Tveggja barna faðir

Þetta blogg hefur verið vanrækt mjög lengi. Það er miður þegar maður horfir til þess að bloggið hefur verið starfandi í einhverri mynd síðan í júní það herrans ár 2000 þegar að internetbólan var í hámarki. Síðan þá hafa mörg netfyrirtækin farið yfir móðuna miklu með bullandi rauð excel skjöl og yfirdráttinn í botni. Bloggsíðan gummijoh.net hefur alltaf verið í góðum rekstri og öll opinber gjöld greidd samviskusamlega.

Síðan síðast hefur margt gerst. Ber þó helst að nefna að Hertoginn, það þýska stál var seldur á einum degi og uppfært í skutbíl. Enda þarf meira pláss þegar að nýr einstaklingur bætist við í fjölskylduna. Þá er ég ekki að tala um hamstur eða páfagauk heldur nýjan einstakling, með skoðanir, kennitölu og tilfinningar.

Guðrún Eva Guðmundsdóttir fæddist 25.nóvember 2013. Þetta gekk hratt fyrir sig og barnið kom rétt áður en ég náði að smella mynd af slímtappanum þegar hann skaust út úr barnsmóður minni á mettíma. Stuttu seinna var komið barn og ég grátandi í boga yfir þessu öllu saman.

Guðrún Eva

Eins fullkomin og Margrét Dúna sem fer að detta í fjögurra ára aldurinn er og var á sínum hvítvoðungs tíma mætti segja að Guðrún Eva sé eins og BabyBorn dúkka. Hún brosir, hjalar, drekkur og sefur í engri sérstakri röð. Það er aldrei neitt vesen með svefn, aldrei neitt vesen með skapið og því mætti segja að hún hafi erft skapið mitt. Margrét Dúna er meira með skap barnsmóður minnar. Þar eru áveðnar skoðanr á öllum hlutum og ekkert verið að sætta sig við málamyndanir. Þegar Margrét Dúna og barnsmóðirin deila er það bara stál í stál og ég er þá í hlutverki sáttasemjara. Eitthvað sem segir mér að þetta verði ekki raunin með Guðrúnu Evu, en ég hræðist hvernig þetta verður þegar hún verður unglingur, þá kannski blómstar út eitthvað skap sem ég á ekki roð í. Vonum samt að hún verði bara eins og ég sem unglingur, ekkert nema ljós.

Núna í apríl dettur svo barnsmóðirin í vinnu og barnið ekki orðið fimm mánaða. Það verður því mikið álag á tveggja barna föðurnum sem smellur í feðraorlof þá og þarf að gefa pela lon og don eins og að hann laktósi sjálfur. Fyrir mann sem þolir illa að missa svefn verður það því mikil þolraun að þurfa að vakna um miðjar nætur til að hita pela og standa í þessu brasi.

Að eiga tvö börn er áskorun. Það tekur allt lengri tíma og því algjörlega ný rútína sem þarf að venja sig á, það getur tekið á þegar maður býr með manneskju með sterku þýsku geni sem skipuleggur tíma sinn í fimmtán mínutna lotum og það þarf að ná þessari rúmlega fjögurra ára í föt, greiða hár og svo koma nýjasta eintakinu í föt líka. Þegar allir eru svo tilbúnir og ekkert eftir nema að skella útidyra hurðinni í lás heyrist hljóð. Hljóð sem maður veit að rústar öllum áætlunum og hafa þarf hröð handtök. Það er þetta hljóð sem að foreldrar einir þekkja, hljóð sem segir manni að nú sé kúkur kominn upp á bak og í gegnum öll lögin af fötum.

Feðraorlofið verður áskorun. Tryggja þarf heimilisfrið, tryggja þarf áhyggjulaust og fumlaust uppeldi dætranna og tryggja þarf að nóg sé af „me-time“ svo að nýrri uppskerfu af gráum hárum sé haldið í skefjum.

MD og GE

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s