mac

Um daginn ákvað ég af rælni að afrita allar myndir af makkanum mínum yfir á flakkarann minn. Engin sérstök ástæða, bara til að vera öruggur um að eiga afrit af myndunum ef allt færi nú í rugl.

Viku seinna hrynur harði diskurinn í makkanum mínum. Ég var í engu stuði til að fara að punga út peningum á verkstæði til að láta laga vélina og ákvað því að kaupa nýjan harðan disk og taka vélina í sundur.

Í mörgum PC vélum er hlutunum komið þannig fyrir að notandinn geti t.d. sett auka vinnsluminni og skipt um harðan disk og rafhlöðu á eigin spýtur. Á Apple vélinni minni er það aftur á móti öfugt. Ég get stækkað minnið og skipt um rafhlöðu. Meira er mér ekki treyst að gera.

Ég fór því á netið og fann þessar fínu leiðbeiningar sem útlistuðu nákvæmlega á mannamáli hvernig þetta skyldi verða gert og þeir voru meira að segja svo góðir að láta mig vita hvernig skrúfjárn ég myndi nú þurfa. Eftir smá leit í Húsasmiðjunni af torx númer 6 (T6) og Philips skrúfjárni númer núll var komið að þessu.

Skellti handklæði á stofuborðið og byrjaði að taka vélina í sundur. Þetta var ótrúlegt magn af skrúfum sem byrjuðu að koma úr ótrúlegustu stöðum á vélinni og ég teiknaði myndir af tölvunni og setti hverja skrúfu við hverja mynd svo ég myndi vera 100% á hvaða skrúfa ætti að fara hvar. Þetta kallast að taka Guðjóninn.

Eftir smá stund var vélin komin upp aftur og nýuppsett vélin farin að mala eins og vindurinn. Diskurinn er hraðari en sá gamli og 40GB stærri. Heildarkostnaður er rúmar 7þúsund krónur og klukkustundarvinna hjá mér sjálfum.

Nýja iPhoto er æði, þess má til gamans geta. Miklu hraðara og events röðunin er langtum betri en smart folder ruglið úr eldri útgáfum.

Nördafærslu dagsins er lokið.

Apple og Eberg

Í nótt þegar Óskarinn var í full swing var sýnd fyrsta sjónvarpsauglýsingin fyrir iPhone , nýja GSM símann frá Apple.

Auglýsinguna má sjá hér.

Það sem er merkilegast við þessa auglýsingu og fólk er ekkert að fatta er að lagið í auglýsingunni er eftir Einar Tönsberg eða Eberg eins og hann kallar sig og heitir Inside your head .
Það þykir mér merkilegra en auglýsingin, sem er þó helvíti skemmtileg.

Peel

Tóndæmi dagsins sá ágæti dagskrárliður hér á þessari síðu telst til mp3 blogga. Maður les ófá mp3 blogginn þessa dagana í leit að nýrri tónlist og til að sjá hvað er sisslandi kraumandi undir í grasrótinni og hvað telst til næsta stóra hlutar.

Hjalti Jakobsson, mikill snillingur og vinur minn er búin að skemma bloggrúntinn með snilldinni sinni sem Peel er. Peel er stórkostlegt forrit (sem virkar eingöngu á mac) sem fylgist með mp3 bloggunum mínum og segir mér hvað er nýtt. Nær í lögin ef ég vil svo, flokkar niður í möppur og setur í iTunes fyrir mig. Þetta hefur alveg breytt hvernig ég les mp3blog og í raun alveg mynstrinu mínu í að nálgast nýja tónlist.

Ég hvet alla makkanotendur til að ná í Peel og prufa gripinn. Það verður ekki aftur snúið.

góður vinur getur gert…

Maður helgarinnar er Steindór Gunnar Steindórsson. Hann fór langt út fyrir mörk hins byggilega heims í því að standa sig sem góður vinur. Hann reif sig upp til að sækja Mummann sinn, sem var kenndur og kom skröltandi í jakkafötum af Saga Class. Það er erfitt líf að vera plebbi, svo mikið er víst.

Dóri átti að koma á Hertoganum en þar sem fjarstýring með Lock / Unlock funksjóni var of flókin fyrir hann sagði hann bílinn vera bilaðann og staulaðist fram og til baka þangað til að aldraðir foreldar mínir sem voru ölvuð (eins og örverpið) á jólahlaðborði sáu aumur á honum og lánuðu honum jeppann sinn.

Dóri gerði meira en til var ætlast og fyrir það er honum hrósað. Dóri er góður vinur.

iPod

Í dag er iPoddinn frá Apple 5 ára. Magnað tæki sem hefur breytt þankagangi fólks um allan heim. Við hlustum og umgöngumst tónlist á allt annan hátt en við gerðum.

Það er auðvitað ekki allt iPod að þakka en stór hluti að einhverju leiti, það er á hreinu. Næsta mál væri að fá iTunes Music Store á Íslandi. Tonlist.is notar WMA formatið sem virkar ekki á iPod. Ég hef aldrei skilið þá leið að notast við format sem stærsti spilari í heimi getur ekki spilað. Tilhvers að leika bara við 10% af markaðnum?

Ég hef átt og á tvo iPodda. Sá fyrsti var 3.kynslóðarstykki, 20gb en virkar enn þrátt fyrir að hafa farið í sturtu. Hann spilar lög og hleður sig en ég get ekki tengt hann við tölvu lengur þannig að þessi 19gb sem á honum eru verða að duga. Hann nota ég í Hertoganum með iTrippi.

Betri iPoddinn minn er svo 5.kynslóðar 20gb iPod með video fúnksjon. Virkar vel og ekkert út á hann að setja.

Til hamingju með daginn.

Blátannar mús

Þráðlausa Mighty Mouse er eðaltæki. Ég var nú ekkert að fíla gripinn fyrst en hún venst betur en ég átti von á.

Nú á aðeins eftir að athuga með hversu vel rafhlöðurnar endast. Eina sem pirrar mig er að refresh reitið á músinni er ekki eins gott á Logitech snúru músinni sem ég var með og því ferðast músarbendilinn hægar um skjáinn. Er með kvikindið stillt í botn en samt er bendilinn hægari en Logitech músin.

En það er engin snúra. Ég hata snúrur. 

WWDC

Apple héldu í gær WWDC, ráðstefna fyrir forritara og þróunargutta Apple megin. Þarna eru kynntar nýjungar og fínerí í vélbúnaði og á high end hlutum.

PowerMac var formlega drepinn og Mac Pro kom í staðinn með 2x Core Duo Xeon örgjörvum sem þýðir í raun kraftur á við fjóra örgjörva og það sama var gert með Xserve. (gummijoh.net er keyrð á Xserve).

G4 og G5 PowerPC örgjafarnir eru því formlega dauðir.

Núna er ég Apple og PC gaur í einu og finnst það fínt og lifi bara í sátt og samlyndi á milli vélanna. Þegar að Steve Jobs hélt sína kynningu varð ég þó enn og aftur fyrir vonbrigðum með stælanna og böggið gagnvar samkeppninni. Apple vilja meina að Microsoft hafi stolið öllu sem þeir hafa verið að gera með Mac OS X og sett í Vista sem er handan við hornið.

Það hefur verið calendar í Outlook miklu lengra en iCal hefur verið til, RSS er ekki neitt sem að Apple menn fundu upp, Backup lausn (þó ekki eins fancy en eigum eftir að sjá Time Machine í action) hefur verið frá dögum Windows 95 og svo mætti telja áfram. Linux menn gætu þá vælt að Apple séu að stela frá sér þar sem að Spaces fídusinn hefur verið þar í gluggakerfinu í ár og aldir. Spotlight er leitarfídus, vú hú!!! Leit er ekki neitt breakthrough, google menn kunna hana best. 64-bita stuðningur , Windows menn hafa haft hana í meira en ár í Windows XP. Ekki eru þeir að væla yfir að Apple hafa stolið því. Þetta er bara eitthvað sem allir setja inn þar sem notkun á 64 bita örgjörvum er að aukast. Dashboard sem var kynnt í Tiger er ekki einu sinni frá Apple heldur hefur verið í notkun í mörg ár sem Konfabulator. Stolið!

Það er ekkert sniðugt að vera að dissa samkeppnina svona, það hreinlega gerir fólk bara pirrað eins og mig sjálfan. Svona Apple fanboy-ism er ekki eins algengur og hann var, Apple notendur fíla sig ekkert endilega lengur sem einhvern hluta af elítunni sem má og getur notað Apple þar sem þær eru orðnar langtum algengari í höndum hinna "venjulegu".

Skamm segi ég. En þó er ég spenntur að sjá það sem er að koma. Leopard útgáfan af OS X lítur vel út og loksins er búið að uppfæra Mail en ég er þreyttur á því forriti. Thunderbird er betri. En það vantar samt uppfærslu á Finderinn, það er eitthvað það mesta prump sem að ég hef notað.

Það er nettur mánudagur í manni. 

get a mac

Apple hafa hrundið af stað nýrri auglýsingaherferð sem á að sýna hvað Makkinn er æðislegur og frábær en PC tölvur leíiðinlegar.

Þetta eru ágætis auglýsingar þar sem húmorinn er í fyrirrúmi en einhverjar tölur og staðreyndir látnar liggja á milli hluta, sérstaklega finnst mér Networks týpan skemmtilegust. En það er eitt sem böggar mig útí hið óendanlega.

Makkar frjósa alveg og það þarf oft að endurræsa þá. Það er barnalegt að halda öðru fram eins og heil auglýsing gengur útá hjá þeim. Ég nota PC í vinnunni og meira segja nota ég PC líka heima þegar að Makkinn er ekki til í tuskið og ég endurræsi þá ekki oftar en Makkann minn og þeir frjósa ekki oftar heldur. Það er líka fullt af holum og bakdyrum sem hægt er að nýta á Mac OS X en þar sem langtum langtum langtum færri nota Mac að þá eru tölvuþrjótarnir bara PC megin að angra fólk.

Ég fíla Apple og er stoltur notandi þeirra en svona barnaskap fíla ég ekki.