Það er ekki svo ýkja oft að sigurvegarar Músíktilrauna ná til eyrna minna svona strax eftir að keppni lýkur en það hefur gerst núna. Venjulega bíð ég spakur þangað til að sigursveitin gefur út stóra plötu eða EP plötu svo að ég geti heyrt betur hvað sé um að ræða og hvort að þetta sé eitthvað fyrir minn fágaða tónlistarsmekk.
Sigursveit ársins er RetroBot sem kemur frá Selfossi og er þar með fyrsta sveitin frá Selfossi sem að sigrar í Músiktilraunum. Reyndar segja liðsmenn sveitarinnar að þeir séu ekki frá Selfossi heldur frá bæjum og sveitum þar í kring en þeir eiga það sameiginlegt að stunda nám við Framhaldsskólann á Selfossi og þaðan sé tengingin við bæjarfélagið komin.
Áður en Músíktilraunir byrjuðu var söngvari sveitarinnar búin að fanga athygli mína með því að syngja eitthvað það besta tónlistaratriði sem að ég hef séð í Gettu Betur, í atriði sem reyndar aðrir meðlimir sveitarinnar taka einnig þátt í. Textar RetroBot eru á ensku en það er krafa Ríkissjónvarpsins að sungið sé á okkar ástkæra ylhýra og fluttu þeir því lagið Hitler var grafískur hönnuður úr söngleiknum Legið eftir Hugleik Dagsson og hljómsveitina Flís.
httpv://www.youtube.com/watch?v=BCJo-AXG-JM
Þau lög sem ég hef heyrt með RetroBot eru hvert öðru betra. Sveitin er með góða blöndu af rokki og elektró, eitthvað sem ég get á stundum verið mjög veikur fyrir ef vel er gert.
Lagið Electric Wizard finnst mér t.d. yndi.
httpv://www.youtube.com/watch?v=Q8yk6kuIap4
Það styttist í EP plötu frá sveitinni sem verður gaman að hlusta á. Það er mikið efni í þessum strákum. Hér má svo heyra acoustic útgáfu af laginu Lost sem er líka mjög gott.