Nammigrísinn ég

Þeir sem mig þekkja vita að ég get sýnt af mér ótrúlegann aga og staðfestu þegar kemur að freistingum. Ég get verið stöðugur eins og klettur þegar að fyrir framan mig liggja að því virðist óendanlegt magn af gúmmelaði, kruðeríi og öðru ætilegu sem inniheldur mikið af sykri, aspartamei, nutrasweet eða öðrum sætuefnum.

Hingað til hefur minn helsti veikleiki falist í hringlaka hvítri köku með bleiku glassúri, svokallaðri möndluköku. Kakan sú er fjórar sneiðar max og er tekin föstum tökum með ca. einum líter af ískaldri mjólk. Svo kaldri að það perlar á glasinu sem hellt er í. Ég kaupi slíka köku ekki oft, eðlilega enda væri mögulegur lífsaldur minn þá búinn að styttast um ca. þrjátíu ár því kakan sú er ekki holl. En hún er bara svo fjandi góð.

möndlukaka

Nú hafa sælgætis framleiðendur náð inn fyrir sterkbyggða virkisveggi mína. Þeir hafa reynt og reynt með allskonar galdrabrögðum en aldrei hafa tilraunir þeirra náð einhverjum vinsældum. Íslenskir sem og erlendir sælgætisframleiðendur hafa bara ekki náð að hitta á þá flóknu formúlu sem þarf til að ég leggist á beit þangað til að nóg er komið og ég ligg andvaka af verkjum í fósturstellingu.

Smá Lindu Buff var það fyrsta. Lindu Buff þekkja allir enda hafa súkkulaðistykkin ljúfu með hvíta jukkinu í grænu umbúðunum verið til sölu lengur en ég hef lifað. Það er eitthvað svo klassískt við þau en sökum aldurs hafa þau einhvern veginn ekki náð hylli þegar maður ætlar að verðlauna sig með einhverju smáræði. Þau hafa einhvern veginn alltaf verið til og eru því ekkert sérstaklega spennandi.

En núna hefur illur framleiðandinn ákveðið að búa til smáútgáfu og setja í kassa, svokallaða gjafaöskju og þar myndaðist lítið gat á varnarveggnum sem erfitt hefur verið að laga. Þessi smábiti inniheldur er svo mjúkur og góður og af þessari akkúrat stærð. Og eftir einn bita hugsar maður auðvitað sem svo að þetta sé svo lítið að maður verði að fá annan. Í þeirri hugsun felast mistökin og eftir nokkrar mínutur er kassinn tómur og maginn fullur.

Rothöggið kom svo í byrjun sumars í litlum 150 gramma poka. Pokinn lætur ekki mikið yfir sér enda innihaldið bara Djúpur, nammi sem mér finnst ekki gott.
En með því að hjúpa Djúpurnar með salmíaki eru komnar sterkar Djúpur og þau kvikindi hafa fellt varnarvegginn eins og stórskotalið búið nýjustu tólum og tækjum.

Þegar ég vakna hugsa ég um sterkar Djúpur og þegar ég fer að sofa hugsa ég um sterkar Djúpur. Það er hið fullkomna sælgæti. Ég vona innilega að þetta sé bara sumar sælgæti og verði horfið þegar september gengur í garð. Ef ekki verð ég að vinna fjarvinnu frá Heilsuhælinu í Hveragerði og láta setja mig á bannlista á bensínstöðvum sem selja þetta görótta nammi.

Smá Lindu Buff

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s