Tveggja barna faðir

Þetta blogg hefur verið vanrækt mjög lengi. Það er miður þegar maður horfir til þess að bloggið hefur verið starfandi í einhverri mynd síðan í júní það herrans ár 2000 þegar að internetbólan var í hámarki. Síðan þá hafa mörg netfyrirtækin farið yfir móðuna miklu með bullandi rauð excel skjöl og yfirdráttinn í botni. Bloggsíðan gummijoh.net hefur alltaf verið í góðum rekstri og öll opinber gjöld greidd samviskusamlega.

Síðan síðast hefur margt gerst. Ber þó helst að nefna að Hertoginn, það þýska stál var seldur á einum degi og uppfært í skutbíl. Enda þarf meira pláss þegar að nýr einstaklingur bætist við í fjölskylduna. Þá er ég ekki að tala um hamstur eða páfagauk heldur nýjan einstakling, með skoðanir, kennitölu og tilfinningar.

Guðrún Eva Guðmundsdóttir fæddist 25.nóvember 2013. Þetta gekk hratt fyrir sig og barnið kom rétt áður en ég náði að smella mynd af slímtappanum þegar hann skaust út úr barnsmóður minni á mettíma. Stuttu seinna var komið barn og ég grátandi í boga yfir þessu öllu saman.

Guðrún Eva

Eins fullkomin og Margrét Dúna sem fer að detta í fjögurra ára aldurinn er og var á sínum hvítvoðungs tíma mætti segja að Guðrún Eva sé eins og BabyBorn dúkka. Hún brosir, hjalar, drekkur og sefur í engri sérstakri röð. Það er aldrei neitt vesen með svefn, aldrei neitt vesen með skapið og því mætti segja að hún hafi erft skapið mitt. Margrét Dúna er meira með skap barnsmóður minnar. Þar eru áveðnar skoðanr á öllum hlutum og ekkert verið að sætta sig við málamyndanir. Þegar Margrét Dúna og barnsmóðirin deila er það bara stál í stál og ég er þá í hlutverki sáttasemjara. Eitthvað sem segir mér að þetta verði ekki raunin með Guðrúnu Evu, en ég hræðist hvernig þetta verður þegar hún verður unglingur, þá kannski blómstar út eitthvað skap sem ég á ekki roð í. Vonum samt að hún verði bara eins og ég sem unglingur, ekkert nema ljós.

Núna í apríl dettur svo barnsmóðirin í vinnu og barnið ekki orðið fimm mánaða. Það verður því mikið álag á tveggja barna föðurnum sem smellur í feðraorlof þá og þarf að gefa pela lon og don eins og að hann laktósi sjálfur. Fyrir mann sem þolir illa að missa svefn verður það því mikil þolraun að þurfa að vakna um miðjar nætur til að hita pela og standa í þessu brasi.

Að eiga tvö börn er áskorun. Það tekur allt lengri tíma og því algjörlega ný rútína sem þarf að venja sig á, það getur tekið á þegar maður býr með manneskju með sterku þýsku geni sem skipuleggur tíma sinn í fimmtán mínutna lotum og það þarf að ná þessari rúmlega fjögurra ára í föt, greiða hár og svo koma nýjasta eintakinu í föt líka. Þegar allir eru svo tilbúnir og ekkert eftir nema að skella útidyra hurðinni í lás heyrist hljóð. Hljóð sem maður veit að rústar öllum áætlunum og hafa þarf hröð handtök. Það er þetta hljóð sem að foreldrar einir þekkja, hljóð sem segir manni að nú sé kúkur kominn upp á bak og í gegnum öll lögin af fötum.

Feðraorlofið verður áskorun. Tryggja þarf heimilisfrið, tryggja þarf áhyggjulaust og fumlaust uppeldi dætranna og tryggja þarf að nóg sé af „me-time“ svo að nýrri uppskerfu af gráum hárum sé haldið í skefjum.

MD og GE

Fimm dagar í heimkomu

Barnsmóðir mín og sambýliskona (bara svo það komi fram svo að fólk haldi að við séum ekki saman) hefur verið erlendis núna í nærri því tvær vikur og styttist í langþráða heimkomu.

Fyrir utan hið „mikla“ álag sem myndast á mig föðurinn við að halda uppi aga og reglu fyrir nú þriggja ára dóttur okkar er margt sem þarf að huga að fyrir heimkomuna.

– Ég þarf að fara í Sorpu svo að ekki sjáist hversu marga bjóra ég hef drukkið í einveru minni.

– Ég þarf að henda öllum ummerkjum um óhollustu og láta pakkningar sem skarta orðum eins og lífrænt, fræ, Solla, Chia, D vítamín bætt og annað í þessum dúr sem er með allt of háu kíló og lítraverði vera í forgrunni.

– Ég þarf að taka mjög mikið og vel til þannig að heimilið sé hæft á forsíðu glanstímarits.

Þetta er brot af því sem þarf að gera svo að barnsmóðirin sé sátt enda við ekki með sama gæðastandard þegar kemur að þrifum og almennri umgengni. Það er ekki að ég sé sóði og vilji helst hafa heimilið eins og að ég byggi með Rympu á Ruslahaugunum heldur er þýska genið í barnsmóður minni einfaldlega svo sterkt að allt þarf að vera 110%, teinrétt og fullkomið.

Ég þarf því að koma barninu í pössun, klæða mig í gallann og skrúbba, bóna og pússa. Græna skýið sem verður yfir borginni næstu daga er ekki mengun frá Hellisheiðarvirkjun heldur bara grasekkill að undirbúa heimkomu barnsmóður sinnar og sambýliskonu.

Prinsessan og ljónið

Ég var svo heppinn sem barn að eiga framsýna foreldra sem snemma aðlöguðust tölvutækninni og því var einkatölva (frábært orð) á heimilinu frá fæðingu minni.

Pabbi bjó til fyrstu leikjatölvu heimilins áður en ég fæddist en sú forláta vél gerði notendum hennar kleift að spila Pong og seinna var fjárfest í Sinclair Spectrum hjá Bókabúð Braga. PC tölva kom svo á heimilið þegar ég var að hefja skólagöngu og þetta því tæki sem ég átti auðvelt með að umgangast og nota sem nýtist mér enn þann dag í dag.

Margrét Dúna fæðist inn í heim sem er talsvert lengra komin í þessari upplýsingatæknibyltingu enda hún vön því að allt sjónvarpsefni sé tilbúið til neyslu strax, og að ekki þurfi að neyta efnis eingöngu eftir geðþótta dagskrárstjóra sjónvarpsstöðvanna. Hægt er að horfa og hlusta á þroskandi efni næstum samstundis þökk sé internetinu, þó allt í hófi og eftir uppeldisákvörðunum okkar foreldranna.

Það að horfa á tveggja og hálfs gamla stelpu halda á snjallsíma eða spjaldtölvu er merkilegt fyrirbæri. Hún kann og veit strax hvernig þetta virkar, það þarf ekki að kenna henni neitt á helstu aðgerðir heldur hefur hún lært þær með því að horfa á okkur foreldrana nota tækin og samhæfing augna og handa ásamt fínhreyfingum þurfa ekki að vera jafn þróaðar og þegar á að nota lyklaborð og mús saman.

Við Margrét Dúna höfum verið að dunda okkur að skoða saman allskonar leiki í iPad og á snjallsímanum mínum. Við litum, horfum á Sesam stræti og teljum saman og við lærum að þekkja stafina.

Það sem við höfum haft mest gaman af og ég mæli með að aðrir foreldrar og eigendur iPad nái sér í hið fyrsta eru eftirfarandi þrjú öpp :

  • Explorer Kids Underwater. Skemmtilegur púslleikur og tónlistin ærir ekki foreldrana sem er gott.

httpv://www.youtube.com/watch?v=vLbNwIZ9FUQ

  • Toca Boca Hair Salon. Margrét Dúna getur skemmt sér endalaust (Kristín reyndar líka) við að klippa, greiða, blása og lita hár á mönnum og dýrum.

httpv://www.youtube.com/watch?v=JCWFVnY7J_Y

  • Uppáhaldið okkar er þó klárlega Toontastic sem við búum til teiknimyndir saman í. Þrekvirkið Prinsessan og Ljónið er einmitt búið til í þessu appi.

[pageview url=“http://toontube.launchpadtoys.com/embed/108023″%5D

2 ára

Fyrir tveimur árum síðan akkúrat í dag fékk ég dóttur mína í hendurnar í fyrsta skipti. Það er hægt að lesa um það í bókum og sjá það mögulega í sjónvarpinu að þetta sé eitthvað magnað og frábært en það er engan veginn hægt að lýsa þeim tilfinningum sem að um mann líða á þeirri stundu sem maður fær að halda á barninu sínu í fyrsta skipti.

Það að finna endalausa og óskilyrðislausa ást á einu augnabliki til annarar manneskju er eitthvað sem ég vona að allir fái að upplifa, það að verða illt í hjartanu af umhyggju og stolti yfir einföldum hlut eins og að hún hafi sett mat á gaffal og stungið upp í sig alveg sjálf og að gráta af gleði yfir brosi er ólýsanlegt. Sterkasta minningin frá fyrstu mánuðum Margrétar Dúnu er samt sú endalausa gleði sem það gaf manni að geta alltaf svæft hana á öxlinni, þar leið henni vel og vildi vera og þar vildi ég hafa hana.

Svefnlausar nætur og minni svefn almennt er staðreynd en það er lítil fórn á meðan maður fær að njóta þeirra forréttinda að fylgjast með barninu sínu þroskast og vaxa, breytast úr ósjálfbjarga hvítvoðungi yfir í 2 ára stelpu sem veit upp á hár hvað hún vill, getur leikið sér að tilfinningum manns til þess eins að fá rúsínupakka eða snuð. Þó að klukkan sé 7:00 á sunnudagsmorgni þýðir lítið að blóta yfir því að dagurinn hjá manni sé byrjaður. Maður fer sjálfkrafa fram úr með bros á vör þegar að maður heyrir kallað „pabbi, pabbi. Búið“ á meðan strokið er nokkuð harkalega í augað á manni.

Þessi tvö ár hafa verið ótrúlega fljót að líða og það sem stendur upp úr og er það allra ómetanlegasta við allann þennan tíma er að hafa getað farið í fjögurra mánaða orlof og eytt þeim tíma alfarið með dóttur sinni. Hluta af tímanum var ég einn með hana á meðan að barnsmóðirin og sambýliskonan var erlendis og sá tími gaf mér sem pabbanum langmest.

Mamman er ósjálfrátt í fyrsta sæti enda hún búin að ferja heila manneskju í maganum á sér og gefur henni brjóst. Þeirri tengingu milli móður og barns getur pabbinn ekki skákað og verður því að sætta sig að vera í öðru sæti eða því sem næst á meðan að nýburinn nærist alfarið með hjálp móður sinnar.

Það að sjá svo alfarið um Margréti Dúnu gerði það að verkum að ég var orðin jafningi mömmunnar ef það er þá hægt sem gerir það að verkjum að hún leitar til jafns til okkar ef eitthvað bjátar á, það er ómetanlegt.

Til hamingju með daginn Margrét Dúna.

„Það er eitthvað að“

Eins yndislegt og frábært það nú er að vera foreldri er þó eitt sem maður fær aldrei nóg af, svefn.

Það að sofa út eða að geta lagt sig er eitthvað sem leggst næstum því með öllu af við það að eignast barn. Þær eru taldar í tugum ef ekki hundruðum klukkustundirnar sem að foreldrar missa af svefni fyrstu árin eftir að barn kemur á heimilið.

Í dag hafði ég hugsað mér að geta sofið út enda Margrét Dúna í næturpössun á Jóh setrinu og við Kristín í veislu kvöldið áður þar sem vel var veitt af bæði mat og drykk. Þess vegna var mögulega enn meiri ástæða til að sofa aðeins lengur en venjulega til að jafna út syndir gærkvöldsins og vera orðinn 100% þegar barnið yrði sótt.

Klukkan hálf tíu í morgun er bankað fast í mig. Kristín (barnsmóðir mín og sambýliskona) er í hálfgerðu sjokki yfir að það sé bjart úti og barnið ekki komið upp í. „Það er eitthvað að!!!“ jarmaði móðurhjartað sem virðist vera jafn næmt fyrir hættum eins og Kóngulóarmaðurinn.

Eftir þetta sjokk gat svo barnsmóðirin ekki sofnað og var ég því sendur andfúll og hálf sunnan við mig á hjóli (bíllinn varð eftir í gærkvöldi) út í bakarí og kaupa kruðerí og brauð.

Ég held að ég eigi skilið að leggja mig í dag.

Einstæður enn og aftur

Ég enn einu sinni einn í kotinu með Margréti Dúnu. Kristín stungin af til Senegal til að bjarga mannslífum og svitna. Hitinn og rakinn þar er bull og því sofnar maður sveittur og vaknar sveittur.

Þá vil ég frekar lokin á alíslensku sumri sem leyfir mér að taka hjólatúra með Margréti Dúnu og líta við á gæsluvellinum til að prófa leiktækin.

Verandi tímabundið einstæður faðir er fínt, myndi ekki velja þetta sem fyrsta val en þetta er bara ágætt. Bæði stjórnum við Margrét Dúna alfarið dagskránni og ég get gert það sem ég vil á kvöldin þegar að Margrét Dúna er sofnuð. Ég passa auðvitað að helstu hlutir séu á hreinu. Læt uppvaskið ekki sitja á hakanum, held heimilinu í lagi og skelli í þvottavélar enda þurfum við feðgin að vera vel útlítandi svo að fólk fari ekki að hringja í barnaverndaryfirvöld og haldi mögulega að ég sé ekki að standa mig í stykkinu.

Núna er rétt liðin vika síðan að Kristín fór út og ég hef ekki enn þurft að elda kvöldmat. Sé einhvern veginn fyrir mér að ef Kristín væri búin að vera ein með Margréti Dúnu þennan tíma væri meðaltal matarboða ekki jafn hátt.

Það besta við fjarveru Kristínar, svona fyrir utan gæðastundirnar sem ég á með dóttur minni er að ég get gert alla þá hluti sem að Kristín myndi ekki taka í mál að gera eins og að horfa á asnalegar bandarískar ofurhetjumyndir, spilað ofbeldisfulla og tilgangslausa tölvuleiki ásamt því að liggja upp í sófa og lesa Game of Thrones án þess að þurfa að ganga frá einu né neinu.

Grasekkill – taka tvö

Á morgun fer barnsmóðirin aftur erlendis til að bjarga mannslífum, þetta brölt vonandi allt leiðir til þess að heimurinn verður aðeins betri staður.

Það að  hún sé við skyldustörf á fjarlægum slóðum þýðir að ég mun þurfa að sjá um að reka heimilið, fjarskiptafyrirtækið og ala upp Margréti Dúnu.

Síðast þegar barnsmóðirin fór svona frá stóð lotan í þrjár vikur og allt gekk afskaplega vel fyrir sig. Frumburðinn dafnaði, lagði skriði og tók upp labb ásamt því að babbla meira en ég geri. Barnsmóðirin kom heim sólbrún, með H&M poka svo að maður hefði getað haldið að hún væri að koma úr verslunarferð í Danmörku frekar en að bjarga mannslífum.

Þó að Margrét Dúna hafi ekki erfit mikið af útlitslegri fegurð minni er þó á hreinu að hún er dóttir mín og án nokkurs vafa Jóh.

Margrét Dúna hefur hátt, mjög hátt á tíðum. Hún hefur grætt börn með hjali sínu sem eru ekki öskur heldur liggur henni bara hátt rómurinn. Bæði hefur hún grætt dóttur Arnars 6 ára og strákinn hans Villa bara með því einu að vera hress.

Þessar tvær vikur sem Kristín (barnsmóðirin) verður í burtu núna verða yndislegar, það verður blússandi dagskrá frá morgni til kvölds allt til þess að drepa tímann og þessa gæðastund sem einveran með henni er. Einstæðir feður fá þó mikla hjálp og aðstoð frá fjölskyldunni enda vorkenna allir einstæðum feðrum. Einstæðar mæður hreinlega verða bara að þrauka.

Þeir sem eru til í hitting þurfa bara að panta tíma. Við Margrét Dúna erum til í hvað sem er.

Grasekkill – dagur fjögur

Fjórir dagar síðan að barnsmóðirin fór erlendis til að bjarga mannslífum. Þessi túr verður þrjár vikur og því við Margrét Dúna í góðum fíling að gera allt það sem að barnsmóðirin myndi annars líta hornauga.

Ef Margrét Dúna óskar eftir sykurull í kvöldmat fær hún sykurull enda eyði ég öllum mínum kröftum að gera stelpuna að pabbastelpu. Það skal takast á þessm þremur vikum.

Einstæður faðir fær langt um meiri samúð af samfélaginu heldur en einstæð móðir, það er bara þannig. Boð um að koma í mat ásamt fjöldamörgum boðum um að vera með Margréti Dúnu gjörsamlega fylla innhólfið og maður hefur varla undan að svara fyrirspurnum.

Ég á samt alveg eftir að athuga hvaða hjálp ég get fengið frá sveitarfélagi og ríki. Eflaust einhver þunnildi í boði þar svo væntanlega mun ekki taka því að sækja eftir þeirri aðstoð þó það væri vissulega fyndið að sjá svipinn á þjónustufulltrúum Félagsþjónunnar þegar þær heyra aðstæður mínar.

Margrét Dúna hefur ekki enn uppgötvað að mamma hennar sé farin, svona lítil börn hafa ekkert tímaskin og svo er kannski ekki mikill tími til þess að sakna mömmu sinnar þegar það er alltaf eitthvað í gangi. Dagskráin hefur verið svo þétt að maður er bara feginn að komast aftur til vinnu í rútínuna þegar að helgin er loksins búin.

Þetta verður ekkert mál, ég er geðgóður og Margrét Dúna er afskaplega geðgóð. Hún snappaði þó í morgun þegar ég var að greiða henni enda það ekki mín sterkasta hlið.

Það ásamt klæðavali mínu á frumburðinn mun eflaust verða það sem að fólk mun helsta taka eftir, annars brosir hún hringinn.

Fröken hávaði

Fjögurra mánaða feðraorlofi er núna lokið, ég mættur aftur til starfa hjá fjarskiptarisanum og frumburðurinn byrjuð að eyða dögunum hjá dagmömmu.

Frumburðurinn er 100% dóttir föður síns, það var endanlega staðfest þegar að dagmamman tjáði foreldrunum að Margréti Dúnu lægi hátt rómurinn.

Ekki hægt að hugsa sér betra hrós, enda er stelpan Jóh.

Dúna les Dúnu