Synir Breiðholts

Bjarni Fritzson, handknattleiksmaður en umfram allt Breiðhyltingur tók um daginn göngutúr um æskuslóðir sínar í Seljahverfinu ásamt syni sínum. Bjarni vildi sýna honum hvar hann hefði alið manninn og leikið sér sem strákur. Sú sjón sem að Bjarni sá var ekki alveg sú sem hann átti von á. Það sem hann sá var að hverfið hans, æskustöðvarnar þar sem allur þessi góði vinskapur og leikir höfðu farið fram var undir fullkominni niðurníslu.

Leikvellir, græn svæði og göngustígar var allt búið að grotna niður og aðeins stóð eftir minningin um að þarna hafði verið gaman að leika sér.

Bjarni tók sig því til og myndaði ósköpin og gerði þessu góð skil svo eftir var tekið. En hann lét þar ekki við sitja heldur fékk vini sína, mig þar á meðan til að taka annan eins rúnt um sínar æskuslóðir.

Það var því úr að ég gekk um Bakkahverfið mitt fallega, Jói Jökull tók Hólana, Tryggvi tók Fellin og þannig gátum við lokað hringnum og átt sameiginlega skýrslu um ástand Breiðholtsins alls. Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki labbað í gegnum Stekkina líka, maður lék sér þar nóg sem krakki til að geta gert þeim sömu skil en ég verð bara að eiga það inni.

Ástand Breiðholtsins er ekki upp á marga fiska. Allir þessir fjölmörgu leikvellir, fótbolta og körfuvboltavelir og græn svæði liggja öll undir skemmdum þannig að á fæstum þeirra er hægt að leika sér að einhverju viti. Sum þeirra eru í raun og veru bara hættleg börnum. Nóg er nú af leikvöllunum og þar sem manni sárnar kannski hvað mest er umhirðuleysið. Það eru sömu körfurnar og mörkin við alla þessa velli og hafa verið í 20 ár.

synir1

Það er ekki dýrt fyrir Reykjavíkurborg að laga þessa fjölmörgu velli, það er í raun ódýrara til lengri tíma litið að hafa vellina í lagi og taka skurk á þeim á hverju sumri frekar en að láta þá grotna svona niður, alla með tölu og þannig þurfa að taka grettistak til að geta sett þá í samt horf.

Við strákarnir, Synir Breiðholts tókum okkur því til og afhentum nýrri borgarstjórn skýrslu okkar um Breiðholtið okkar. Við sem þarna ólumst upp og erum allir brottfluttnir viljum samt ekki sjá hverfið okkar svona. Breiðholtið á inni hjá okkur að við gerum okkar fyrir það þegar það hefur gefið okkur svona mikið. Í fyrsta lagi var auðvelt að fá fjölmiðlana með okkur enda grasrótarstarf sem þetta alltaf góðar fréttir, menn taka alltaf vel í jákvæðar fréttir. Í öðru lagi er að fá íbúana með okkur og í framhaldinu má fá borgina með okkur.

synir2

Þetta endar allt hjá borginni, vellirnir og svæðin eru hennar og því á hennar ábyrgð að hafa þetta í lagi. Enn er nóg af börnum í Breiðholti, þessu fjölmennasta hverfi Reykjavíkur og þar með landsins og þannig verður það alltaf. Börnin þurfa leiksvæði og ekki skemmir ef að leiksvæðin eru góð, þau þurfa ekki hoppukastala og vatnsrennibrautir heldur dugar börnum að hafa ágætis leikvelli og sparkvelli, en þeir þurfa að vera í lagi.

synir3

Svo er að lemja járnið á meðan það er heitt og gefast ekki upp.

Við erum rétt að byrja.

Björn Árnason

Í dag fórum við Kiddi bróðir að kveðja gamlan kennara úr Breiðholtsskóla sem dó 6.apríl langt fyrir aldur fram. Björn Árna var skemmtilegur kennari en líka talin einn sá strangasti. Vissulega var hann strangur eftir á að hyggja var það auðvitað nauðsynlegt að beita réttlátum aga á okkur krakkana, við gátum verið hrikaleg. Ekki ég kannski en sumir klárlega.

Frá Breiðholtsskóla árunum er Björn Árna einn af þeim kennurum sem maður gleymir aldrei. Það var skemmtilegt að hitta alla gömlu kennarana sem sumir mundu strax eftir manni þó að aðrir hafi verið lengur að kveikja. Það er víst svo að maður hefur eitthvað breyst eftir öll þessi ár.

Ég skrifaði litla minningargrein, mér fannst það einhvern veginn svo sjálfsagt og í senn nauðsynlegt að gera það.

Leyfi henni að fylgja með.

Í dag kveð ég gamlan vin minn Björn Árnason, kennara. Ég segi vin minn þrátt fyrir að vinskapur okkar hafi verið bundinn við tíma minn í Breiðholtsskóla. Ég, þar sem nemandi og hann sem kennari. Ég var kannski ekki alltaf sammála honum eða alltaf í uppáhaldi í tímum hjá honum. Ég átti það til að tala hátt og mikið og þá gat það gerst að honum fannst ég trufla kennslu einhverra hluta vegna og það endaði alltaf með því að ég lækkaði róminn og fór að fylgjast með, stundum tilneyddur. En inn á milli og í þáttöku minni í félagslífi skólans náðum við vel saman og þá kynntist ég betur þessum góða manni utan skólastofunnar.

Þegar maður hugsar til baka, til þeirra ára sem ég átti í skólanum eru það alltaf sömu nöfnin sem upp koma í hugann. Björn Árna er þar efstur á blaði ásamt Ragga,Jóa Atla og Hildi. Eftir Breiðholtsskóla sá ég líka betur og betur hversu góðir kennarar þar voru, og ekki bara góðir kennarar heldur líka svo gott fólk sem vildi manni aðeins vel og var að reyna að gera sitt allra besta fyrir unglinga sem töldu þetta allt stundum óþarft. Þó að Björn hafi kennt mér í mörg ár þá gat hann einhverra hluta vegna alls ekki munað hvað ég hét. Þegar við hittumst á förnum vegi einhverjum árum seinna breyttist það heldur ekki, alltaf skyldi ég bara vera litli bróðir Kidda og Óla. Eins og þeir eldri bræður mínir, sem ekki áttu það til að tala jafn mikið og stóðu sig eflaust betur en ég væru bara meiri menn að hans skapi. Það skyggði þó ekki á að alltaf spurði hann með áhuga hvað væri að frétta af mér og mínum og spurði um alla með nafni.

Mér er það einna minnistæðast úr tímum hjá Birni þegar við krakkarnir fengum afhent í skólanum hefti sem að innihélt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fyrir barn eins og mig var þessi sáttmáli eins og himnasending því þar stóð að öll börn mættu tjá sig að vild jafnt við fullorðna og það væri hreinlega bannað að hefta tjáningafrelsi þeirra. Þetta var eitthvað sem að Björn gat illa við unað í sinni skólastofu, þetta hefti hafði ekkert gildi í hans augum. Stuttu seinna var þetta hefti komið ofan í tunnu og eftir sat ég tómhentur og mállaus. Ég man að mér fannst sérstaklega ósanngjarnt að sami aðili setti regluna, dæmdi og framfylgdi henni og það allt framkvæmt af fullkomnum geðþótta.

Ef ég væri kennari í dag mundi ég ekki vilja hafa sjálfan mig fyrir 16 árum sem nemanda, ég hefði ekki þolinmæði í slíkt, sem sýnir hversu mikla þolinmæði Björn hafði fyrir málóðum strákum eins og mér sem alltaf hafði eitthvað til málanna að leggja. Sama hvort umræðuefnið var freðmýrar, Napoleon eða hvort það ætti ekki að hleypa okkur krökkunum fyrr úr tíma til að ná körfuboltavellinum.

Björn Árnason var kennari af þeim toga að maður vildi ekki valda honum vonbrigðum, maður vildi standa sig vel í einu og öllu. Hann hafði gert allt sitt og átti því það inni að maður reyndi að skila sínu á móti. Fyrir hönd bræðra minna og foreldra votta ég eiginkonu Björns, börnum og fjölskyldu þeirra okkar dýpstu samúð.

hvar er boltinn ?

Þessi ráðgáta er enn óleyst, alveg síðan 1987.  Þeir sem hafa upplýsingar um málið gætu þurft að bæta 55 fyrir framan símanúmerið úr auglýsingunni til að ná í gegn.

Ég gruna Óla frekar en mig eða Kidda um að hafa gleymt þessum bolta úti á Starfsvelli.

boltinn1987

Nýr breiðhyltingur

Komin er nýr Breiðhyltingur sem ber eftirnafnið Popp!

Toggi og Stína eignuðust dreng í morgun, 12 merkur og 49 cm og fullkominn í alla staði samkvæmt nýbaka föðurnum sem eflaust á eingöngu eftir að semja barnaplötur það sem eftir er.

Þá er kynjastaða hópsins 3 strákar á móti 3 stelpum. Staðan gæti ekki verið meira spennandi.

Myndir af frumburðinum Popp koma síðar, mynd af föðurinum verða að duga þangað til.

Borgin

Ég hef afskaplega litla nennu til að tjá mig um nýja borgarstjórnarmeirihlutann eða borgarstjórann. Ég skil ekki alveg þessa leikfléttu hjá Sjálfstæðisflokknum og hverju hún á að ná fram. Kannski vita þau eitthvað meira en við hin eða þá að þau eru bara að hugsa um völd. Ég vona að það sé fyrri kosturinn.

Persónulega er ég þó sáttur með að Villi sé komin aftur til valda því ég var posterboy hjá honum í prófkjörinu sælla minninga. Ég spila ekki með lúserum og því gott að minn maður er komin aftur í valdasæti, það hentar mínu orðspori betur.

Innkomu Óskars Bergssonar fagna ég þó mikið, ég sakna Björns Inga ekkert sérstaklega. Óskar er góður og gegnheill Breiðhyltingur og ÍR-ingur. Bingi er ekki gegnheill þó hann sé Breiðhyltingur.

BREI

Í gær var stærsta stundin á minni ævi sem launamaður. Ég fór á staðinn sem öllu skiptir, staðinn þar sem hinn heilagi kaleikur er geymdur. Staðurinn sem læknar fólk með einhver mein og lætur allt púlið og ruglið í vinnunni vera þess virði.

Um hvað er drengurinn að tala?

Jú, þetta liggur í augum uppi. Ég fór í vettvangsferð í Breiðholtssímstöð. Flottustu og bestu símstöð í öllum heiminum.

helv. kópavogur

Ég krefst þess að Reykjavíkurborg kalli Kópavogsbæ inná teppið strax eftir helgina þar sem þessi mál verða rædd. Það er ekki líðandi að nágrannasveitarfélag sé að menga náttúruperlu Reykjavíkur sem á engan sinn líkann í heiminum.

Breiðhyltingar munu sniðganga verslanir og þjónustu í Kópavogi þangað til að þetta mál hefur verið leyst og Kópavogsbær beðist afsökunar. Þetta fólk ætti að skammast sín, allt með tölu.

Kosningar 2007

Eins og margir vita að þá eru alþingiskosningar framundan og mikið um þær rætt bæði í fjölmiðlum sem og í daglegu tali. Kosið er í sex kjördæmum um land allt og er það Reykjavíkurkjördæmi suður, sem ólíkt sjávarplássinu Reykjavík norður hefur Breiðholtið í sínu kjördæmi.

Breiðholtið er með 21. þúsund merka íbúa sem allir eiga það sameiginlegt að vera vitiborið myndarlegt fólk, með gott nef fyrir góðu bæjarstæði þegar kemur að því að stofna heimili.
Breiðholtið er það frábært hverfi að borgarstjórinn sjálfur, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson býr í hverfinu.

Á þessum árstíma er fallega hverfið í hlíðinni jafn stórkostlegt og París á vorin. Litskrúðugt mannlíf þar sem íbúarnir taka sér hvíld á iðju sinni til þess að bjóða þig velkominn/velkomna með brosi eða vinalegri kveðju.
Héðan koma miklir íþróttagarpar og fjármálaspekingar.
Upphaf alvöru kvikmyndahúsa hér á landi sem og á noðurlöndunum má rekja til Breiðholtsins enda fyrsta bíóið á norðurlöndunum með THX hljóðkerfi. Breiðholtið er líka með sitt eigið skíðasvæði (það er ekki nóg að vera bara með brekku) sem og fallegan dal þar sem hægt er að renna fyrir laxi eða leika sér í skóginum.

Sem færir mig að ástæðu þessarar færslu. Ég vildi bara láta ykkur vita af myndlistarsýningu leikskólabarna í Breiðholti sem verður þriðjudaginn næstakomandi í göngugötunni í Mjódd.
Endilega tjékkið á listamönnum (Breiðhyltingum) framtíðarinnar.

Hugmyndina að þessari færslu fékk ég hjá þessum bloggara.