Melódíur minninganna

Sigur Hildar Guðnadóttur á Golden Globes og síðar tilnefning til Óskarsverðlaunanna er mikið afrek, í raun ótrúlegt afrek.

En þessi mikla umfjöllun um hana og hennar núverandi minnti mig á talsvert mikilvægari hluti. Eldri verk Hildar.

Hildur var nefnilega einn af forsprökkunum í miklu krútti, virkilega miklu krútti sem er stórsveitin Rúnk. Plata Rúnksins Gengi Dahls er klassík, klassík sem ég var hreinlega búinn að gleyma að væri til. Plata sem ég hlustaði á til öreinda árið 2002 og inn í 2003 en fennti svo algjörlega yfir. Enda bara nokkrir mánuðir síðan að platan varð aðgengileg á Spotify, eitthvað sem að hefði átt að vera fyrsta frétt í helstu miðlum.

Fyrir þá sem ekki eru innvígðir í þennan anga tónlistar er Rúnk ekkert annað en stórmerkileg hljómsveit, það má gúggla tilurð sveitarinnar sem er skemmtileg saga út af fyrir sig en sveita skipar hálfgert indie landslið.

Rúnk skipuðu ekki bara Hildur Guðnadóttir tónskáld og sellóleikari heldur einnig Svavar Pétur aka Prins Póló, Benni Hemm Hemm, Bjössi Borko og Óli Óbó (Yukatan, Unun og fullt.

Atlavík ´84 er auðvitað sturlað lag, mæli með hlustun á Fílalags podcastið þar sem það var tekið fyrir, Yamaha algleymi er geggjað, Men and motors og Friends forever eru æði og svo mætti lengi telja, geggjuð plata bara sem eldist vel. Jóla EP plata Rúnksins er svo yndishlustun sömuleiðis og þar má finna Jólin eru að koma sem Prins Póló gaf út aftur á jólaplötunni sinni sem kom út núna fyrir jólin og má mæla mjög mjög mikið með.

Hildur var einnig söngkona Woofer, hljómsveit úr Hafnarfirði sem Benni Hemm Hemm reyndar spilaði í undir lokin. Woofer gaf út eina plötu, sem einnig bar nafnið Woofer og þar mátti finna lagið Græna tréð sem náði ágætis vinsældum en ég fann hvergi á opnu interneti. Því setti ég það inn á YouTube.

tóndæmi dagsins

Ef það er eitthvað sem að fær mig til að henda öllu frá mér og taka alvarlega og einbeitt til virkrar hlustunar að þá er það sænskt indie popp.

Eins og áður hefur verið ritað um hér á þessari síðu er svo margt annað frábært og gott frá Svíþjóð annað en Ace of Base, Abba og Dr. Alban. Mörg tóndæmin hafa komið fram hér sem öll eiga uppruna sinn frá Svíþjóð, enda eitthað ótrúlegt í loftinu þar sem stemmir svo vel við minn tónlistarsmekk.

Tóndæmi dagsins er eitthvað sem ég hef ekki getað losnað við úr heyrnartólunum síðan í byrjun sumars. Alltaf sama lagið sem endar í eyrunum með Múgsefjunar plötuna og nýjustu SigurRós plötuna einhversstaðar þarna inn á milli.

Kristian Matsson er tóndæmi dagsins. Hann er þó með hið stutta og laggóða listamannsnafn The Tallest Man on Earth. Hann kalla menn hinn sænska Bob Dylan en áhrifin frá meistara Dylan og t.d. Woodie Guthrie eru mikil og áheyranleg. Hann gerir þetta samt vel drengurinn og þriðja plata hans sem nýlega kom út er hreint afbragð. Tóndæmi dagsins er þó það lag sem ber af.

The Tallest Man on Earth – 1904

RetroBot

Það er ekki svo ýkja oft að sigurvegarar Músíktilrauna ná til eyrna minna svona strax eftir að keppni lýkur en það hefur gerst núna. Venjulega bíð ég spakur þangað til að sigursveitin gefur út stóra plötu eða EP plötu svo að ég geti heyrt betur hvað sé um að ræða og hvort að þetta sé eitthvað fyrir minn fágaða tónlistarsmekk.

Sigursveit ársins er RetroBot sem kemur frá Selfossi og er þar með fyrsta sveitin frá Selfossi sem að sigrar í Músiktilraunum. Reyndar segja liðsmenn sveitarinnar að þeir séu ekki frá Selfossi heldur frá bæjum og sveitum þar í kring en þeir eiga það sameiginlegt að stunda nám við Framhaldsskólann á Selfossi og þaðan sé tengingin við bæjarfélagið komin.

Áður en Músíktilraunir byrjuðu var söngvari sveitarinnar búin að fanga athygli mína með því að syngja eitthvað það besta tónlistaratriði sem að ég hef séð í Gettu Betur, í atriði sem reyndar aðrir meðlimir sveitarinnar taka einnig þátt í. Textar RetroBot eru á ensku en það er krafa Ríkissjónvarpsins að sungið sé á okkar ástkæra ylhýra og fluttu þeir því lagið Hitler var grafískur hönnuður úr söngleiknum Legið eftir Hugleik Dagsson og hljómsveitina Flís.

httpv://www.youtube.com/watch?v=BCJo-AXG-JM

Þau lög sem ég hef heyrt með RetroBot eru hvert öðru betra. Sveitin er með góða blöndu af rokki og elektró, eitthvað sem ég get á stundum verið mjög veikur fyrir ef vel er gert.

Lagið Electric Wizard finnst mér t.d. yndi.

httpv://www.youtube.com/watch?v=Q8yk6kuIap4

Það styttist í EP plötu frá sveitinni sem verður gaman að hlusta á. Það er mikið efni í þessum strákum. Hér má svo heyra acoustic útgáfu af laginu Lost sem er líka mjög gott.

tóndæmi dagsins

The Maccabees fá þann fáheyrða heiður að vera tóndæmi dagsins. Ensk sveit frá Brighton en sá bær hefur t.d. gefið okkur sveitinar British Sea Power og The Wedding Presents ásamt Fat Boy Slim.

Þriðja plata sveitarinnar kom út núna í byrjun janúar á þessu ári og platan er yndi. Ekki beint neitt tímamótaverk í stóru samhengi hlutanna en gott breskt indie rokk er alltaf góð og áheyrileg tónlist því er platan góð. Og ekki bara góð heldur stórgóð.

Leyfum tónlistinni að tala sínu máli í stað þess að ég sé að skrifa fátækleg orð á blað að reyna að gera sveitinni einhver skil.

The Maccabees  – Ayla

tóndæmi dagsins

Hjónakornin Kori og Jason mynda popp dúetinn Mates of State. Platan þeirra frá 2006, Bring It Back er meistarastykki og tónleikarnir þeirra á Airwaves um árið fara á Topp10 listann minn yfir bestu Airwaves tónleikana.

Ris sveitarinnar hefur ekki alveg farið í takt við væntingar mínar á seinni plötum en nýjasta platan þeirra, Mountaintops er þó að fara vel ofan í mig og vex við hverja hlustun.

Í fyrra gáfu þau svo út plötuna Crushes sem er ábreiðuplata þar sem þau taka einunigs lög eftir aðra. Besta lagið á þeirri plötu er líka eitt af mínum uppáhalds lögum með minni uppáhalds hljómsveit.  Lagið er Sleep The Clock Around af hinni frábæru The Boy with the Arab Strap frá 1998.

Skelli því inn sem tóndæmi dagsins ykkur til ánægju og yndisauka. Youtube-ið er svo eitt af mínum uppáhalds með Mates of State.

Mates of State – Sleep the clock around (Belle & Sebastian cover)

 

httpv://www.youtube.com/watch?v=Pb_gzEqx8zA

Fyrir þig Guf.fi

Guðfinnur er einn af þeim sem kvartar reglulega yfir því að ég sé ekki nógu duglegur að færa hér inn texta honum og öðrum til yndisauka. Nóg finnst honum af efnistökunum og þykir honum synd að ekkert af þeim komi hér inn.

Guðfinnur þolir ekki dagskrárliðinn tóndæmi dagsins og óskar þess helst að honum sé hætt og að hér verði bara skemmtiefni daginn út og inn. Guðfinnur áttar sig ekki á því að það er til fólk sem finnst gaman að þeim dagskrárlið og halar niður tóndæmum dagsins og kvartar ef of langt líður á milli tóndæma.

Þess vegna er við hæfi að setja hér inn myndband. Myndbandið er tóndæmi í sjálfu sér. Það sameinar dagskrárliðinn tóndæmi dagsins ásamt því að vera skemmtilegt fyrir Guðfinn. Noah and the Whale er bresk sveit sem gáfu út yndislega plötu 2009 og voru núna að gefa út sína þriðju. Þrátt fyrir að vera blússandi indie sveit hefur hún fengið útvarpsspilun t.d á Rás2 og Zane Lowe, einn áhrifamesti útvarpsmaður Englendinga þreytist ekki á að spila lög með sveitinni og minna á snilldina sem hún er.

Guðfinnur myndi aldrei vita af þessari sveit ef að Rás2 hefði ekki álpast til að setja lög með sveitinni á playlistann sinn.

En þetta er fyrir þig Guffi minn. Vessgú ! Alvöru tóndæmi til þín, ekki eitthvað Elton John, Robbie Williams grín.

httpv://www.youtube.com/watch?v=f1v2jsD6wGE

tóndæmi dagsins

Komin tími á eitt stykki tóndæmi.

Svíar eru mis hressir enda bera þeir ábyrgð á Abba, Ace of Base og Dr. Alban. Þeirra hlutur í 90´s tónlistinni er stór og það er almennt talið alvarlegt brot í almennum hegningarlögum.

En þó eru þeir undir niðri að gera afskaplega góða tónlist og ekki þarf að grafa langt undir sykurhúðað hrökkbrauðið til að finna snilld eins og Dungen, I´m from Barcelona, Cardigans og allt Ninu Persson dótið eins og það leggur sig ásamt fullt af öðru flottu dóti.

Svíar nefnilega leyna á sér, þeir eru ekki bara í því að gera sykurhúðað popp sjálfir eða að semja fyrir allar helstu poppstjörnur heimsins. Í Svíþjóð er hrikalega sterk indie / alternative sena sem því miður fær ekki að láta ljós sitt skína og þannig fer snilldin framhjá fullt af fólki.

Þess vegna er nauðsynlegt að deila gleðinni og skella í smá gír og fíling.

I break horses frá Stokkhólmi er dúett þeirra Maríu Linden og Fredrik Balck. Sveitin gerir draumkennt gítar syntha væl sem gjörsamlega er búið að knésetja mig til ævilangrar hollustu við þessa sveit.

Tóndæmi dagsins er hið stórgóða Winter Beats.

I break horses – Winter Beats

tóndæmi dagsins

Komin tími á smá tóndæmi, fátt betra en góð tónlist.

31.janúar á þessu ári gaf Brighton sveitin The Go! Team út þriðju stóru plötu sína. Þau meikuðu það með látum 2004 með plötunni Thunder, Lightning, Strike sem er ellefu laga plata með ellefu hitturum. Proof of Youth kom svo út þremur árum síðar og fílaði ég hana aldrei.

En þessi nýjasta plata The Go! Team er eitthvað allt annað. Eins og svo oft er barnið í miðjunni ekki eins og frumburður og örverpið, eins og það vanti eitthvað. Það er akkúrat að gerast hér. Og þvílík snilld sem þessi nýjasta plata er. Hún er létt, björt, hressandi, hröð og hentar svo fullkomnlega fyrir sumarið. (Eða sumarið sem að aldrei kom)

Þessi plata er kannski ekki með 100% hittara nýtingu eins og fyrsta platan þeirra en engu að síður er hér fullt af lögum sem maður dillir bossanum með og hristir jafnvel mjöðm ef þannig liggur á manni.

Ég er að meta þetta.

Tóndæmi dagsins er því lag af þessari plötu, þið eigið það skilið. Látum svo fylgja með

The Go! Team – Buy Nothing Day

httpv://youtu.be/X0eso4ARXzk

Árslistinn 2010

Það er víst komið nýtt ár sem þýðir að það þarf að gera upp það sem var að klárast. Geri það upp á þann eina máta sem ég kann og það er að gera upp tónlistarárið 2010 sem var bara nokkuð gott. Ekkert fallbyssu ár hjá erlendu listamönnunum en margt gott sem kom engu að síður og því ber að fagna.

Íslenskar plötur á árinu voru yndislegar og margar alveg ótrúlega góðar. Ég átti í mestu erfiðleikum að raða þessu niður sómasamlega fyrir innlenda listann.

Fyrir áhugasama má hér nálgast eldri lista :

2004 / 2005 / 2006 / 2007 / 2008 /2009

Bestu erlendu plöturnar 2010

10. Broken Bells – Broken Bells

Dangermouse (Hin frábæra plata The Grey Album og meðlimur Gnarls Barkley) og James Mercer, forsprakki The Shins vinna hér saman og búa til helvíti þétta og góða plötu.

httpv://www.youtube.com/watch?v=gWBG1j_flrg

09. Vampire Weekend – Contra

Meira af því sama hér, Hljómur þessara drengja er mér að skapi eins og hjá svo mörgum öðrum og hann bara virkar. Einfalt og hresst.

httpv://www.youtube.com/watch?v=HN8mjY7JMSw

08. Gorillaz – Plastic Beach

Yndisleg plata, margt í lögunum sem á stundum minnir mig á Death Cab For A Cutie og þá bylgju alla en eftir sem áður er hún heilsteypt og full af flottum lögum.

httpv://www.youtube.com/watch?v=04mfKJWDSzI

07. Belle & Sebastian – Belle & Sebastian Write About Love

Uppáhalds hljómsveitin mín mætir hér í sjöunda sætið. Sjálfstraustið lekur af sveitinni á þessari plötu en samt vantar einhvern neista, neistann sem geriir sveitina svo frábæra í mínum huga. Samt eru mörg góð lög á plötunni en hún er ekki eins góð og ég hafð vonað.

httpv://www.youtube.com/watch?v=6UeFaayyw3o

06. The New Pornographers – Together

Kanadíska súpergrúbban sem aldrei stígur feilspor í mínum huga. Þau kunna að búa til grípandi stemmingslög og með AC Newman og Neko Case í forsvari er ekki hægt að klikka. Í seinni tíð hafa samt lögin hans Dan Bejars (Destroyers, Swan Lake) heillað mig mest, hann er snillingur.

Verð að sjá þau á tónleikum, bara verð.

httpv://www.youtube.com/watch?v=bxMCaU83QKs

05. Mumford & Sons – No Sigh No More

Sveit ársins, engin spurning. Ótrúlega falleg lög og eitthvað fyrir alla hér á þessari plötu. Marcus Mumford er með ótrúlega flotta rödd.

httpv://www.youtube.com/watch?v=lLJf9qJHR3E

04. Arcade Fire – The Suburbs

Gífurlega erfitt fyrir þessa sveit að fylgja eftir ótrúlega sterkum tveimur fyrstu plötu en þau gera það nú bara samt. Maður er alltaf að finna nýtt uppáhaldslag og alltaf kemur inn nýr „wow-factor”. Yndi.

httpv://www.youtube.com/watch?v=0L6ZFhZVOx0

03. LCD Soundsystem – This Is Happening

New York sveitin gaf út plötuna This is Happening í maí á síðasta ári og hefur allt árið farið í að taka við einróma lofi. Skiljanlega. Snilldarplata sem felldi LadyGaGa eftir fimm mánaða veru hennar á toppnum á Billboard listanum.

httpv://www.youtube.com/watch?v=qdRaf3-OEh4

02. Kanye West – My Beautiful Dark Twisted Fantasy

Hefði aldrei átt von á því að setja plötu með Kanye á listann minn en guð minn góður, þessi plata er meistaraverk.

httpv://www.youtube.com/watch?v=O7W0DMAx8FY

01. The National – High Violet

Borgin sem gaf okkur Doris Day, Carmen Electra, Steven Spielberg og hafði Jerry Springer sem borgarstjóra er hér að gefa okkur hreint ótrúlega plötu. Þetta er ein af þessum plötum sem fá mann til að hugsa aftur og aftur hvað tónlist sé nú yndisleg, maður fær gæsahúð upp eftir allri mænunni og getur bara ekki hætt að hlusta.

Svo fær sveitin plús fyrir að forsprakkinn lítur alveg út eins og pabbi hans Togga.

httpv://www.youtube.com/watch?v=yfySK7CLEEg

Bestu innlendu plöturnar 2010

10. Agent Fresco – A Long Time Listening

Almennt ekki músík að mínu skapi, eilítið of þung fyrir minn smekk en hér smellur eitthvað sem ég fíla. Gott stöff og ótrúlega vel spilandi strákar.

httpv://www.youtube.com/watch?v=YyJ5UWcbcj8

09. Prins Póló – Jukk (tóndæmi)

Svavar Pétur, Breiðhyltingur og forsprakki Skakkamanage er hér með hliðarverkefnið sitt Prins Póló þar sem hrá, skemmtileg og einföld lög fá að njóta sín. Skemmtilegir textar og Daniel Johnston fílingur í þessu.

08. Moses Hightower – Búum til Börn

Íslensk sálartónlist eins og hún gerist best. Kom aftan að mér, var ekki að fíla þetta fyrst en svo small eitthvað. Hrikalega góður söngvari.

httpv://www.youtube.com/watch?v=LmiooRCjikk

httpv://www.youtube.com/watch?v=o_GPgWkhmRI

07. Stafrænn Hákon – Sanitas

Annar Breiðhyltingur hér á ferðinni, Ólafur Josephsson Leirubakkamaður og gleðigjafi. Á plötunni Sanitas hefur Óli tekið mikið framfaraspor og eru brothættir hljóðheimar ala SigurRós, GodSpeed You Black Emperor byrjaðir að víkja fyrir þéttu popprokki þó að ambient hljóðið sé aldrei langt undan. Í stað þess að Óli sé einn eða með aðstoð vina að garfa að tónlist er hér alvöru hljómsveit komin á sjónarsviðið. Hlustendavænsta plata Óla frá upphafi.

Nafnið Sanitas vekur líka upp minningar enda Pabbi Jóh verksmiðjustjóri Sanitas á gullárum fyrirtækisins.

httpv://www.youtube.com/watch?v=4gTjYcL9-0E

06. Seabear – We Built A Fire

Yndisleg plata, alveg virkilega yndisleg. Hrikalega flott plata sem hefði verið ofar á lista ef að íslenska senan hefði bara ekki komið svona vel út í ár.

httpv://www.youtube.com/watch?v=oE7ViwXTBjY

05. Prófessorin og Memfismafían – Diskóeyjan

Vá, bara vá ! Besta fönkplata frá stofnun lýðveldisins og einhverjir skemmtilegustu textar sem að ég hef heyrt síðan Lög Unga Fólksins komu út. Þetta er barnaplata fyrir börn jafnt sem fullorðna. Hef hlustað á hana með frumburðinum, á rölti um Kópavogsdalinn með barnavagninn og svo bara í rólegheitunum. Frábær plata.

httpv://www.youtube.com/watch?v=YRk4hYwTS-0

04. Retro Stefson – Kimbabwe

Ein af uppáhalds sveitunum mínum á Íslandi í dag. Fyrsta plata sveitarinnar Montana var frábær og þessi er aðeins síðri en þó stórgóð. Þetta sound sem þessir krakkar hafa búið til er alveg ótrúlegt skemmtilegt að hlusta á. Kimba kimba kimba !

httpv://www.youtube.com/watch?v=7PIS2ZxeqTo

03. Hljómsveitin ÉG – Lúxus Upplifun

Loksins hefur Róbert Örn Hjáltýsson söngvari, lagasmiður, breiðhyltingur, gítarleikari og þúsundþjalasmiður fengið uppreisn æru sinnar, að hluta. Plata Lúxus Upplifun hefur fengið fullt hús í öllum fjölmiðlum hér á landi, verið á topplistum stóru blaðanna og síðast en ekki síst fékk platan verðlaun tónlistarsjóðsins Kraums fyrir eina af plötum ársins. Yndisleg plata sem snertir margar taugar og erfitt er að staðsetja í hús.

httpv://www.youtube.com/watch?v=OMJ6m_BpyCQ

02. Apparat Organ Quartet – Pólýfónía

Ein af mínum uppáhaldssveitum frá upphafi lands loksins með nýja plötu og blessunarlega lendir hún ofarlega á lista. Árið 2002 kom platan Apparat Organ Quartet út og hefur hún fylgt manni síðan ásamt upptökum frá Airwaves ásamt skyldumætingunni sem er að fara á Apparat tónleika á Airwaves á hverju ári.

Hér er meira af því sama, það bara skiptir engu máli enda tónlistin algjörlega sér á parti og alveg eitthvað sem að aðeins Guðir ættu að geta búið til. Elska þetta band og þessa plötu.

httpv://www.youtube.com/watch?v=WTIAvopghRg

01. Jónsi – Go

Alveg frá því að einhver lög fóru að leka á netið og fullbúin platan mætti í heyrnartólin er búið að vera um hreint ástarsamband að ræða. Menn geta alveg misst sig í SigurRósar rúnki og slefað yfir öllu sem þessir menn gera en hér á það bara við. Þessi plata er yndisleg í alla staði og ekki slegið feilpúst á henni.

Sumt er vissulega líkt SigurRós en það er ekki mínus heldur plús og því sem við er bætt er svo skemmtilegt að hlusta á að það er ekki annað hægt en að setja Jónsa í fyrsta sætið. Drengurinn gerir góða tónlist sem lyftir manni upp, gleður mann og kætir í hvert einasta skipti sem hlustað er á.

httpv://www.youtube.com/watch?v=0w3K0N39bDc

tóndæmi dagsins

Ein af mínum allra allra uppáhalds hljómsveitum eru Belle & Sebastian. Hef þrisvar farið út fyrir landsteinana til að sjá dýrðina á sviði og auðvitað hafa þau svo spilað tvisvar á Íslandi sem maður lét ekki fara framhjá sér heldur.

Loksins er að koma ný plata með Skotunum hressu. Þann 11.október ætti platan Belle & Sebastian Write About Love að lenda í öllum helstu verslunum. Á heimasíðu sveitarinnar á hlusta á nokkur lög ásamt því að bera sveitina augum í formi sjónvarpsþáttar sem þau hafa búið til.

Ekki er hægt að segja annað en að það efni sem komið hefur út lofi góðu um framhaldið. Þessi týpiski Belle & Sebastian hljómur er á sínum stað og því ekkert þarna sem ætti að koma á óvart. Þetta er svolítið eins og framhald af síðustu plötu enda sömu menn sem stjórna tökkunum.

Tóndæmi dagsins er því nýtt efni með Belle & Sebastian.

Belle & Sebastian – I didn´t see it coming

httpv://www.youtube.com/watch?v=6UeFaayyw3o