=rGKfrgqWcv0

Múgsefjun

Einhver vanmetnasta en jafnframt ein besta hljómsveit landsins um þessar mundir og síðustu ár er hljómsveitin Múgsefjun.

Það að þessi hljómsveit sé ekki sé ekki á vörum flestra landsmanna er hneyksli, það að Kalli Bjarni og Ingó ásamt fleiri Idol krökkum séu þekktari lætur okkur líta illa út sem menningarþjóð og unnendur góðrar tónlistar. Eða kannski segir allt sem segja þarf um hnignum og almenna stöðu okkar, eitthvað sem mér þykir sorglegt.

Fyrsta plata sveitarinnar, Skiptar skoðanir kom út 2008 og nokkur lög þar fengu nokkuð góða spilun á RÁS2, frábæra dóma allsstaðar þar sem íslensk tónlist er tekin fyrir en svo ekki söguna meir.

Núna, fjórum áður síðar er önnur plata sveitarinnar að koma út og ber hún nafn sveitarinnar. Múgsefjun syngur á íslensku og eru textar sveitarinnar skemmtilegir en flóknir og oft tvíræðir. Söngurinn er yndi og útsetningar allar bæði flóknar en í senn svo einfaldar. Spilverk Þjóðanna er sveit sem oft kemur upp í hugann þegar ég hlusta á Múgsefjun.

Það er skylda ykkar að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar. Þessir drengir eiga skilið að finna og skynja að eftir þeim sé tekið. Þeir hafa lagt allt sitt í þetta og núna er komið að okkur.

Það er eitthvað dáið innra með ykkur ef þið fílið ekki þetta.

httpv://www.youtube.com/watch?v=WD87tRLsGjw

 

 

tóndæmi dagsins

Ef það er eitthvað sem að fær mig til að henda öllu frá mér og taka alvarlega og einbeitt til virkrar hlustunar að þá er það sænskt indie popp.

Eins og áður hefur verið ritað um hér á þessari síðu er svo margt annað frábært og gott frá Svíþjóð annað en Ace of Base, Abba og Dr. Alban. Mörg tóndæmin hafa komið fram hér sem öll eiga uppruna sinn frá Svíþjóð, enda eitthað ótrúlegt í loftinu þar sem stemmir svo vel við minn tónlistarsmekk.

Tóndæmi dagsins er eitthvað sem ég hef ekki getað losnað við úr heyrnartólunum síðan í byrjun sumars. Alltaf sama lagið sem endar í eyrunum með Múgsefjunar plötuna og nýjustu SigurRós plötuna einhversstaðar þarna inn á milli.

Kristian Matsson er tóndæmi dagsins. Hann er þó með hið stutta og laggóða listamannsnafn The Tallest Man on Earth. Hann kalla menn hinn sænska Bob Dylan en áhrifin frá meistara Dylan og t.d. Woodie Guthrie eru mikil og áheyranleg. Hann gerir þetta samt vel drengurinn og þriðja plata hans sem nýlega kom út er hreint afbragð. Tóndæmi dagsins er þó það lag sem ber af.

The Tallest Man on Earth – 1904

RetroBot

Það er ekki svo ýkja oft að sigurvegarar Músíktilrauna ná til eyrna minna svona strax eftir að keppni lýkur en það hefur gerst núna. Venjulega bíð ég spakur þangað til að sigursveitin gefur út stóra plötu eða EP plötu svo að ég geti heyrt betur hvað sé um að ræða og hvort að þetta sé eitthvað fyrir minn fágaða tónlistarsmekk.

Sigursveit ársins er RetroBot sem kemur frá Selfossi og er þar með fyrsta sveitin frá Selfossi sem að sigrar í Músiktilraunum. Reyndar segja liðsmenn sveitarinnar að þeir séu ekki frá Selfossi heldur frá bæjum og sveitum þar í kring en þeir eiga það sameiginlegt að stunda nám við Framhaldsskólann á Selfossi og þaðan sé tengingin við bæjarfélagið komin.

Áður en Músíktilraunir byrjuðu var söngvari sveitarinnar búin að fanga athygli mína með því að syngja eitthvað það besta tónlistaratriði sem að ég hef séð í Gettu Betur, í atriði sem reyndar aðrir meðlimir sveitarinnar taka einnig þátt í. Textar RetroBot eru á ensku en það er krafa Ríkissjónvarpsins að sungið sé á okkar ástkæra ylhýra og fluttu þeir því lagið Hitler var grafískur hönnuður úr söngleiknum Legið eftir Hugleik Dagsson og hljómsveitina Flís.

httpv://www.youtube.com/watch?v=BCJo-AXG-JM

Þau lög sem ég hef heyrt með RetroBot eru hvert öðru betra. Sveitin er með góða blöndu af rokki og elektró, eitthvað sem ég get á stundum verið mjög veikur fyrir ef vel er gert.

Lagið Electric Wizard finnst mér t.d. yndi.

httpv://www.youtube.com/watch?v=Q8yk6kuIap4

Það styttist í EP plötu frá sveitinni sem verður gaman að hlusta á. Það er mikið efni í þessum strákum. Hér má svo heyra acoustic útgáfu af laginu Lost sem er líka mjög gott.

last.fm

Síðan 7.september það herrans ár 2004 hef ég notað last.fm til að fylgjast með því sem ég hlusta á. Allar tölvur sem ég hef notað síðan þá bæði heima og í vinnu, símar og iPoddar hafa samkeyrt allar upplýsingar um hlustanir þangað inn þannig að allskonar skemmtilegar upplýsingar eru þar til á skrá sem gaman er að skoða.

Bæði er gaman að skoða hlustunarmynstrið á ákveðnum tímapunktum í lífi mínu ásamt því að þetta er gott til að rifja upp lög og hljómsveitir sem ég hafði annars gleymt.

Síðan kerfið byrjaði að vakta hlustanir mínar hefur það skrá hjá sér 88,214 hlustanir.

Belle & Sebastian, mín allra allra uppáhaldssveit trónir í fyrsta sætinu yfir þær hljómsveitir sem ég hef mest hlustað á. Ekkert óvænt þar. Það lag með Belle & Sebastian sem ég hef hlustað á oftast er Wrapped up in books af hinni frábæru plötu Dear Catastrophe Waitress.

httpv://www.youtube.com/watch?v=iBU-MxydbWQ&ob=av3e

Topp 5 listinn yfir þær sveitir sem ég hef mest hlustað á lítur svona út, ef ýtt er á nafn hljómsveitar opnast það lag sem ég hef hlustað á mest með viðkomandi sveit.

1. Belle & Sebastian

2. Sigur Rós

3. Arcade Fire

4. The Magnetic Fields

5. The Polyphonic Spree

Árslistinn 2011

Prikið komið niður og majónesið orðið gult. Það er komið 2012 og því rétt að líta aðeins um öxl og fara yfir tónlistarárið 2011. Geri það með þeim hætti sem ég hef gert síðustu átta ár og því er hent í loftið árslista fyrir árið 2011.

Fyrir grúskara, listamenn og þá sem hafa hreinlega ekkert annað að gera að þá eru fyrri árslistar auðvitað enn aðgengilegir. Internetið gleymir engu.

2004 / 2005 / 2006 / 2007 / 2008 / 2009 / 2010

 

Bestu innlendu plötur ársins 2011.

5. Hljómsveitin ÉG – Ímynd fíflsins

Bakkabróðir minn Róbert Örn Hjálmtýsson á skilið allt það lof sem hann og meðreiðarsveinar hans fá. Allt síðan fyrsta plata hljómsveitarinnar ÉG hef ég verið skotinn í þessu bandi einfaldlega vegna þess að það gengur einhvern veginn allt upp og það er ekkert svona í gangi annarsstaðar. Hljómurinn er hrár og góður og textarnir, sem eru það allra besta við þessa sveit slá einhvern veginn alltaf á rétta strengi. Hljómsveitin ÉG er eitthvað sem allir eiga að athuga, það er bara þannig.

Það er engin tilviljun að platan hefur fengið fullt hús stiga hjá öllum tónlistarpennum þessa lands.

4. FM Belfast – Don´t want to sleep

Ég er ekki mikið fyrir raftónlist, er meira fyrir hið klassíska samspil bassa, trommu og gítars en það er eitthvað við FM Belfast sem ég elska. Það er þessi mikla gleði og stemmning sem að þau gefa frá sér í FM Belfast og þá sérstaklega á sviði sem að ég elska. Þessi plata er aðeins síðri en frumraunin en þau halda sig við formúluna sína og ég þarf ekkert meira.

3. 1860 – Sagan

Man það svo vel þegar ég heyrði Snæfellsnes í útvarpinu fyrst og svo stuttu seinna lagið Orðsending að austan. Ég hafði misst af kynningunni og vissi ekkert hverjir voru að flytja þessi lög en varð alveg afskaplega hrifinn. Mörgum mánuðum seinna í fimmtugs afmæli kom einn meðlimur sveitarinnar og tróð upp og ég greip þetta loksins og keypti plötunna strax daginn eftir. Þetta er frábær plata, sveitin er frábær á sviði og ég hlakka til að meira meira efni með þessari sveit.

2. Mugison – Haglél

Mugison, maður fólksins. Þarf ekkert að eyða orðum í þessa plötu. Hún er falleg, Mugison kann að semja tónlist og hann er bæði tónlistarmaður ársins og markaðsmaður ársins. Alltaf verið hrifinn af Mugison og það er engin breyting þar á.

httpv://www.youtube.com/watch?v=SgIPKcDj4vQ

1. Sóley – We Sink

Sóley á plötu ársins, þvílík plata. Það er allt gott við þessa plötu.

 

Bestu erlendu plöturnar 2010

5.  Noah and the Whale – Last Night on Earth

Bara fyrir það eitt að Tonight´s the kind of night sé á plötunni dugar til að skila sæti á topp fimm listanum. Af öllum lögum sem ég hef í mínum hirslum var þetta lagið sem ég hlustað oftast á á þessu ári. Platan er poppuð út í gegn með hrikalega ávanabindandi viðlögum og töktum sem ég get hummað og trommað í skrifborðið með. Sem er alltaf gott.

4. PJ Harvey – Let England Shake

Plata ársins hjá Uncut, MOJO, Guardian og NME fer í fjórða sætið hérna megin. Hrikalega góð plata en nokkuð þung og þannig gerð að maður þarf að vera í ákveðinni stemmningu til að geta hlustað á hana. Stemmningin og hugarfarið sem að hún þarfnast er af þeim toga að ég er ekki oft þannig stemmdur en þegar ég hef sett hana á í þessum gír hefur það verið yndislegt alveg.

PJ Harvey vann Mercury verðlaunin í ár fyrir þessa plötu og þegar tilkynnt var um sigurvegarann jókst sala plötunnar um 1,190%. sem er rugl.

3. tUnE-yArDs – who kill

Æðisleg plata. Skrýtin, grípandi en umfram allt skemmtileg. Ekki kannski allra en þeir sem ná þessu hreinlega elska þetta.

httpv://www.youtube.com/watch?v=YQ1LI-NTa2s

2. Bon iver

Svipað og með Mugison á innlenda listanum að þá er óþarfi að eyða miklum orðum í Bon Iver. Hann er búin að tröllaríða öllu svipað og Mugison sem toppaði svo allt þegar hann gerði myndband á Íslandi við lagið Holocine. Ótrúlega falleg plata.

httpv://www.youtube.com/watch?v=TWcyIpul8OE

1. Destroyer – Kaputt

Ég elska Dan Bejar en hann er einmitt forsprakki Destroyer. Þessi sveit sem hlýtur fyrsta sætið yfir plötu ársins er svo einnig í annari sveit sem oft hefur komist á árslistann hjá mér og er það hans aðalsveit. Destroyer er meira svona hliðarverkefni, og þvílíka geðveika hliðarverkefnið.

Dan Bejar er líka í New Pornographers, sveitinni sem kölluð er Kanadísk súpergrúbba sem hefur aldrei gert lélega plötu að mínum dómi.  Hann er svo líka í Swan Lake sem margir indie krútt krakkar ættu að kannast við.

Platan Kaputt er yndisleg með öllu, tímalaus snilld. Hún er hljóðblönduð þannig að maður getur illa tímasett tónlistina og rödd Dan Bejars sem er ansi sérstök fær að njóta sín þannig að maður hlustar með sperrt eyrun þegar hann hefur upp raust sína. Hugsa að Leonard Cohen komi fyrst upp í kollinn ef maður ætti að finna annan söngvara með álíka grípandi rödd þó að hún sé allt öðruvísi, bara sama stemmning einhvern veginn.

 

1860

Þetta kann ég að meta, þetta kann ég að meta bara nokkuð mikið og vel.

httpv://www.youtube.com/watch?v=hsPHvYILYF0

Og svo blússandi Arcade Fire ábreiða frá sömu sómapiltum.

httpv://www.youtube.com/watch?v=N4mb81jRHWU