Scorsese

Kvikmyndir eiga sér ekki langa sögu í hinu stóra samhengi hlutanna. Einn af þeim leikstjórum sem mun alltaf tróna á toppnum meðal þeirra bestu sama hversu mörg á munu bætast við kvikmyndasöguna er Marin Scorsese.

Þessi smávaxni maður sem andar New York bæði inn og út fékk í gær heiðursverðlaun á Golden Globe verðlaunahátíðinni. Scorsese er ekki bara þekktur fyrir myndir eins og Taxi Driver, Raging Bull, Goodfellas og The Departed heldur er hann einn af þeim mönnum sem hristi upp í Hollywood á þeim tíma sem akkúrat þurfti að hrista upp í kerfinu. Scorsese ásamt vinum sínum Coppolla, De Palma, Spielberg og George Lucas breyttu landslaginu eins og það var og hafði alltaf verið í þá Hollywood sem við þekkjum í dag.

Kvikmyndaverin réðu öllu og ekkert var skapað sem talist getur nema ef þeir hefðu ekki beitt sér fyrir því að breyta kerfinu. Kerfi sem að var svo rotið að bíóhúsin sýndu ekkert nema ef kvikmyndaverin leyfðu það. Þeir félagarnir voru allir komnir á spenann og byrjaðir að mestu að mala gull fyrir kvikmyndaverin en þeir dreifðu auðnum, og gerðu samninga þess efnis að þeir myndu ekki gera næstu mynd nema ef að þessi og hinn fengi að gera ódýru myndina sína og svo framvegis. Þeir eru margir leikstjórarnir sem skulda þessum mönnum mikið, menn sem allir unnu með þeim á sínum tíma og fengu það svo launað svo um munar.

Scorsese á alltaf sinn sess í mínu hjarta. Ekki fyrir allar hinar frábæru kvikmyndir heldur fyrir að hafa gert minn allra allra uppáhalds bút úr lagi að stórvirki í einhverri bestu senu sem má finna í þrekvirkinu Goodfellas. Scorsese tekur þar partinn úr Eric Clapton (Derek & The Dominos) laginu Layla sem aldrei er spilaður í útvarpi og alltaf klippur út í uppgjörssenunni frægu þar sem að De Niro og félagar eru búnir að losa sig við sína meðseku félaga í flugvallarráninu. Þessi sena er æði.

httpv://www.youtube.com/watch?v=yRmefo-1Fis

hér var að berast frétt

Það að Adam Sandler hafi leikið í mynd sem ekki hafi verið ömurleg telst til tíðinda. Slagar jafn vel upp í stór tíðindi.

Funny People með Seth Rogen og Adam Sandler er ekki mynd sem maður grenjar úr hlátri yfir en hún er samt sem áður fyndin og bara fín ræma.

Adam Sandler er vissulega fyndinn, hann hefur sýnt það fyrir löngu í Saturday Night Live, uppistandi og á geisladiskum sem hann gat út sem og nokkrum myndum. En hann hefur verið kærulaus í vali á kvikmyndum síðustu ár og leikið í drasli á drasli ofan. En Funny People er vonandi skref í rétta átt.

httpv://www.youtube.com/watch?v=c-qTf2ddN3I

bíó

Búin að góna á nokkrar myndir enda lítið annað hægt að gera þegar að löppin er ónothæf eftir að ég snéri mig á ökkla í körfubolta tvær vikur í röð. Læt það þó fylgja sögunni að ég var að hitta eins og vindurinn úr 3 stiga skotum með ökklann svona og tryggði mínu liði sigur tvo leiki í röð með sex stigum í röð.

En að myndunum,

Karla sem hata konur :

Fín mynd en olli mér þó nokkrum vonbrigðum þar sem margar fléttur úr frábærri bók fá ekki að njóta sín eða er algerlega sleppt. Það þarf vissulega að sleppa einhverju til að koma myndinni á hvíta tjaldið í skikkanlegri lengd en fyrr má nú vera. Verst fannst mér að hlutum var bætt við sem voru ekki í bókinni, hlutir sem breyttu engur fyrir söguna og svo til að bæta gráu ofan á svart var sumum hlutum í bókinni breytt í myndinni. En allt í allt ágætis mynd svona ein og sér.

3/5

District 9 :

Suður-Afríski leikstjórin Neill Blomkamp með sína fyrstu mynd í fullri lengd. Blomkamp er eflaust þekktastur fyrir að hafa gert stiklurnar sem fylgdu auglýsingaherferðinni fyrir Halo3 tölvuleikinn. Stiklur sem að unnu verðlaun á Cannes og læti. District 9 er kvikmynd í fullri lengd sem byggð er á stuttmyndinni Alive in Joburg.sem Blomkamp gerði árið 2005. District 9 er frábær mynd, gerð að hluta í heimildarmynda stíl og tekin upp að mestu með handheld myndavélum sem gefur henni skemmtilegann blæ. Myndin byggir að hluta á aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku og er efni myndarinnar og söguþráður virkilega góður.

Frábær Sci-Fi mynd í alla staði.

4/5

Star Trek :

Nýjasta Star Trek myndin kom mér á óvart, virkilega á óvart. Hef hingað til ekki verið mikill Star Trek maður þó að ég þekki heiminn ágætlega, veit muninn á Picard og Kirk en tala þó ekki Klingósku og get ekki sagt Live long and prosper með vúlkanska kveðju á hendinni á sama tíma.

Myndinni leikstýrir J.J Abrams sem er hálfgerður gulldrengur í Hollywood. Hann er einn af höfundum þáttanna Lost og Alias og skrifaði handritið og leikstýrði Mission Impossible 3. Það sem ég tel honum til vansa er að hann skrifaði handritið af Armageddon, hroðbjóðurinn sem það er.

Þessi mynd er samt algjör inngangur í eitthvað stærra og meira, næstum allt í myndinni snýst um að leggja línurnar fyrir næstu mynd eða myndir og allt of litlum tíma er varið í að segja manni eitthvað um karakterana, næstum eingöngu einblýnt á Kirk og Spock.

3/5

Year One :

Þegar að grínmynd með Jack Black og Michael Cera fær mann bara til að hlæja þrisvar sinnum að þá er myndin ógeð. Allir vinir þeirra dúkka upp í aukahlutverkum en það dugar ekki.

Drasl.

0,5/5

Bíórýni

Menningarkvöldin hafa verið að fara hamförum og hefur hvert kvöldið toppað hvert annað. Í stað þess að vera að sýna klassískar kvikmyndir höfum við verið að hamra okkur í gegnum þær myndir sem hafa verið að gera það gott á kvikmyndahátíðum, Golden Globes og hafa svo einhvern slatta af Óskars tilnefningum á bakinu. Ein undantekning var gerð á reglunni en Luc Besson hefur hingað til verið stimpill á sömu gæði og öll Óskarsverðlaun heimsins.

Slumdog Millionaire4/5

Virkilega góð mynd sem fékk okkur til að hlæja, öskra og gráta saman.

Taken4/5

Liam Neeson leikur pabba sem er að leita að dóttur sinni sem er komin í hendur misyndismanna. Liam Neeson er hrikalegur í þessari mynd og hasarmyndir eiga að vera svona. Ekki nein bandarísk formúla hér á ferðinni heldur evrópskt hasar mynd þar sem mannskepnunni er engin virðing sýnd.

The Wrestler3,5/5

Nýjasta mynd Darren Aronofsky þar sem Mickey Rourke fer á kostum. Myndin er hæg og söguþráðurinn er lengi að fara af stað en niðurstaðan verður svo miklu betri fyrir vikið. Mannleg og góð, virkilega góð. Skemmtileg atriði með Marisu Tomei sem strippara gerðu líka mikið.

Frost/Nixon 3/5

Mynd um fræg viðtöl David Frost við fyrrum forseta Bandaríkjanna Richard Nixon. Leikstýrð af Ron Horward og er myndin góð í alla staði. Eflaust hefði samt hjálpað til að vera betur inni í Watergate hneykslinu og almennt inni í forsetatíð Nixons en myndin gerði það þó að verkum að maður fór að lesa sér til enda áhugavert umræðuefni hér á ferðinni. Frank Langella er hrikalegur góður sem Nixon.

httpv://youtube.com/watch?v=3_0R4l0ISNs

Heima

Það er ekki oft sem ég sýni tilfinningar mínar útá við. Ég get jú öskrað og æpt í keppniskapi en ég er meira að tala um hinar fínni tilfinningar sem karlmenn eru þekktir fyrir að sýna ekki á almannafæri.

Í fyrsta skipti var þetta líka í kvikmyndahúsi. Augun vöknuðu í fullri alvöru og ég fékk gæsahúð sem ég gat engan vegin hrist af mér. Mér hefur aldrei liðið svona áður í myrkvuðum sal með fullt af ókunnugu fólki.

Ástæðan var einföld, ég var að horfa á Heima. Sigur Rósar myndin sem tekur fyrir tónleikaferðalagið þeirra frá síðasta sumri.

Ísland hefur aldrei litið svona vel út á hvíta tjaldinu, landslagið, húsin og fólkið bara öskrar á mann og svo þegar að tónlist Sigur Rósar bætist við er ekki annað hægt en að gleyma stað og stund.

Augnablikið sem fékk mig til að nánast færa mig í fósturstelling, stinga þumlinum upp í mig og líða eins og í móðurkviði var þegar að Starálfur byrjaði í fallegustu útgáfu sem ég hef á ævinni heyrt en útgáfan var órafmögnuð. Þegar ég í rælni horfði til vinstri sá ég að Jói var að upplifa nákvæmlega það sama.

Ég ætla aftur á myndina Heima í bíó, svo kemur hún út á DVD í byrjun nóvember ásamt tónlistinni í myndinni en þarna eru nokkur ný lög og svo nýjar útgáfur af eldri lögum. Það eru skyldukaup á L82.

Transformers

Ég held að Michael Bay myndin Transformers sé eitthvað það mesta sorp sem ég hef séð lengi. Myndin er óendanlega flott tæknilega, flottar brellur og mikið af sprengingum og látum en það nær ekki lengra en það.

Söguþráðurinn, klisjulegir brandarar og Jar Jar Binks taktar eru eitthvað sem fékk mig til að dæsa og draga djúpt andann ótt og títt á meðan myndin rann í gegn í hinu frábæra kvikmyndahúsi í Mjóddinni.

Mér var eiginlega öllum lokið í lokin þegar að Optimus Prime sagði eitthvað og endaði setninguna á hinni sígildu Transformers teiknimyndasetningu „more than meets the eye“.

Flottar brellur og sprengingar er ekkert nóg til að gera góða sumarmynd, allt annað klikkar. Bay þarf að læra að hætta að hrista myndavélina svona mikið í hasaratriðum. Það er svo mikið klippt og skipt á milli skota að maður nær varla einni sekúndu í ramma og maður nær varla hvað er í gangi. Mynd sem klippir lítið og hristir myndavélina er t.d. Bourne Identity, þar eru hasaratriðin frábær enda sér maður alltaf hvað er í gangi.

Transformers er sem sagt sorp sem fólk á að forðast, það er skemmtilegra að horfa bara á upprunalegu útgáfuna á YouTube. Það er alvöru.

Rambo

Þetta verður rosalegt. Sly Stallone er að endurheimta fyrri dýrð, búin að gera fínustu Rocky mynd og núna mætir John Rambo aftur.

Eina sem vantar þá uppá er að önnur Cobra mynd verði gerð.