Þegar Guðrún eyðilagði jólin

Ég er búin að byrja á þessari færslu núna nokkrum sinnum. Finnst svo erfitt að skrifa þessi orð, skrifa þessi orð um konuna sem gerði mig að manni og hefur kennt mér svo margt.

En stundum er lífsnauðsynlegt að færa sig aðeins frá miðjunni og horfa á hlutina í samhengi og af fullu og einlægu hlutleysi. Það skiptir engu máli frá hvaða hlið ég horfi á þetta leiðinlega mál, það verður alltaf ljótt og sannleikurinn alltaf sá hinn sami. Og þessi sannleikur þarf að komast fram í dagsljósið enda bitnar þetta á börnum og það viljum við ekki.

Móðir mín, hún Guðrún er búin að eyðileggja jólin.

 

Það var með ekkasogum sem ég þurfti að segja Guffa vini mínum að ekkert yrði ritað um jólakökusmakkið þetta árið.

Móðir mín sem síðustu 35 ár eða svo hefur verið 15 sorta húsmóðir hver jól hefur ákveðið að skera niður. Það að skera niður að einhverju leiti hefði ég getað skilið enda eðlilegt að taka út sortir sem ekki eru að standa sína pligt en þá er lágmark að kynna nýja sort til sögunnar sem kemur inn ein jól til reynslu svona áður en ákveðið er að skera niður endanlega um heila sort.

Fimm sortir eru það þessi jólin, fimm (5) sortir er það sem móðir mín hefur lagt til jólahalds þetta árið. En í raun eru þetta bara þrjár (3) sortir því að móðir mín er að reyna að klóra í bakkann og fegra baksturs bókhaldið og telur því bæði skinkuhorn og brauðbollur upp í sinni talningu yfir heildarfjölda sorta.

Við vitum flest að skinkuhorn eru ekki smákökur heldur falla í flokk með heitum brauðréttum og öðrum brauðmeti. Skinkuhorn eru vissulega ljúfeng en þau eru hvorki smákökur né jólaleg.

Ég hef reynt að tjónka við henni, biðlað til hennar og hreinlega grátið en ekkert hefur fengið hana til þess að bakka. Guðrún, móðir mín ætlar að halda jólin svona. Þetta eru auðvitað engin jól ef að þetta á að vera svona. Þetta er bara eðlilegur heimilisbakstur eins og verið sé að baka fyrir lítið fjölskylduboð án tilefnis.

Það sem særir mig þó hvað mest við þetta allt saman er að skjaldborgin sem að lofað var sést hvergi. Átti ekki að standa vörð um heimilin ? Átti ekki að vernda börnin og fjölskyldurnar ?

Hér stend ég ásamt bræðrum mínum og öldruðum heyrnarskertum föður og berst við almættið móður mína sem öllu hefur stjórnað frá því að við bjuggum öll undir sama þaki og enn reynir hún að stjórna því hvernig við höldum jól. Barnaverndarnefnd segist ekki geta gert neitt þar sem við séum ekki lengur börn. Samt erum við bræður enn börn móður okkar og munum alltaf vera, þannig að sú rök standast ekki.

Lausnin er ekki að ég baki sjálfur eða eitthvað álíka. Öll mannsbörn vita að kökur sem bakaðar eru af móður smakkast betur en aðrar kökur, svona svipað og að keyptar piparkökur eru betri en stolnar piparkökur.

Að skrifa um þetta á netið, bera sig illa og telja illilega brotið á rétti sínum er því eina vitið því það virðist virka mjög vel á Íslandi í dag.

Heimilistækin og hún

Jólin komu snemma í Lindasmáranum þetta árið, að minnsta kosti finnst barnsmóður minni, sambýliskonu og kærustu það.

Nýr ísskápur kom á heimilið í síðustu viku, þýskur gæða ísskápur sem er svo fullkominn að hann sýnir upp á gráðu á framhlið hversu kalt frystihólfið sé og hver raunhiti í ísskápnum sjálfum er.

Hann hreyfir loftið í ísskápnum til að tryggja að kælingin sé jöfn og að sem minnst kalt loft tapist þegar að hurðin er opnuð og allskonar fleiri fína hluti sem að ég kann ekki að nefna.

Persónulega finnst mér þessi viðbót inná heimilið vera ágæt, að minnsta kosti fær bjórinn minn betra pláss og Pepsi Max-ið mitt er aðeins kaldara en verið hefur sem telst líka vera gott.

Kristín, þessi guðlega vera sem ól mér barn og bjargar mannslífum gengur í hringi um þetta stálburstaða ferlíki eins og að um altari sé að ræða. Hún gengur varlega nálægt skápnum, stríkur stálhurðinni létt eins og hún sé í makaleit á sléttum Serengeti.

Hún tilkynnir mér hátt og snjallt, stundum oft á dag að nú séu frystihólfin stödd í -22° sem sé óbreytt frá fyrri mælingu þannig að ég er að upplifa eins og að ég sé með veðurfréttamann í fullri vinnu að lesa af mælum heima hjá mér.

Til að toppa svo allt saman er hún búin að búa til kerfi, kerfi um það hvernig skuli raðað í skápinn og hvernig færa skuli hluti til eftir því hvenær þeir renna út á tíma og hvenær þeir voru settir inn í skápinn.

Þetta er auðvitað ekki hægt.

„Það er eitthvað að“

Eins yndislegt og frábært það nú er að vera foreldri er þó eitt sem maður fær aldrei nóg af, svefn.

Það að sofa út eða að geta lagt sig er eitthvað sem leggst næstum því með öllu af við það að eignast barn. Þær eru taldar í tugum ef ekki hundruðum klukkustundirnar sem að foreldrar missa af svefni fyrstu árin eftir að barn kemur á heimilið.

Í dag hafði ég hugsað mér að geta sofið út enda Margrét Dúna í næturpössun á Jóh setrinu og við Kristín í veislu kvöldið áður þar sem vel var veitt af bæði mat og drykk. Þess vegna var mögulega enn meiri ástæða til að sofa aðeins lengur en venjulega til að jafna út syndir gærkvöldsins og vera orðinn 100% þegar barnið yrði sótt.

Klukkan hálf tíu í morgun er bankað fast í mig. Kristín (barnsmóðir mín og sambýliskona) er í hálfgerðu sjokki yfir að það sé bjart úti og barnið ekki komið upp í. „Það er eitthvað að!!!“ jarmaði móðurhjartað sem virðist vera jafn næmt fyrir hættum eins og Kóngulóarmaðurinn.

Eftir þetta sjokk gat svo barnsmóðirin ekki sofnað og var ég því sendur andfúll og hálf sunnan við mig á hjóli (bíllinn varð eftir í gærkvöldi) út í bakarí og kaupa kruðerí og brauð.

Ég held að ég eigi skilið að leggja mig í dag.

Gleðigjafinn móðir mín

Hún móðir mín kallar ekki allt ömmu sína og fer gjarnan ótroðnar slóðir í þrotlausri leið sinni að því að komast á æðra tilveru stig, svona já eða þannig.

Þessi elska hefur svo oft verið mér og öðrum til gleði og yndisauka og það oft alveg óvart. Þessi skipti sem hún gleður mann óvart eru best, langbest.

Rifjum því upp tvær skemmtilegar sögur af henni móður minni.

Klassískt er í mínum bókum þegar hún var að lesa jólakort um árið og fannst leturstærðin heldur smá og skellti upp lesgleraugum. Eitthvað gekk lesturinn illa og því var aðeins eitt til ráða. Að bæta öðrum lesgleraugum við, það hlyti að bjarga þessu því 1 + 1 = 2.

Myndin er gömul og tekin á farsíma sem er ekki af þessari kynslóð. En grínið kemst samt vel til skila sem er fyrir öllu.

Nýlega eða bara í gær kom ég í heimsókn á æskuslóðirnar í 109 (að eilífu amen) og eftir kaffibollann (fékk tvo því ég hellti þeim fyrri niður) sótti móðir mín dót sem hún hefði keypt sér og hún yrði bara að sýna mér.

Hún tók svo sterkt til orða og segja að þetta væri skyldueign á hvert heimili. Ég sá fyrir mér einhverja rafknúna snilld frá Asíu sem mögulega þurrkaði af eða gerði óáfenga mojito drykki eða eitthvað álíka en mundi þá að móðir mín á fyrir forláta vélmenni sem sér um að þurrka af.

Það sem hún kom svo með og setti upp var eitthvað sem ég var ekki tilbúin fyrir en gat svo sagt sjálfum mér eftir á að auðvitað yrði þetta einhver nýlenduvara sem væri drasl og hún setti stolt upp á nefið.

Lesgleraugu (númer sautján líklega sem hún á) með ljósi. Nauðsynlegt með öllu og algjör þarfaþing.

Af skrímslum og mönnum

Bæði menn og vinsældarlistar eru að tapa sér yfir fyrstu plötu Of Monster and Men sem kom út nýverið. Ég ætla ekki að hoppa á þessa jákvæðnislest sem er farin að hljóma og ætla mér að segja að þetta sé eingöngu la-la miðlungsefni.

Vissulega eru þessir krakkar hæfileikaríkir, með góða söngrödd og góðir hljóðfæraleikarar. En tónlistin sjálf, sem allt snýst jú um er bara þannig að maður hefur heyrt þetta allt áður.

Ég er bara að hlusta á Edward Sharpe & The Magnetic Zeros, Fleet Foxes, Arcade Fire, Plants & Animals og fleiri góðar sveitir sem allar hafa slegið í gegn í þessari indie krútt bylgju sem krakkarnir í Of Monsters and Men hafa krukkað saman í eina heilsteypa plötu sem þau kalla sína.

Ég er ekki að saka þau um stuld eða neitt slíkt en frumlegheitin eru lítil sem engin og þetta er allt svo hrikalega líkt fyrrnefndum sveitum og fleiri að ég get ekki hlustað á þetta með góðu móti án þess að vilja hreinlega bara hlusta á hina erlendu listamenn sem sveitin sækir sínar fyrirmyndir í.

Segið mér að þetta sé ekki alveg sama tóbakið ?

httpv://www.youtube.com/watch?v=8Dw8qdmT_aY

httpv://www.youtube.com/watch?v=Qb9jY8yAxgs

The Magnetic Fields

Ef það er einhver sveit fyrir utan Belle & Sebastian og Bítlana sem á fastan sess í hjarta mínu er það hin stórkostlega vanmetna og nær óþekkta The Magnetic Fields.

Að hún sé ekki fræg skil ég ekki því lögin og þá sérstaklega textarnir eru einhver mesta listasmíð sem ég hef á ævi minni heyrt. Stephin Merrit, forsprakki sveitarinnar sem semur öll lög og alla texta er einhver mesti snillingur sem ég hleypt í mín eyru. Textarnir tala til manns á svo mörgum sviðum og geta í senn skellt manni grátandi í fósturstellingu yfir í að ætla að sigra heiminn og allt þar á milli.

Win Butler, forsprakki Arcade Fire sagði eitt sinn að Magnetic Fields séu ein stærsta ástæðan fyrir því að hann hafi farið að gera tónlist sjálfur. Hann hafi verið að vinna í skóbúð og alltaf verið að heyra lög með sveitinni í útvarpinu og hann hafi í kjölfarið hringt daglega í útvarpið og beðið um lög með Magnetic Fields til að heyra meira með sveitinni. Hér má sjá og heyra Arcade Fire taka Born on a train sem á finna á Magnetic Fields plötunni Charm of the Highway Strip.

Lögin eru ekki flókin heldur afskaplega einföld sem gerir textunum einmitt hærra undir höfði og þeir fá að njóta sín án þess að tónlistin taki of mikið frá þeim eða yfirgnæfi. Textarnir fjalla iðulega um ástina og tekur Stephin Merrit oftast kaldhæðna, bitra og sótsvarta sýn á ástina sem er svo frábært. Gott dæmi um slíka textasmíð er hið frábæra Yeah! Oh Yeah! af þrekvirkinu 69 Love Songs sem er þreföld plata með jú, mikið rétt 69 lögum um ástina.

Í laginu er par að syngja til hvors annars þar sem að konan spyr manninn sinn hvort að hann sé hættur að elska hana, hvort að hann vilji bara vera einn, hvort að hún fari í taugarnar á honum, hvort að hann hrylli við þegar hún hringir í hann og hvort að hann sé að halda framhjá.

Svarið er alltaf já ásamt fleiri spurningum af svipuðum toga sem endar með því að hann drepur hana.

Ég mælist til þess og hreinlega heimta að fólk taki smá rúnt á Youtube og hlusti á lög The Magnetic Fields. Platan 69 Love Songs ætti að vera góður inngangur að sveitinni. Sýnir fjölbreytileika hennar og snilld í einu verki þó langt sé. Platan I (þar sem að öll lögin byrja á I) og platan Get Lost ættu svo að koma strax á eftir.

Endum þessa skipun á ábreiðu/kráku/kóveri/tökulagi Peter Gabriel þar sem hann tekur eitt fallegasta lag The Magnetic Fields og gerir ótrúlega vel. Lagið heitir The Book of Love og er af hinni frábæru 69 Love Songs.

httpv://www.youtube.com/watch?v=FmnDXRJ7btE

Google Music

Ég elska tónlist og tónlist elskar mig.

Í vor setti Google þjónustuna Google Music í loftið, þó í Beta útgáfu og einungis í boði fyrir Bandaríkjamarkað. Hægt er að komast framhjá þessari kvöð um að vera staddur í landi hinna frjálsu með VPN/Proxy rétt á meðan að maður skráir sig inn í fyrsta skipti og eftir það hættir Google að athuga hvar þú sért staddur í heiminum þannig að ég skellti mér í það að skrá mig.

Eftir að hafa notað þjónustuna núna í nokkrar vikur verð ég að segja að þetta er mikil bylting. Google Music þjónustan sjálf er kannski ekki svo mikil bylting út af fyrir sig en að hafa tónlistina í skýinu er bylting klárlega. Ég hef ekki opnað iTunes síðan ég byrjaði að nota þetta enda þörfin engin sem er stór plús þar sem að iTunes í Windows umhverfi er eflaust eitt það versta forrit sem til er.

Öll tónlistin er þannig aðgengileg í vafra sem og í símanum mínum sem er óneitanlega hrikalega þægilegt. Þegar ég kaupi plötu á netinu eða rippa geisladisk fattar Google fyrir einhvern kraftaverkamátt að ný tónlist sé komin og byrjar að senda það í skýið og þannig er Google Music alltaf með réttustu stöðuna af tónlistarsafninu mínu.

Svo ef að harði diskurinn minn skyldi hrynja að þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því hvenær ég tók afrit síðast eða neitt slíkt. Allt er þetta til hjá Google og ég þarf engar áhyggjur að hafa.

Skýið er framtíðin, ekki bara fyrir tónlist heldur fyrir allt. Myndir, skjöl og stillingar fyrir forrit og annað á allt að fara í skýið og verða þannig aðgengilegt fyrir notandann, óháð stýrikerfi og staðsetningu.

Held að mín besta upplifun af skýinu hingað til er þegar ég skipti út Galaxy S fyrir Galaxy S II og Google setti allar stillingar, sms og forrit sem ég hafði á gamla símanum yfir á þann nýja og ferlið tók aðeins nokkrar mínutur og fór fram hljóðlega bakvið tjöldin án þess að ég notandinn þurfti að gera nokkuð.

httpv://www.youtube.com/watch?v=ZrNhKcxBbZo

 

Einstæður enn og aftur

Ég enn einu sinni einn í kotinu með Margréti Dúnu. Kristín stungin af til Senegal til að bjarga mannslífum og svitna. Hitinn og rakinn þar er bull og því sofnar maður sveittur og vaknar sveittur.

Þá vil ég frekar lokin á alíslensku sumri sem leyfir mér að taka hjólatúra með Margréti Dúnu og líta við á gæsluvellinum til að prófa leiktækin.

Verandi tímabundið einstæður faðir er fínt, myndi ekki velja þetta sem fyrsta val en þetta er bara ágætt. Bæði stjórnum við Margrét Dúna alfarið dagskránni og ég get gert það sem ég vil á kvöldin þegar að Margrét Dúna er sofnuð. Ég passa auðvitað að helstu hlutir séu á hreinu. Læt uppvaskið ekki sitja á hakanum, held heimilinu í lagi og skelli í þvottavélar enda þurfum við feðgin að vera vel útlítandi svo að fólk fari ekki að hringja í barnaverndaryfirvöld og haldi mögulega að ég sé ekki að standa mig í stykkinu.

Núna er rétt liðin vika síðan að Kristín fór út og ég hef ekki enn þurft að elda kvöldmat. Sé einhvern veginn fyrir mér að ef Kristín væri búin að vera ein með Margréti Dúnu þennan tíma væri meðaltal matarboða ekki jafn hátt.

Það besta við fjarveru Kristínar, svona fyrir utan gæðastundirnar sem ég á með dóttur minni er að ég get gert alla þá hluti sem að Kristín myndi ekki taka í mál að gera eins og að horfa á asnalegar bandarískar ofurhetjumyndir, spilað ofbeldisfulla og tilgangslausa tölvuleiki ásamt því að liggja upp í sófa og lesa Game of Thrones án þess að þurfa að ganga frá einu né neinu.

Helv. rugl !

Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að það verði lítið sem ekkert NBA tímabil núna í haust vegna kjaradeilu leikmanna og eigenda liðanna.

Væntanlega munu þeir ekki ná saman áður en tímabilið á að hefjast og þá er stóra spurningin hvort að tímabilið verði stytt eða því alfarið sleppt. Skiptir svo sem ekki máli hver niðurstaðan verður, því þetta verður glatað.

Arsenal, mitt lið í Enska boltanum er vant að skíta upp á bak eftir áramót eftir frábæra byrjun og þá hætti ég oft að fylgjast jafn mikið með fótboltanum og sný mér að NBA deildinni sem fer þá að detta í úrslitakeppnina.

Ef þetta verður tekið af mér mun ég þurfa að fylgjast með hnignun Arsenal allt til loka tímabilsins og því mun pirringur og skapofsi minn verða meiri en annars yrði. Það er því að vona að Derek Fisher, hinn aldraði bakvörður Los Angeles Lakers sem er formaður leikmannasamtakanna sjái á mér aumur og slaki á kröfum sínum. Finnst það líklegra en að eigendurnir ætli að borga meira en orðið er.

Djöfulsins rugl !

James Worthy hefði ekki látið svona.

httpv://www.youtube.com/watch?v=-TKCxO67aGw

Grasekkill – taka tvö

Á morgun fer barnsmóðirin aftur erlendis til að bjarga mannslífum, þetta brölt vonandi allt leiðir til þess að heimurinn verður aðeins betri staður.

Það að  hún sé við skyldustörf á fjarlægum slóðum þýðir að ég mun þurfa að sjá um að reka heimilið, fjarskiptafyrirtækið og ala upp Margréti Dúnu.

Síðast þegar barnsmóðirin fór svona frá stóð lotan í þrjár vikur og allt gekk afskaplega vel fyrir sig. Frumburðinn dafnaði, lagði skriði og tók upp labb ásamt því að babbla meira en ég geri. Barnsmóðirin kom heim sólbrún, með H&M poka svo að maður hefði getað haldið að hún væri að koma úr verslunarferð í Danmörku frekar en að bjarga mannslífum.

Þó að Margrét Dúna hafi ekki erfit mikið af útlitslegri fegurð minni er þó á hreinu að hún er dóttir mín og án nokkurs vafa Jóh.

Margrét Dúna hefur hátt, mjög hátt á tíðum. Hún hefur grætt börn með hjali sínu sem eru ekki öskur heldur liggur henni bara hátt rómurinn. Bæði hefur hún grætt dóttur Arnars 6 ára og strákinn hans Villa bara með því einu að vera hress.

Þessar tvær vikur sem Kristín (barnsmóðirin) verður í burtu núna verða yndislegar, það verður blússandi dagskrá frá morgni til kvölds allt til þess að drepa tímann og þessa gæðastund sem einveran með henni er. Einstæðir feður fá þó mikla hjálp og aðstoð frá fjölskyldunni enda vorkenna allir einstæðum feðrum. Einstæðar mæður hreinlega verða bara að þrauka.

Þeir sem eru til í hitting þurfa bara að panta tíma. Við Margrét Dúna erum til í hvað sem er.