Ég elska tónlist og tónlist elskar mig.
Í vor setti Google þjónustuna Google Music í loftið, þó í Beta útgáfu og einungis í boði fyrir Bandaríkjamarkað. Hægt er að komast framhjá þessari kvöð um að vera staddur í landi hinna frjálsu með VPN/Proxy rétt á meðan að maður skráir sig inn í fyrsta skipti og eftir það hættir Google að athuga hvar þú sért staddur í heiminum þannig að ég skellti mér í það að skrá mig.
Eftir að hafa notað þjónustuna núna í nokkrar vikur verð ég að segja að þetta er mikil bylting. Google Music þjónustan sjálf er kannski ekki svo mikil bylting út af fyrir sig en að hafa tónlistina í skýinu er bylting klárlega. Ég hef ekki opnað iTunes síðan ég byrjaði að nota þetta enda þörfin engin sem er stór plús þar sem að iTunes í Windows umhverfi er eflaust eitt það versta forrit sem til er.
Öll tónlistin er þannig aðgengileg í vafra sem og í símanum mínum sem er óneitanlega hrikalega þægilegt. Þegar ég kaupi plötu á netinu eða rippa geisladisk fattar Google fyrir einhvern kraftaverkamátt að ný tónlist sé komin og byrjar að senda það í skýið og þannig er Google Music alltaf með réttustu stöðuna af tónlistarsafninu mínu.
Svo ef að harði diskurinn minn skyldi hrynja að þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því hvenær ég tók afrit síðast eða neitt slíkt. Allt er þetta til hjá Google og ég þarf engar áhyggjur að hafa.
Skýið er framtíðin, ekki bara fyrir tónlist heldur fyrir allt. Myndir, skjöl og stillingar fyrir forrit og annað á allt að fara í skýið og verða þannig aðgengilegt fyrir notandann, óháð stýrikerfi og staðsetningu.
Held að mín besta upplifun af skýinu hingað til er þegar ég skipti út Galaxy S fyrir Galaxy S II og Google setti allar stillingar, sms og forrit sem ég hafði á gamla símanum yfir á þann nýja og ferlið tók aðeins nokkrar mínutur og fór fram hljóðlega bakvið tjöldin án þess að ég notandinn þurfti að gera nokkuð.
httpv://www.youtube.com/watch?v=ZrNhKcxBbZo