Björn Árnason

Í dag fórum við Kiddi bróðir að kveðja gamlan kennara úr Breiðholtsskóla sem dó 6.apríl langt fyrir aldur fram. Björn Árna var skemmtilegur kennari en líka talin einn sá strangasti. Vissulega var hann strangur eftir á að hyggja var það auðvitað nauðsynlegt að beita réttlátum aga á okkur krakkana, við gátum verið hrikaleg. Ekki ég kannski en sumir klárlega.

Frá Breiðholtsskóla árunum er Björn Árna einn af þeim kennurum sem maður gleymir aldrei. Það var skemmtilegt að hitta alla gömlu kennarana sem sumir mundu strax eftir manni þó að aðrir hafi verið lengur að kveikja. Það er víst svo að maður hefur eitthvað breyst eftir öll þessi ár.

Ég skrifaði litla minningargrein, mér fannst það einhvern veginn svo sjálfsagt og í senn nauðsynlegt að gera það.

Leyfi henni að fylgja með.

Í dag kveð ég gamlan vin minn Björn Árnason, kennara. Ég segi vin minn þrátt fyrir að vinskapur okkar hafi verið bundinn við tíma minn í Breiðholtsskóla. Ég, þar sem nemandi og hann sem kennari. Ég var kannski ekki alltaf sammála honum eða alltaf í uppáhaldi í tímum hjá honum. Ég átti það til að tala hátt og mikið og þá gat það gerst að honum fannst ég trufla kennslu einhverra hluta vegna og það endaði alltaf með því að ég lækkaði róminn og fór að fylgjast með, stundum tilneyddur. En inn á milli og í þáttöku minni í félagslífi skólans náðum við vel saman og þá kynntist ég betur þessum góða manni utan skólastofunnar.

Þegar maður hugsar til baka, til þeirra ára sem ég átti í skólanum eru það alltaf sömu nöfnin sem upp koma í hugann. Björn Árna er þar efstur á blaði ásamt Ragga,Jóa Atla og Hildi. Eftir Breiðholtsskóla sá ég líka betur og betur hversu góðir kennarar þar voru, og ekki bara góðir kennarar heldur líka svo gott fólk sem vildi manni aðeins vel og var að reyna að gera sitt allra besta fyrir unglinga sem töldu þetta allt stundum óþarft. Þó að Björn hafi kennt mér í mörg ár þá gat hann einhverra hluta vegna alls ekki munað hvað ég hét. Þegar við hittumst á förnum vegi einhverjum árum seinna breyttist það heldur ekki, alltaf skyldi ég bara vera litli bróðir Kidda og Óla. Eins og þeir eldri bræður mínir, sem ekki áttu það til að tala jafn mikið og stóðu sig eflaust betur en ég væru bara meiri menn að hans skapi. Það skyggði þó ekki á að alltaf spurði hann með áhuga hvað væri að frétta af mér og mínum og spurði um alla með nafni.

Mér er það einna minnistæðast úr tímum hjá Birni þegar við krakkarnir fengum afhent í skólanum hefti sem að innihélt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fyrir barn eins og mig var þessi sáttmáli eins og himnasending því þar stóð að öll börn mættu tjá sig að vild jafnt við fullorðna og það væri hreinlega bannað að hefta tjáningafrelsi þeirra. Þetta var eitthvað sem að Björn gat illa við unað í sinni skólastofu, þetta hefti hafði ekkert gildi í hans augum. Stuttu seinna var þetta hefti komið ofan í tunnu og eftir sat ég tómhentur og mállaus. Ég man að mér fannst sérstaklega ósanngjarnt að sami aðili setti regluna, dæmdi og framfylgdi henni og það allt framkvæmt af fullkomnum geðþótta.

Ef ég væri kennari í dag mundi ég ekki vilja hafa sjálfan mig fyrir 16 árum sem nemanda, ég hefði ekki þolinmæði í slíkt, sem sýnir hversu mikla þolinmæði Björn hafði fyrir málóðum strákum eins og mér sem alltaf hafði eitthvað til málanna að leggja. Sama hvort umræðuefnið var freðmýrar, Napoleon eða hvort það ætti ekki að hleypa okkur krökkunum fyrr úr tíma til að ná körfuboltavellinum.

Björn Árnason var kennari af þeim toga að maður vildi ekki valda honum vonbrigðum, maður vildi standa sig vel í einu og öllu. Hann hafði gert allt sitt og átti því það inni að maður reyndi að skila sínu á móti. Fyrir hönd bræðra minna og foreldra votta ég eiginkonu Björns, börnum og fjölskyldu þeirra okkar dýpstu samúð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s